Grísk stjórnvöld, fulltrúar Evrópusambandsins, Alþjóðagjaleyrissjóðsins og annarra kröfuhafa Grikklands, reyna nú til þrautar að ná samkomulagi um endurskipulagningu á skuldum landsins, einkum gjalddögum sem framundan eru á næstu mánuðum. Þar á meðal er gjalddagi upp á 1,6 milljarð evra 30. júní næstkomandi.
Louka Katseli, formaður stjórnar seðlabankans í Grikklandi, segir í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC að það sé „brjálæði“ að semja ekki um skuldir landsins og hagræðingaraðgerðir. Jafnframt sagði hún að ekki væri aðkallandi hætta á því að bankar landsins yrðu peningalausir, vegna áhlaups, en Seðlabanki Evrópu, móðurbanki seðlabanka Grikklands, hefur undanfarin misseri haldið gríska bankakerfinu gangandi með neyðarlánum.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, lét hafa eftir sér í gær að þeir sem væru að vinna að því að endursemja um skuldir Grikkja hefðu helgina til þess, og ekki stundinni lengur. Ef ekki dregur til tíðinda í dag gæti Grikklandi klofið sig út úr evrusamstarfinu og upplifað mikla efnahagslega erfiðleika.