Vanda Sigurgeirsdóttir, sem var fyrst kjörin formaður Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) í október í fyrra, var endurkjörin formaður á ársþingi sambandsins í dag. Hún atti þar kappi við Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, og fékk yfirburðarkosningu. Vanda fékk alls 105 atkvæði, ða rúmlega 70 prósent greiddra atkvæða, en Sævar 44, eða tæplega 30 prósent greiddra atkvæða.
Vanda var kjörin í fyrrahaust í kjölfar þess að Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, sagði af sér embætti auk þess sem stjórn sambandsins vék í heild sinni. Það gerðist eftir að frásagnir af kynferðisofbeldi og áreitni landsliðsmanna í knattspyrnu komu upp á yfirborðið.
Að mati nefndarinnar mátti til sanns vegar færa að yfirlýsingarnar hafi borið með sér ákveðin merki þöggunar- og nauðgunarmenningar, þar sem því var í reynd hafnað í yfirlýsingunum að mál kvennanna hefðu komið til vitundar KSÍ.
Guðni Bergsson sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í kjölfarið að hann hafi borið ábyrgð á viðbrögðum sambandsins, vegna þeirra ofbeldismála sem komu upp í formannstíð hans. Sömu sögu væri að segja um miðlun upplýsinga til fjölmiðla og almennings. „Þar hefði ég getað gert betur.“