Fyrirhugað hlutafjárútboð flugfélagsins PLAY hefst kl. 10:00 á fimmtudaginn í næstu viku og lýkur kl. 16:00 degi seinna. Þetta staðfestir Arctica Finance, sem sér um útboðið, í fjárfestatilkynningu sem birtist á vef Keldunnar fyrr í dag.
Samkvæmt tilkynningunni verða haldin tvö útboð með sitthvoru verðbilinu. Í öðru útboði verður hægt að kaupa hluti á 18 krónur á hlut en í hinu verður verðið á bilinu 18-20 krónur á hlut. Boðnar verða til sölu tæpar 222 milljónir hluta í félaginu, sem þýðir að heildarandvirði útboðsins mun nema 4-4,4 milljörðum íslenskra króna.
Í útboðslýsingu félagsins kemur fram að þessi fjármögnun muni hjálpa lausafjárstöðu þess enn frekar, en PLAY segist nú þegar hafa náð að safna tæpum sjö milljörðum króna í fjármögnun.
Búist er við að almenn viðskipti með hluti í PLAY hefjist föstudaginn 9. júlí. Arion banki verður söluaðili útboðsins ásamt Arctica Finance.