Veikindi Kim Jong-un, æðsta leiðtoga Norður-Kóreu, kunna að hafa orðið að jarðvegi fyrir hallarbyltingu í höfuðborg Norður-Kóreu. Leiðtoginn hefur ekki komið opinberlega fram í rúman mánuð og misst af mörgum mikilvægum atburðum í sögu þjóðarinnar undanfarinn mánuð, eins og Kjarninn greindi frá á dögunum.
Meðal annars lét hann ekki sjá sig þegar stofndagur norður-kóreska alþýðulýðveldisins var haldinn hátíðlegur í síðasta mánuði. Það sem fékk fólk til að halda að ástandið væri orðið alvarlegt var þegar hann lét ekki sjá sig til að hylla íþróttamenn landsins þegar þeir snéru heim af Asíuleikunum fyrir helgi.
Þvert á móti voru aðrir embættismenn mun sýnilegri en leiðtoginn sjálfur, sem er óvanalegt í Norður-Kóreu þar sem leiðtogadýrkunin er slík að himinn og jörð snúast í kringum hann og ekkert gerist nema hann hafi ákveðið það. Þrír háttsettir embættismenn dúkkuðu nefnilega upp á lokahátíð Asíuleikanna í Seúl í nágrannaríkinu í suðri. Komu tveggja þeirra mátti auðveldlega skýra af tilefninu. Annar þeirra hefur með íþróttir að gera og hinn hefur tengsl í Seúl. Þriðji maðurinn var hins vegar á útivelli og vakti koma hans furðu.
Hwang Pyong-so er meðlimur Skipulags- og leiðsagnarstofnunnar Norður-Kóreu sem heldur miklum völdum í landinu. Völd stofunarinnar eru slík að stjórnmálaskýrendur telja að þau ógni völdum Kim Jong-un. Formleg viðurkenning stjórnvalda á að leiðtoginn „þjáist af óþægilegum kvillum“ hefur verið sem olía á eld þeirra sem telja að hallarbylting hafi verið gerð í Norður-Kóreu.
„Aftaka Sung-taek var það sem braut allar reglur. Það má ekki snerta fjölskyldumeðlim Kim-fjölskyldunnar opinberlega. Eftir að Sung-taek var tekinn af lífi er Kim Jong-un umkringdur meðlimum stofnunarinnar.“
Þar er Hwang Pyong-so í lykilhlutverki. Hann kemur nú opinberlega fram fyrir hönd þjóðarinnar á einum stærsta íþróttaviðburði í Asíu auk þess sem Jang Jin-sung, fyrrum hátt settur embættismaður í öryggisráðuneyti landsins, telur Norður-Kóreu vera í miðri borgarastyrjöld. Jang talaði á ráðstefnu útlaga frá Norður-Kóreu sem haldin var í Hollandi í síðasta mánuði og sagði að Skiplags- og leiðsagnarstofnunin sé nú hætt að fylgja skipunum leiðtogans unga eftir að hafa fylgt föður hans Kim Jong-il í hvert fótmál á meðan sá lifði. Hlutverk Hwang innan stofnunarinnar er hins vegar óþekkt.
Ómeðvitað borgarastríð
Jang Jin-sung telur jafnframt að hallarbyltingin hafi verið gerð í fyrra og að Kim Jong-un þjóni aðeins sem strengjabrúða Skipulags- og leiðbeiningastofnunarinnar. Jang hefur síðan hann gerðist útlagi frá Norður-Kóreu ritað minningar sínar af starfinu undir Kim Jong-il og gerst rannsakandi hjá Þjóðaröryggisstofnuninni í Seúl. Þá gefur hann út New Focus International, sjálfstæða útgáfu um fréttir frá Norður-Kóreu og greiningar á ástandinu í landinu.
Jang sagði á ráðstefnunni í Hollandi tvær fylkingar takast á um völdin í Norður-Kóreu. „Annars vegar er það fólk sem vill halda í einræðið. Hins vegar eru það þeir sem vilja nýta tækifærið til að fá áhrif. Það er þó ekki þannig að fólk sé að berjast gegn einræðinu. Þetta er ekki meðvitað borgarastríð í raun, heldur aðeins tvær fylkingar sem eiga ekki samleið,“ sagði Jang í samtali við Vice News.
Valdaránið telur Jang hafa orðið á svipuðum tíma og frændi Kim Jong-un, Jang Sung-taek, var tekinn af lífi á hrottafenginn hátt fyrir tæpu ári síðan. „Aftaka Sung-taek var það sem braut allar reglur. Það má ekki snerta fjölskyldumeðlim Kim-fjölskyldunnar opinberlega. Eftir að Sung-taek var tekinn af lífi er Kim Jong-un umkringdur meðlimum stofnunarinnar.“
Á meðan þessu stendur er Kim Jong-un fjarri góðu gamni. Suður-kóreskir miðlar greindu frá því fyrir hálfum mánuði að ónafngreindir heimildamenn segðu Kim vera stórreykingamann, þjást af gigt, offitu, sykursýki og allt of háum blóðþrýstingi. Aðrir ónafngreindir heimildamenn segja norður-kóreska lækna hafa heimsótt Evrópulönd til að finna leiðir til að lækna Kim. Þá er talið að evrópskir læknar hafi jafnvel ferðast til kommúnistaríkisins á Kóreuskaga til að líta á leiðtogann.
Með för sinni til Seúl braut Hwang gegn æðstu reglu einræðisins í Pyongyang; þar er mönnum stranglega bannað að vera annar eða þriðji valdamesti maður landsins. Það var ekki síst vegna þess að Hwang var í fylgd tveggja öryggisvarða sem þessi regla var brotin því enginn annar en æðsti leiðtoginn má ferðast í fylgd sýnilegrar gæslu. (Sjá efstu mynd fréttarinnar).
Kim Jong-un sást síðast opinberlega þegar hann heimsótti verksmiðju í Pyongyang.
Varast skal fregnir
Jafnvel þó vísbendingarnar líti út fyrir að vera áreiðanlegar og undirbyggja skýringar fyrir valdaráni vilja bandarísk yfirvöld ekki taka svo djúpt í árina að Kim Jong-un hafi verið velt af stóli. Þá er hætt á því að skýringar á fjarveru Kim séu að hann sé veikur og geti ekki sinnt hefðbundnum stjórnarathöfnum.
Yngri systir hans, Kim Yo-jong, hefur til að mynda hlotið aukin völd í fjarveru bróður síns, þó hún hafi ekki forsæti á norður-kóreska þinginu. Yo-jong kom til að mynda fyrst fram opinberlega á þessu ári. Systirin er ekki ókunnug völdunum í Pyongyang því hún starfaði sem hjálparhella föður síns Kim Jong-il þegar sá lá fyrir dauðanum.
Opinberar skýringar fyrir óvæntri heimsókn Hwang Pyong-so til Seúl eru að æðstu flokksmenn hafi verið sendir alla leið á Asíuleikana til að hylla íþróttamennina, „sem án undantekninga fögnuðu föðurlandinu með óviðjafnanlegum eldmóði“. Kim Jong-un er jafnframt sagður hafa sent þessa menn persónulega og séð þeim fyrir sérstakri flugvél.
Til þess að sýna fram á að hallarbylting hafi verið gerð í Norður-Kóreu þarf fleiri vísbendingar og staðfestingar á að grafið sé undan völdum Kim Jong-un. Leiðtoginn er sagður búa í vel útilátnu sumarhúsi fjölskyldunnar utan höfuðborgarinnar þar sem hann hlýtur lækningu við kvillum sínum.