Greina þarf hvort og þá með hvaða hætti unnt er að mæta ýmsum sjónarmiðum varðandi tekjuöflun Háskóla Íslands, án þess að til samdráttar komi, nái lagafrumvarp um bann við spilakössum fram að ganga að mati Háskólans. Í umsögn sem send var frá Háskólanum við frumvarp um bann við spilakössum segir að skólinn geti ekki verið án þeirra fjármuna sem Happdrætti Háskóla Íslands (HHÍ) aflar fyrir skólann.
Í umsögninni er einnig sagt að vandi einstaklinga með spilafíkn verði ekki leystur með því að banna spilakassa. „Þá er miklum vafa undirorpið að sá vandi sem er tilefni frumvarpsins og reifaður er í greinargerð, verði leystur með boðum og bönnum. í því samhengi er til skoðunar í starfshópi, sem háskólarektor hefur skipað, með hvaða hætti unnt er að mæta ýmsum sjónarmiðum sem fram hafa komið varðandi leiðir við tekjuöflun Happdrættisins, án þess að til samdráttar komi og jafnframt um leið að draga úr mögulegum skaða einstaklinga. Málið er í vinnslu og niðurstöður liggja ekki fyrir að svo stöddu.“
Háskólinn tekur undir þær áhyggjur sem lýst er í greinargerð frumvarpsins um vanda þeirra sem glíma við spilafíkn. „Hins vegar er mikilvægt að mál af þessu tagi séu skoðuð heildstætt og ekki hrapað að niðurstöðu,“ segir enn fremur í umsögn Háskólans sem undirrituð er af Jóni Atla Benediktssyni rektor skólans.
HHÍ fjármagnað nær allar byggingar Háskólans
Happdrætti Háskóla Íslands aflar tekna með þrenns konar hætti. HHÍ var stofnað árið 1933 og hefur aflað fjár með happdrættum allt frá árinu 1934. Árið 1987 hóf HHÍ að selja skafmiða, hinar svokölluðu happaþrennur, og árið 1993 voru fyrstu spilakassar HHÍ teknir í notkun undir merkjum Gullnámunnar.
Fram kemur á heimasíðu HHÍ að frá stofnun hafi happdrættið fjármagnað nær allar byggingar Háskóla Íslands en allur hagnaður af rekstri HHÍ fer til uppbyggingar Háskóla Íslands. Nýjasti aðgengilegi ársreikningur happdrættisins er frá árinu 2019. Þar kemur fram að framlag HHÍ til Háskóla Íslands nam 580 milljónum króna árið 2019. Árið áður runnu tæpir 1,2 milljarðar króna frá HHÍ til Háskólans. Vert er að taka fram að hagnaður HHÍ kemur ekki alfarið frá rekstri spilakassa, heldur eru tekjustoðirnar þrjár, happdrættið, happaþrennurnar og spilakassarnir.
Spilakassar séu hannaðir til að ýta undir fíkn
Frumvarpið sem um ræðir er flutt af þingmönnum Flokks fólksins, þeim Ingu Sæland og Guðmundi Inga Kristinssyni. Í frumvarpinu er lagt til að lögum um happdrætti Háskóla Íslands og lögum um happdrætti verði breytt þannig að rekstur spilakassa verði bannaður.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að fjárhættuspil hér á landi séu almennt bönnuð. Tíðkast hafi að veita góðgerða- og almannaheillafélögum undanþágu frá banni við fjárhættuspilum til að starfrækja happdrætti, hlutaveltu, getraunir og spilakassa. Undanfarið hafi hins vegar skapast umræða um rekstur spilakassa og „hvort sú starfsemi sé í raun svo skaðleg að rétt sé að banna hana með öllu.“
Flutningsmenn segja í greinargerðinni að spilakassar séu hannaðir til að ýta undir spilafíkn. „Ólíkt happdrættum þá skila þeir niðurstöðu samstundis og hægt er að taka þátt strax aftur. Það ýtir undir vanamyndun og því eru þátttakendur mun líklegri til að þróa með sér fíkn heldur en þátttakendur í happdrættum. Þá er útreiknað vinningshlutfall spilakassa almennt hærra en sambærilegt hlutfall í happdrættum og það getur ýtt undir ranghugmyndir notenda um afleiðingar þátttöku.“
Þá segir í greinargerðinni að velta spilakassa sé yfir milljarður króna á ári þrátt fyrir að notendur séu fáir. „Það gefur til kynna að veltuna megi að mestu leyti rekja til spilafíkla sem eyði verulegum fjármunum í fíkn sína.“
Tekjutap verði bætt
Til viðbótar við bannið er í frumvarpinu bráðabirgðaákvæði sem kveða á um að ríkið muni koma til móts við það tekjutap sem rekstraraðilar stæðu frammi fyrir ef frumvarpið yrði að lögum. Þannig er gert ráð fyrir að ráðherra geri samning við Háskóla Íslands um fjármögnun uppbyggingar og viðhalds fasteigna á Háskólasvæðinu. „Áætlað tekjutap Happdrætti Háskóla Íslands vegna lokunar spilasala árin 2021–2024 skal jafna á móti greiðslum vegna samnings um uppbyggingu og viðhald fasteigna á Háskólasvæðinu.“
Annað bráðabirgðaákvæði gerir ráð fyrir að ríkissjóður muni greiða hluthöfum Íslandsspila bætur að fjárhæð eins milljarðs króna á ári, árin 2021–2024. Í þessu bráðabirgðaákvæði er lagt til að 64 prósent greiðslnanna renni til Rauða krossins á Íslandi, Slysavarnafélagið Landsbjörg fái 26,5 prósent og SÁÁ fái 9,5 prósent.
Athygli vekur að SÁÁ er hér talið upp en SÁÁ er ekki lengur í hópi hluthafa Íslandsspila. Seint á síðasta ári samþykkti stjórn SÁÁ að hætta þátttöku í rekstri félagsins en samstarfi milli SÁÁ og Íslandsspila var formlega slitið í apríl síðastliðnum.
Landlæknir styður bann við spilakössum
Meðal þeirra sem skilað hafa inn umsögn er embætti landlæknis en embættið styður bann við spilakössum. Í umsögninni segir að þátttaka í spilakössum sé sú tegund fjárhættuspila sem tengist helst spilafíkn. Ein af ástæðunum fyrir því er sögð vera lengd hvers leiks, leikirnir séu stuttir og því fáist niðurstaða iðulega hratt.
„Tíðni endurgjafar í formi vinnings, sem oftast er smávinningur, er mikil og fólk upplifir að það hafi stjórn á leiknum sem er tálsýn þar sem niðurstaðan er ávallt tilviljunum háð. Í sumum spilakössum er möguleiki að geta notað stopp-takka sem ýtir undir þessa ályktunarvillu spilarans um að hann hafi stjórn á leiknum því niðurstaða leiksins var í raun ákveðin,“ segir í umsögn embættis landlæknis.
Samtök áhugafólks um spilafíkn tekur í sama streng í sinni umsögn og segir það margsýnt að spilakassar hafi í för með sér skaðsemi fyrir þá sem ánetjast þeim, aðstandendur þeirra og samfélagið allt.
Rauði krossinn á Íslandi og Slysavarnafélagið Landsbjörg senda inn sína umsögnina hvort, en eins og áður hefur komið fram reka félögin saman Íslandsspil. Umsagnir þeirra eru nokkuð svipaðar. Félögin telja það mikilvægt að starfshópur dómsmálaráðherra, sem fjalla á um happdrætti og fjárhættuspil, fái að ljúka sinni vinnu áður en frumvarpið er sett fram. Hópnum er ætlað að skila fyrstu tillögum sínum um breytingar á lögum og reglugerðum um happdrætti, teljist þær nauðsynlegar, eigi síðar en 1. júní. Í hópnum sitja aðilar sem tilnefndir voru af Samtökum áhugafólks um spilafíkn og happdrættisfyrirtækjum auk fulltrúa hins opinbera.