Silja Bára Ómarsdóttir er nýkjörinn formaður Rauða krossins á Íslandi og hún segir að í starfi Rauða krossins hafi þau fundið fyrir því að flóttafólk frá öðrum upprunalöndum en Úkraínu upplifi að því sé mismunað.
Silja Bára var gestur í Silfrinu á RÚV þar sem hún sagði óásættanlegt að senda eigi 300 flóttamenn frá Íslandi til Grikklands á næstu misserum. Um er að ræða fólk sem ekki var hægt að senda til baka á meðan á kórónuveirufaraldrinum stóð. Sagði Silja að mannúðlegra væri að veita fólkinu, sem hafi fest hér rætur, dvalarleyfi.
Loks sagði Silja að íslensk stjórnvöld væru að nýta sér Dyflinnarreglugerðina í öðrum tilgangi en henni var ætlað. „Hún var sett til þess að tryggja það að umsækjendur um alþjóðlega vernd fengju efnislega meðferð sinna umsókna einhversstaðar. Og við notum hana til að senda fólk í fyrsta land vegna þess að það er heimild, en ekki skylda.“
Hún segir óásættanlegt að mismunandi viðhorf séu til flóttafólks eftir upprunalandi. „Flóttafólk á að njóta sama réttar, sama hvaðan það kemur. Íslensk stjórnvöld hafa verið að herða sína útlendingastefnu. Við erum að taka upp stefnu sem er með því harðari, við erum að elta Norðurlöndin í þeirra hörðustu stefnum.“