Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins vill að þakið á styrkjagreiðslum ríkissjóðs til einkarekinna fjölmiðla verði hækkað svo stærri fjölmiðlafyrirtæki, þar á meðal Árvakur, fái hærri upphæð í styrki en styrkir til minni fjölmiðla dragist saman. Þá vill útgáfufélagið að gripið verði til margháttaðra aðgerða til tryggja sanngjarnt rekstrarumhverfi á fjölmiðlamarkaði og að fjölmiðlum verði veittur óbeinn stuðningur með skattalækkunum. „Ef veita á beinan rekstrarstuðning þarf að horfa til þess að hann sé einfaldur, sanngjarn og nýtist til að styðja við raunverulega fjölmiðlun hér á landi en sé ekki svo rýr eða með svo lágu þaki að hann nýtist lítið eða skekki jafnvel samkeppnisstöðuna, eins og raunin er við núverandi fyrirkomulag.“
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í umsögn Árvakurs um fyrirliggjandi frumvarpsdrög Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um framlengingu á gildistíma styrkjakerfis við einkarekna fjölmiðla, þannig að styrkir verði greiddir út á árunum 2023 og 2024. Gert er ráð fyrir að árlegur kostnaður ríkissjóðs verði allt að 400 milljónir króna á ári og að lögin taki gildi 1. janúar næstkomandi.
Samkvæmt drögunum er stefna stjórnvalda að innan þessara ára verði „lagt fram nýtt frumvarp til fimm ára sem sé í takt við þá þróun sem er að verða á hinum Norðurlöndunum. Þannig verður Ísland ekki eftirbátur hinna landanna er kemur að stuðningi við einkarekna fjölmiðla.“
Ekki er tilgreint hvað eigi að felast í hinu nýja frumvarpi til fimm ára en heimildir Kjarnans herma að stefnt sé að því að leggja það fram næsta vor.
Vilja meira til stærstu fjölmiðlanna
Í umsögn Árvakurs er tilurð styrkjakerfisins ekki gagnrýnd, heldur mun frekar hvernig upphæðinni sem sé til skiptanna sé ráðstafað af of litlu leyti til útgáfufélagsins. Síðast gerði þakið sem sett er á styrki til einstakra fjölmiðla það að verkum að Árvakur, Sýn og Torg, þrjú stærstu fjölmiðlafyrirtæki landsins, fengu 67 milljónir króna hvert en hinir 22 fjölmiðlarnir sem uppfylltu skilyrði fyrir styrkjum skiptu því sem eftir stóð á milli sín. Alls fóru 53 prósent þeirra 381 milljóna króna sem greiddir voru í styrki til þessara þriggja fyrirtækja. Ef þakið yrði hækkað myndi stærri hluti af styrkjunum fara til þeirra þriggja stærstu. Að mati Árvakurs skekkja reglurnar um þakið samkeppnisstöðu á fjölmiðlamarkaði.
Fresta vanda fjölmiðla frekar en að leysa hann
Í samantekt um umsögn Árvakurs segir að frumvarpið breyti litlu fyrir einkarekna fjölmiðla frá því sem verið hefur „enda virðist ætlunin með því fremur að fresta því að taka á vanda fjölmiðla en að leysa hann.“ Forsvarsmenn Árvakurs gangast þó við að stuðningurinn, verði hann framlengdur, gagnist fjölmiðlum, en mismikið.
Verulegt áhyggjuefni sé hvernig stjórnvöld og Alþingi hafi nálgast það að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. „Margt er hægt að gera til að bæta rekstrarumhverfið fyrir utan að veita beina styrki. Ríkið getur hætt að keppa við einkarekna fjölmiðla á auglýsingamarkaði, ríkið getur leyft auglýsingar áfengis, sem almenningur hefur hvort eð er sér hvarvetna á netinu, og ríkið getur lagt sig fram um að jafna aðstöðu erlendra miðla sem notaðir eru hér á landi og innlendra miðla. Ekkert af fyrrgreindu getur talist stuðningur, miklu frekar að tryggja sanngjarnt rekstrarumhverfi. Ríkið getur veitt óbeinan stuðning eins og algengt er erlendis, svo sem með því að fella niður virðisaukaskatt af áskriftum prentmiðla og með þvi að afnema í heild eða hluta tryggingagjald hjá starfsmönnum fjölmiðla. Ef veita á beinan rekstrarstuðning þarf að horfa til þess að hann sé einfaldur, sanngjarn og nýtist til að styðja við raunverulega fjölmiðlun hér á landi en sé ekki svo rýr eða með svo lágu þaki að hann nýtist lítið eða skekki jafnvel samkeppnisstöðuna, eins og raunin er við núverandi fyrirkomulag.“
Undir umsögnina ritar Haraldur Johannessen, annar ritstjóri Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri Árvakurs, og Sigurbjörn Magnússon, stjórnarformaður félagsins. Sigurbjörn er faðir Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra í ríkisstjórn Íslands.
Ætti að fylgja verðlagsbreytingum
Nokkrar aðrar umsagnir bárust í Samráðsgátt stjórnvalda vegna frumvarpsdraganna. Í umsögn Torgs, útgáfufélags Fréttablaðsins og tengdra miðla, er ekki lýst stuðningi né andstöðu við megintilgang frumvarpsins, að greiða út styrki til einkarekna fjölmiðla. Þar eru hins vegar gerðar nokkrar athugasemdir við umsagnarfrest, kröfur um öflun álits sérfróðra aðila, kröfu um greinargerð um ráðstöfun styrkfjár, frádráttarbærni annarra styrkja og heildarfjárhæð stuðnings. Varðandi síðastnefnda atriðið þá snýst athugasemdin um að heildarupphæðin sem sé til úthlutunar, allt að 400 milljónum króna, hækki ekki í takti við verðlag í landinu. Á sama tíma hækki greiðslur til RÚV hins vegar í slíkum takti. Verði fjárlagafrumvarpið 2023 samþykkt í þeirri mynd sem það var lagt fram muni greiðslur úr ríkissjóði til RÚV hafa aukist um 720 milljónir króna á tveimur árum vegna verðlagsbreytinga. „Það er nær tvöföld sú fjárhæð sem nemur heildarstuðningi við einkarekna miðla eins og hann var fyrir árið 2021.“
Undir umsögn Torgs ritar Jón Þórisson, forstjóri félagsins og fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins.
Í umsögn Sýnar, sem rekur fréttastofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar, er lítið fjallað um efnisatriði frumvarpsins og mestu plássi eytt í aðrar aðgerðir sem gætu aðallega gagnast einkareknum afþreyingarmiðlum, meðal annars þeirra sem heyra undir Sýn.
Áherslan er aðallega á að rökstyðja hvatningu til stjórnvalda til að ljúka vinnu við skattlagningu erlendra efnis- og streymisveitna. Bent er á að kvaðir, til dæmis skattur, hafi þegar verið lagðar á erlendar efnisveitur í tólf ríkjum Evrópusambandsins og áform til staðar um að setja slíkar á í fimm til viðbótar..
Í niðurlagi umsagnar Sýnar er því beint til stjórnvalda að ljúka vinnu við skattlagningu erlendra efnis- og streymisveitna. „Skattféð mætti síðan nýta til að jafna samkeppnisstöðuna, sem og til að gæta að verndun íslenskrar tungu með því að framleiða enn meira af innlendu gæða sjónvarpsefni.“
Undir umsögnina skrifar Páll Ásgrímsson, lögfræðingur hjá Sýn.
Bændasamtökin himinlifandi með styrkjakerfið
Jákvæðasta umsögnin kom frá Bændasamtökum Íslands. Þau eru ekki atvinnugreinaflokkuð sem útgáfustarfsemi heldur sem hagsmunasamtök en hafa fengið rekstrarstyrk úr ríkissjóði vegna útgáfu Bændablaðsins. Hann var 16,8 milljónir króna í ár, eða 4,4 milljónum krónum meira en samtökin fengu í greiðslur í fyrra. Enginn einn aðili jók styrkjagreiðslur sínar meira milli ára.
Ritstjórn Bændablaðsins heyrir undir útgáfu- og kynningarsvið Bændasamtaka Íslands. Á heimasíðu Bændasamtakanna segir að hlutverk þeirra sé að vera „málsvari bænda og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna“. Meginmarkmið þeirra sé að „beita sér fyrir bættri afkomu bænda, betri rekstrarskilyrðum í landbúnaði auk þess að miðla upplýsingum og sinna fræðslu til sinna félagsmanna.“ Bændablaðið er sent endurgjaldslaust á öll lögbýli á Íslandi.
Lögfræðingur samtakanna, sem skrifar umsögnina, er hæstánægður með frumvarpsdrögin og segir að það þurfi vart að fjölyrða hversu mikilvægt Bændablaðið sé allri umræðu og upplýsingu þjóðarinnar. „Rekstrarumhverfi prentmiðils á borð við Bændablaðið hefur verið afar erfitt síðustu árin vegna gríðarlegra hækkana á gjaldahliðinni sem erfitt eða jafnvel ómögulegt er að mæta á tekjuhliðinni. Því er stuðningurinn sem hér um ræðir lykilatriði í því að hægt sé að halda úti vandaðri og upplýstri umræðu um landbúnað sem er einn af grunnatvinnuvegum landsins.“
Eina gagnrýnin sem sett er fram er sú að fjárhæð stuðningsins úr ríkissjóði endurspegli ekki verðlagshækkanir milli ára.
Kjarninn er eitt þeirra fjölmiðlafyrirtækja sem nýtur opinbers rekstrarstuðnings.