Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir það rangt að samstaða ríki innan ríkisstjórnarinnar um það að vísa tæplega 300 flóttamönnum úr landi innan tíðar, líkt og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur haldið fram. Hann segist hafa gert „alvarlegar athugasemdir“ við þá vegferð sem Jón væri á og að hann væri ekki ánægður með það hvernig Jón hafi haldið á málinu. „Nei, ég get ekki sagt að ég sé það. Ég held að það sé alveg ljóst af mínum orðum.“
Þetta kom fram í viðtali við Guðmund Inga í tíufréttum RÚV í kvöld.
Hann segist þó vonast til þess að niðurstaða náist í málinu líkt og í fjölmörgum öðrum málum sem ekki hefur ríkt eining um innan ríkisstjórnarinnar.
Fyrir helgi var greint frá því á forsíðu Fréttablaðsins að flóðbylgja brottvísana þeirra sem sótt hafa hér um vernd sé framundan. Alls telur hópurinn tæplega 300 manns. Stór hluti þeirra á að fara til Grikklands.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í Kastljósi í kvöld að samstaða ríkti innan ríkisstjórnarinnar um að framkvæma brottvísun fólksins og að skýrar reglur giltu um það. „Við höfum skýrar reglur til að vinna eftir og það eru í sjálfu sér engar breytingar á því.“
Fleiri ráðherrar gerðu athugasemdir við vegferð Jóns
Útlendingamál heyra ekki einungis undir dómsmálaráðuneytið. Hluti málaflokksins er hjá félagsmálaráðuneytinu, sem er stýrt af Guðmundi Inga, varaformanni Vinstri grænna (VG).
Hann sagði í tíufréttum RÚV í kvöld að það væri ekki rétt hjá Jóni að algjör samstaða væri um málið í ríkisstjórninni. „Ég gerði mjög alvarlegar athugasemdir við þá vegferð sem ráðherrann er á í ríkisstjórn í morgun og benti þar á að það er liðin talsverður tími hjá sumum frá því að brottvísunarákvörðun var tekin. Það þarf að líta til þessa hóps, hvort að það séu sérstakar aðstæður, hvort að þarna séu börn sem séu búin að vera ákveðið lengi hér á landi, mögulega fatlað fólk og veikt.“
Hann sagði enn fremur að horfa þyrfti til þess tíma sem hópurinn hefði dvalið hérlendis og hverjar aðstæður væru í móttökulandinu, en þar hefur sérstaklega verið gagnrýnt að til standi að senda stóran hluta hópsins til Grikklands, en mannúðarsamtök hafa ítrekað sagt að aðstæður flóttafólks þar séu með öllu óboðlegar.
Guðmundur Ingi sagði að fleiri ráðherrar hafi gert athugasemdir við vegferð Jóns á ríkisstjórnarfundinum í morgun en vildi ekki segja hverjir það voru. Þeir þyrftu sjálfir að greina frá því.
„Þetta er bara rangt“
Aðspurður um orð dómsmálaráðherra í Kastljósi kvöldsins og þýðingu þeirrar stöðu sem komin er upp á stjórnarheimilinu sagði Guðmundur Ingi: „Í mínum huga er þetta bara rangt. Það er bara þannig. Þetta er rangt“.
Hann sagðist vona að það tækist að leysa úr málinu. „Ég fylgi mannúðlegri útlendingastefnu VG, það er í okkar stefnu. Að mínu viti þurfum við að taka þetta mál til sérstakrar skoðunar og greina hópinn betur.“
Sú greining eigi að leiða til þess að skýrara liggi fyrir hvort einhverjir úr hópnum eigi að geta fengið vernd á Íslandi.