Óháð innlend smágreiðslulausn sem er án tenginga við alþjóðlega kortainnviði þarf að vera til staðar hér á landi, að mati fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans. Bankinn vinnur nú að uppbyggingu slíkrar lausnar hérlendis, en hún gæti falið í sér útgáfu svokallaðrar rafkrónu. Þetta kemur fram í nýjasta riti Fjármálastöðugleika Seðlabankans sem kom út í síðustu viku.
Samkvæmt Seðlabankanum fara allar kreditkortafærslur innlendra greiðslukorta í gegnum alþjóðlega innviði. Sömuleiðis fara nú 95% debetkortafærslna í gegnum slíka innviði, en þetta hlutfall var um 9% fyrir þremur árum síðan.
Áhyggjur af erlendu eignarhaldi
Morgunblaðið greindi frá því í ágúst síðastliðnum að Seðlabankinn hafi viðrað áhyggjur sínar við þjóðaröryggisráð af eignarhaldi og yfirráðum á þeim greiðslumiðlunarkerfum sem notast er við hér á landi. Í viðtali við miðilinn sagði Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, að bankinn ynni að uppbyggingu nýs óháðs kerfis í samstarfi við Reiknistofu bankanna.
Í nýjasta hefti Fjármálastöðugleika var farið nánar í þessa vinnu, en þar segir bankinn að óháð innlend rafræn smágreiðslulausn sem væri ótengd alþjóðlegum innviðum gæti meðal annars þjónað sem varaleið í innlendri smágreiðslumiðlun á tímum neyðar.
Rafkróna möguleg lausn
Guðmundur Kr. Tómasson, sem situr í fjármálastöðugleikanefnd, sagði útgáfu svokallaðrar rafkrónu vera eina leið til að gera greiðslumiðlun ódýrari hérlendis í hlaðvarpsþættinum Ekon sem kom út í júlí. Finna má þáttinn í Hlaðvarpi Kjarnans.
Samkvæmt Guðmundi yrði rafkrónan, sem gefin yrði út af Seðlabankanum, í raun rafrænt reiðufé sem hægt væri að nota, t.d. úr rafveski í síma, til að kaupa vörur og þjónustu beint og milliliðalaust. Hann bætir við að vinna að slíkri lausn væri komin langt á veg í Svíþjóð, en engin formleg ákvörðun hafi þó verið tekin þar í landi enn sem komið er.
Í Fjármálastöðugleika kemur fram að Seðlabankinn hafi skoðað útgáfu rafkrónu sem varagreiðslumiðlunarleið. Hins vegar segir bankinn að mörg álitaefni þarfnast frekari skoðunar áður en til ákvörðunar kemur um slíka útgáfu, en hann kannar nú möguleg áhrif hennar á peningastefnu og fjármálastöðugleika.