Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir Íslendinga vera litna hornauga í alþjóðasamfélaginu vegna hvalveiða við stendur Íslands og tímabært sé að endurskoða hvalveiðarnar vegna þessa. Frá þessu er sagt á vef Skessuhorns í dag.
Gagnrýni alþjóðasamfélgsins kemur fram á fundum sem starfsmenn stjórnarráðsins og fulltrúar Íslands sækja erlendis. „Við hér í utanríkisráðuneytinu verðum vör við það frá fyrstu hendi á fundum sem við sækjum að Ísland er stundum litið hornauga vegna þessara veiða,“ segir Gunnar Bragi í viðtali við Skessuhorn. Ísland hafi jafnvel verið skilið útundan og ekki boðið á fundi um málefni hafsins vegna veiðanna.
Gunnar Bragi segist hins vegar merkja breytingar á þessu enda hafi íslenskar sendinefndir lagt sig fram um að færa rök fyrir veiðunum, velta upp lausnum og passað sig á að gera ekki lítið úr áhyggjum erlendis frá.
„Við eigum ekki að gefa eftir réttinn til að nýta þessa auðlind frekar en hverja aðra. En það er umhugsunarefni fyrir okkur hvort við ættum ekki að koma til móts við alþjóða hvalveiðiráðið til að mynda með því að veiða færri hvali árlega en við gerum nú,“ segir Gunnar Bragi.
Ísland fór fram á það á ráðstefnu alþjóða hvalveiðiráðsins árið 2010 að alþjóðlegu banni við hvalveiðum yrði létt, ásamt Noregi og Japan. Alls eru 88 ríki aðilar að ráðinu sem hefur til dæmis lagt til málamiðlun þar sem hvalveiðikvóti þeirra þjóða sem veiða verði minnkaður talsvert. Margir vísindamenn hafa hins vegar sagt slíkar málamiðlanir fráleitar. Hvalveiðibannið var sett á árið 1986.
Hvalveiðikvóti ársins 2015 er 154 langreyðar og 229 hrefnur.