Vatíkanið hefur formlega viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt ríki. Þetta var gert með tilskipun í dag, þar sem kemur skýrt fram að Vatíkanið ræðir ekki lengur um samskipti sín við Frelsissamtök Palestínu (PLO) heldur notar hugtakið palestínska ríkið. Tilskipunin varðar kaþólsku kirkjuna á palestínskum svæðum.
Þetta er fyrsta opinbera plaggið þar sem fram kemur að Palestína sé ríki að mati Vatíkansins, og talsmaður Vatíkansins, Federico Lombardi, segir í samtali við fjölmiðla að þetta þýði opinbera viðurkenningu á því.
Ísraelska utanríkisráðuneytið hefur þegar sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Vatíkansins. „Þetta ýtir ekki undir friðarferlið og fjarlægir forystu Palestínu frá því að koma aftur að beinum, tvíhliða samningaviðræðum,“ sagði í yfirlýsingu þess.
Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, er á leið í heimsókn til Frans páfa í Vatíkaninu á næstu dögum.
Ísland og Svíþjóð eru einu norrænu þjóðirnar sem viðurkenna sjálfstæði Palestínu, þótt hinar þjóðirnar eigi í stjórnmálasambandi við stjórnvöld í Palestínu. Þá viðurkenna tæp 70 prósent allra aðildarríkja að Sameinuðu þjóðunum sjálfstæði Palestínu.