Færa má rök fyrir því að Landspítalann skorti fjármagn, þrátt fyrir að fjárframlög til hans hafi hækkað töluvert á síðustu árum. Þetta skrifar Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor í HÍ, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Í greininni sýnir Gylfi ýmsar leiðir til að mæla þróun opinberra útgjalda til Landspítalans síðustu 20 árin. Ein þeirra leiða er að setja fjárframlögin á fast verðlag með vísitölu neysluverðs, en með því fæst virði útgjaldanna mældur í vöru og þjónustu á hverju ári fyrir sig. Einnig væri hægt að festa verðlagið með launavísitölunni, en þannig fengist virði útgjaldanna til Landspítalans mælt í fjölda starfsmanna sem hægt væri að ráða.
Með samsettri vísitölu úr bæði verðhækkunum og launahækkunum mælir Gylfi útgjaldaaukningu ríkissjóðs og ber svo hana saman við fjárþörfina fyrir heilbrigðisþjónustu. Þessi fjárþörf hefur einnig aukist á sama tíma, meðal annars vegna fólksfjölgunar og öldrunar þjóðarinnar.
Aukin þörf á heilbrigðisþjónustu
Samkvæmt útreikningum Gylfa hefur rekstrarframlög ríkissjóðs aukist töluvert á síðustu 20 árum, en sú aukning virðist þó aðallega vera vegna launahækkana í samfélaginu. Ef tekið er tillit til þessara launahækkana hafa útgjöld hins opinbera í raun minnkað miðað við fjárþörfina á heilbrigðisþjónustu á síðustu árum.
Með þessu segir Gylfi að bæði stjórnmálamenn og stjórnendur Landspítalans hafi nokkuð til síns máls í sínum málflutningi á síðustu vikum. Fjárframlög til Landspítalans hafi vissulega aukist , en þar sem aukningin sé ekki í takti við launaþróun og meiri þörf fyrir sjúkrahúsþjónustu geti stjórnendur kvartað undan skorti á fjármögnun með tilheyrandi erfiðleikum í starfsmannahaldi.
„Eftir stendur að mikilvægt er að fjármagn sé notað á skynsamlegan hátt innan heilbrigðiskerfisins,“ skrifar Gylfi. „Rekstur þess er flókinn og hagsmunir fara ekki alltaf saman. Þeir sem veita þjónustuna vita meira en þeir sem þiggja hana og þriðji aðili, þ.e.a.s. ríkissjóður, greiðir að miklu leyti fyrir hana.”
Hægt er að lesa grein Gylfa í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.