Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar útilokaði ekki, í samtali við Pál Magnússon þingmann Sjálfstæðisflokksins í þætti hans á Hringbraut í gærkvöldi, að flokkurinn gæti einn daginn sameinast Sjálfstæðisflokknum. Hún sagðist ekki „útiloka eitt eða neitt“, en til þess þyrfti að snerta á öllum helstu kjarnamálum Viðreisnar, sem væru ekki bara Evrópumálin. „Það er langt í það,“ sagði Þorgerður Katrín í þættinum.
Formaðurinn sagði frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins stundum tala eins og Evrópumálin væru bara eitt mál, en þau væru víðfem og snerust um efnahagslegan stöðugleika, félagslegan stöðugleika og það hvar Ísland vildi standa og taka afstöðu á alþjóðlega sviðinu. Leyfa þyrfti þjóðinni að ákveða hvernig þessum málum yrði háttað. Einnig væru prinsippmál í kjarnastefnu Viðreisnar á borð við auðlindamál og jafnt vægi atkvæða, sem þyrfti að koma til móts við.
„Ef við getum talað um þessi mál, öll þessi mál verði snert með einhverjum hætti, þá ætla ég ekkert að útiloka eitt eða neitt,“ sagði Þorgerður Katrín, en bætti við að reynslan væri sú að hvorki „Sjálfstæðisflokkurinn né hinir íhaldsflokkarnir“ í ríkisstjórninni vildu gera nokkuð með þessi mál.
Áfengismál „ær og kýr“ Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar
Þorgerður Katrín, sem er fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í viðtalinu við Pál að Viðreisn hefði reynt að leggja til allskonar mál á kjörtímabilinu sem hefðu leitt til aukins frjálsræðis sem bæði aðrir flokkar í stjórnarandstöðu og ríkisstjórnin hefði fellt, til dæmis varðandi heilbrigðismál og einnig „lítil mál“ og áfengisslöggjöfina, sem hún kallaði „ær og kýr“ Sjálfstæðisflokksins er kæmi að kosningum en ekkert gerðist með þess á milli.
„Stærsta frelsismálið“, sagði Þorgerður Katrín, er gjaldmiðillinn. „Það er stöðugur gjaldmiðill og að við verðum með viðskiptafrelsi hér í alþjóðlegu samstarfi í staðinn fyrir að vera í stöðugleika innan í einhverri gjaldeyrishaftabúbblu eins og ríkisstjórnarflokkarnir.“
Staða Sjálfstæðisflokksins veik gagnvart Vinstri grænum
Þorgerður Katrín sagði í viðtalinu að það væri alveg ljóst að núverandi ríkisstjórn væri ekki að fara breyta neinu í sjávarútvegsmálum, gjaldmiðilsmálum og varla miklu í heilbrigðismálum, ef hún héldi áfram.
Hún sagði stöðu Sjálfstæðisflokksins mjög veika í stjórnarmyndunarviðræðum gagnvart Vinstri grænum ef þær væru framundan, og benti á að rúm 70 prósent kjósenda Vinstri grænna hefðu lýst sig andsnúin áframhaldandi stjórnarsamstarfi flokksins við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn í könnun fyrr í sumar.
„Hvað þýðir það, það þýðir einfaldlega það að heilbrigðisráðherraefni kemur frá Vinstri grænum. [...] Staða Vinstri grænna í stjórnarmyndunarviðræðum er það sterk gagnvart Sjálfstæðisflokknum að Sjálfstæðisflokkurinn þarf að kaupa það mjög dýru verði að fara aftur inn í ríkisstjórn, en það dýra verð er hann samt tilbúinn að greiða af því að þá breytist ekkert í sjávarútvegi á meðan. Og það er það sem er svo hættulegt,“ sagði Þorgerður Katrín og bætti við að sama stjórn myndi þýða fjögur ár til viðbótar af kyrrstöðu í grundvallarmálum þjóðarinnar.
Athugasemd ritstjórnar: Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt frá því að hún birtist fyrst.