Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir vanta upp á opinbera stefnumótun í loftslagsmálum til þess að Ísland geti orðið kolefnishlutlaust land. Katrín var í viðtali við Þukl í Hlaðvarpi Kjarnans í gær en um helgina sagði hún í ræðu á landsfundi Vinstri grænna, að Ísland eigi raunverulega möguleika á því að verða kolefnishlutlaust land.
„Ég held að Ísland geti gengið lengra [en við gerum nú þegar] og sagst ætla að draga úr losun óháð öðrum,“ segir Katrín. „Af því að við höfum svo mikil tækifæri til þess. Með þá orku sem við eigum þá ættum við að geta stigið framar, ef þetta yrði sett efst á dagskrá ríkisstjórnarinnar, sveitarfélaga um land allt og almennings.“
Markmið Íslands í loftslagsmálum er að draga úr losun um allt að 40 prósent árið 2030 miðað við árið 1990. Ísland fylgir Evrópusambandinu (ESB) og mun semja um „sanngjarnan hlut“ sinn við ríki Evópusambandsins að loftslagsráðstefnunni í París lokinni. Noregur fékk að taka þátt í markmiðum ESB eins og Ísland. Norsk stjórnvöld stefna að því að minnka losun um að minnsta kosti 40 prósent og stefna að kolefnishlutleysi árið 2050.
Ráðst þarf í miklar fjárfestingar til þess að kolefnishlutlaust Ísland geti orðið að veruleika, segir Katrín, og að þar þurfi að koma til samstarfs milli hins opinbera og einkageirans. „Við getum lært af því sem aðrar þjóðir hafa lent í. Hluti af vandanum, ef við lítum bara til Bandaríkjanna, er að það hefur verið erfitt að fara í raunverulegar aðgerðir í orkuskiptum því hagsmunir olíufélaganna eru svo miklir. Og það þarf einhvernveginn að vinna þetta saman,“ sagði hún í hlaðvarpsþættinum.
Katrín bendir á að stóriðjustefna stjórnvalda verði að breytast ef Ísland eigi að vera kolefnishlutlaust. „Jafnvel þó þar hafi verið reynt að takmarka mengun með nýrri tækni þá ber stóriðjan ábyrgð á 40 prósent af okkar losun,“ segir hún. „Og það er raun og veru fráleitt að tala um áframhaldandi uppbygginu stóriðju á sama tíma og við setjum markmið um kolefnishlutlaust Ísland.“
Að mati Katrínar á Ísland mikla möguleika á að verða í fararbroddi í heiminum þegar kemur að orkuskiptatækni. Hún telur öfluga háskóla og nýsköpunarsamfélag vera helstu tæki Íslendinga í þeim efnum. „Við ættum að huga að því hvernig við getum komið okkur þá stöðu með styrkjum, beinum styrkjum og skattalegum hvötum, þá ættum við Íslendingar að verða tilraunaland á sviði orkuskipta.“