Útgáfufélag Stundarinnar var rekið með 1,2 milljóna króna tapi á síðasta ári, sem er viðsnúningur frá árinu 2020, en þá hagnaðist Stundin um 7,2 milljónir. Tekjur félagsins námu alls 233,9 milljónum og hækkuðu um rúm 4 prósent á milli ára.
Þetta má lesa í ársreikningi útgáfufélagsins, sem skilað var inn til Skattsins í upphafi mánaðar. Í skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins segir að eftir lok reikningsársins 2021 hafi tekjur félagins aukist verulega, en kostnaður einnig að sama skapi.
Það tengist væntanlega nýlegum skipulagsbreytingum hjá miðlinum og áhrifum þeirra, en í janúarmánuði var tilkynnt að Jón Trausti Reynisson myndi stíga úr stóli annars tveggja ritstjóra og verða í kjölfarið framkvæmdastjóri útgáfufélagsins og blaðamaður á miðlinum.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir er ein aðalritstjóri eftir þessar breytingar, en blaðamaðurinn Helgi Seljan bættist við hóp starfsmanna í febrúar og er hann rannsóknarritstjóri miðilsins.
85 prósent tekna frá almenningi
Stjórn útgáfufélagsins telur líklegt að vaxandi verðbólga komi til með að valda þrýstingi til tekjulækkunar, hvort sem er að raun- eða nafnvirði, auk kostnaðarhækkunar. Í skýrslu stjórnarinnar kemur fram að um 85 prósent af öllum tekjum Stundarinnar komi beint frá almenningi í gegnum áskriftakaup, styrki eða lausasölu blaða.
Í skýrslu stjórnar kemur fram að Stundin hafi ekki nýtt sér nein úrræði stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins, en að aðhalds hafi verið gætt í rekstrinum á árinu 2021.
Fjallað er um áframhald opinbers rekstrarstuðnings við fjölmiðla í ársreikningi Stundarinnar og tekið fram að óvissa er um áframhald þess stuðnings, þrátt fyrir að fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar geri ráð fyrir að hann haldi áfram.
Því er ekki enn ljóst hvort rekstrarstuðningur komi á móti ritstjórnarkostnaði sem fellur til á reikningsárinu 2022, sem síðan fengist greiddur á árinu 2023. Stundin fékk 25,3 milljónir í opinberan rekstrarstuðning á síðasta ári, eða sem nam tæpum 11 prósentum af heildartekjum fjölmiðilsins.
Samkvæmt ársreikningi voru tólf stöðugildi hjá útgáfufélaginu á árinu 2021 og hafði þeim fjölgað um tvö frá fyrra ári. Kostnaður fyrirtækisins vegna launa og launatengdra gjalda nam alls 127,4 milljónum króna í fyrra.