Unnur Gunnarsdóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits og áður forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hafnar því að hafa látið ummæli falla sem höfð eru eftir henni í nýrri bók eftir Jared Bibler, fyrrverandi rannsakanda á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins.
Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Seðlabankanum við fyrirspurn Kjarnans um efni bókarinnar, Iceland’s Secret, sem kom út í Bretlandi á dögunum.
Samtal á stefnumótunarfundi á Flúðum
Í bókinni vísar höfundurinn til samtals sem hann segist hafa átt við Unni, sem þá var yfirlögfræðingur Fjármálaeftirlitsins, á stefnumótunarfundi stofnunarinnar sem fram fór á Flúðum haustið 2011.
Samkvæmt því sem Jared skrifar í bókinni viðraði hann þá skoðun sína á fundinum að setja þyrfti á fót varanlegt eftirlitsteymi innan Fjármálaeftirlitsins, sem gæti skoðað meint brot fjármálafyrirtækja með svipuðum hætti og rannsóknarteymin sem sett voru á fót hjá stofnuninni eftir hrun fjármálakerfisins hefðu gert.
„Við þurfum ekki á þér eða slíku teymi að halda lengur. Ekki vera barnalegur, fjármálaglæpirnir sem áttu sér stað hérna voru allir árið 2008. Þetta mun aldrei gerast aftur,“ hefur Jared eftir Unni í bókinni og lýsir því svo að hann sjálfur hafi ekki átt nein svör við þessu viðhorfi, sem honum fannst vera farið að einkenna yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins á þessum tíma.
"We don’t need you or this kind of team anymore. Don't be naïve, the financial crime that happened here, that was all back in 2008. It won't ever happen again," er orðrétt haft eftir Unni í bókinni.
Í samtali við Kjarnann í september fullyrti Jared, spurður út í þessi meintu ummæli Unnar, að hún hefði látið þau falla og að þau hefðu verið honum mikil vonbrigði. Hann sagði bókina sannsögulega og allt sem í henni stæði væri satt og rétt samkvæmt hans bestu vitneskju.
Jared starfaði sem rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins frá því í apríl 2009 og þar til í nóvember 2011. Hann leiddi annað af tveimur teymum sem stóðu í því að rannsaka mál sem tengdust hruni bankanna og hefur ritað bók þar sem hann lýsir reynslu sinni af því starfi og sömuleiðis starfi í Landsbankanum misserin áður en bankakerfið hrundi.
Unnur Gunnarsdóttir var ráðin sem forstjóri Fjármálaeftirlitsins árið 2012 og var Jared sjálfur á meðal annarra umsækjenda um stöðuna.
Kjarninn beindi spurningu til Seðlabankans um þessi orð sem Jared hefur eftir Unni í bókinni og hvort varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits kannaðist við að hafa látið þessi orð, eða önnur álíka, falla í samtali við Jared.
Blaðamaður spurði einnig hvort að tilvitnunin eins og hún er sett fram í bókinni væri lýsandi fyrir þau viðhorf sem varaseðlabankastjórinn hafði til rannsókna Fjármálaeftirlitsins á hrunmálunum á þessum tíma.
Í svarinu frá Seðlabankanum hvað þetta varðar segir að varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits hafni því „að hafa látið nefnd ummæli falla í samtölum sínum við höfund bókarinnar.“