Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, fyrirskipaði aftöku varaforsætisráðherra stjórnar sinnar í maí, að sögn suður-kóresku fréttastofunnar Yonhap. Choe Yong-gon var tekinn í af lífi með byssuskotum af aftökusveit í byrjun sumars eftir að hafa lýst „óþægindum sínum með skógræktarstefnu leiðtogans“, hefur Yonhap eftir heimildum sínum. Suður-kóresk stjórnvöld hafa ekki getað staðfest fregnirnar en hafa skoðað málið eftir að fjarvera Choe varð áberandi.
Ráðuneyti sameiningar í Suður-Kóreu sagði í yfirlýsingu að Choe hafi ekki sést opinberlega í átta mánuði. „Hann sást síðast í desember við hátíðarhöld á þriggja ára dánarafmæli Kim Jong-il. Ráðuneytið fylgist náið með til að komast að því hvað kann að hafa orðið um hann.“
Njósnastofunun Suður-Kóreu í Seoul staðfesti að hvarf Choe gæti verið enn önnur aftaka hátt setts ráðamanns í Norður-Kóreu eftir að Kim Jong-un tók við af föður sínum árið 2011, bæði úr röðum hersins og stjórnvalda. Í apríl var Hyon Yong-chol, yfirmaður varnarmála í Norður-Kóreu, tekinn af lífi. Talið er að hann hafi verið myrtur með loftvarnarbyssu fyrir að svíkja traust leiðtogans þegar Kim sofnaði yfir heræfingu.
Njósnastofunin segir leiðtogann hafa hert tökin á stjórn landsins með hrottafengnum hætti og fyrirskipað aftökur um það bil 70 háttsettra manna í stjórn landsins.
Uppfært 12:24. Upphaflega var vitnað í tvít sem sagt var vera á vegum fréttastofu Norður-Kóreu. Twitter-reikningurinn reyndist ekki vera opinber vettvangur Norður-Kóreu.