Tæpur fjórðungur unglingsstúlkna á aldrinum 15-17 ára segist nýlega hafa upplifað að vera þvingaðar til þess að senda myndir af sér eða aðrar persónulegar upplýsingar yfir netið. Samkvæmt spurningakönnun sem fjölmiðlanefnd lagði fyrir í febrúar og mars á þessu ári höfðu 23,9 prósent stúlkna á þessum aldri upplifað slíkt á síðustu 12 mánuðum þar á undan.
Þetta er á meðal niðurstaðna í nýrri skýrslu sem fjölmiðlanefnd hefur unnið um niðurstöður könnunarinnar og varpar ljósi á „óviðunandi ástand“ og sýnir „grafalvarlega mynd af því umhverfi sem ungt fólk og þá sérstaklega ungar konur búa við á netinu í dag,“ að mati Skúla Braga Geirdal, sem er verkefnastjóri miðlalæsis hjá fjölmiðlanefnd.
Í skýrslu fjölmiðlanefndar segir að 6,3 prósent unglingsstráka á aldrinum 15-17 ára hafi að sama skapi upplifað þvingun um að senda af sér myndir eða aðrar persónulegar upplýsingar yfir netið, en einungis 0,6 prósent allra þeirra sem voru 18 ára og eldri.
Að upplifa þvingun í þessu tilliti var því helst bundið við yngstu aldurshópana.
Hið sama átti við um það að hafa lent í því að upplifa að myndum eða myndskeiðum af viðkomandi á netið í óþökk þeirra, en 17,9 prósent unglingsstúlkna á aldrinum 15-17 ára hafði lent í því og 13,8 prósent 15-17 ára stráka. Meðaltal í öðrum aldurshópum, 18 ára og eldri, var tvö prósent.
Yfir 20 prósent hættu að taka þátt í umræðum á netinu eftir háðung eða ögrun
Í skýrslu fjölmiðlanefndar kemur einnig fram að samkvæmt könnuninni hafi þriðjungur Íslendinga upplifað að lend í netsvindli, þar sem reynt var að hafa af þeim fé. Þá hafði tæpur fjórðungur upplifað hatursfull ummæli í umræðum á netinu og 11,5 prósent sögðust hafa upplifað að einhver hefði hæðst að þeim eða ögrað í umræðum á netinu.
Þeir sem höfðu upplifað ögrun eða háðung á netinu voru spurðir hvort það hefði haft áhrif á þátttöku þeirra í umræðum.
Einungis 27 prósent sögðu að það hefði ekki haft nein áhrif á þá, en helmingur aðspurðra sögðu að þeir væru orðnir varkárari við að lýsa skoðun sinni í umræðum á netinu.
Tæp 33 prósent sögðust hafa brugðist við með því að taka frekar þátt í umræðum í lokuðum hópum og 20,6 prósent sögðu viðbragðið hafa verið það að hætta að taka þátt í umræðum á netinu.
Rúm 15 prósent þeirra sem höfðu orðið fyrir ögrun sögðust hins vegar hafa brugðist við með því að ræða frekar við fólk sem væri sammála þeim.