Bresk netverslun með áfengi, sem býður íslenskum neytendum upp á að kaupa vín án þess að viðskiptin fari í gegnum ÁTVR, er byrjuð að auglýsa í íslenskum fjölmiðlum. Í gær birtust auglýsingar frá Nýju vínbúðinni, sem er með höfuðstöðvar í London, á einum víðlesnasta fréttavef landsins, mbl.is.
Engar sérstakar vörutegundir voru auglýstar í auglýsingunni sem Nýja vínbúðin keypti af fjölmiðlinum, heldur var einungis tengill inn á sjálfa vefverslunina. Stofnandi Nýju vínbúðarinnar, Sverrir Einar Eiríksson, telur að ekkert í lögum eða reglugerðum komi í veg fyrir að hann auglýsi verslun sína í hefðbundnum fjölmiðlum.
„Við höfum ekki verið að auglýsa vörutegundir heldur bara verslunina. Ég held að það sé fullkomlega löglegt,“ segir Sverrir í samtali við Kjarnann, en reglugerð um bann við áfengisauglýsingum var síðast uppfærð er Sighvatur Björgvinsson var heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra árið 1991.
Í þeirri reglugerð segir meðal annars að hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum séu bannaðar. Það kemur hins vegar ekkert fram um að verslanir sem selja áfengi megi ekki auglýsa þjónustu sína, en nokkrar vefverslanir með vöruhús hér á landi hafa á síðustu misserum skotið upp kollinum. Þær voru ekki til staðar er regluverkið í kringum auglýsingarnar var síðast uppfært.
ÁTVR hafi ekki veitt ókeypis auglýsingar
Nýja vínbúðin fór í loftið í lok júní og segir Sverrit að viðtökur Íslendinga hafi verið góðar. Íslenskir notendur Facebook hafa varla komist hjá því að komast að sjá auglýsingar frá versluninni á vafri sínum um vefinn og vakti Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður á Vísi, athygli á því í hópnum Fjölmiðlanördar að fyrirtæki Sverris væri að auglýsa „eins og rófulaus hundur“ á samfélagsmiðlinum en mætti ekki auglýsa vörur sína í íslenskum fjölmiðlum á sama tíma.
„Þetta stenst auðvitað ekki nokkra einustu skoðun. Eiginlega bara pínlegt. Af hverju eru íslenskir stjórnmálamenn svona miklar heybrækur? Er það af því að íslenskur almenningur er ginnkeyptur fyrir skrumurum og forræðishyggjudelikventum eða hvað er eiginlega málið?“ sagði Jakob Bjarnar um málið.
Sverrir tekur undir að það sé furðulegt að hann megi ekki auglýsa vörur sínar í íslenskum miðlum. Hann segir líka aðspurður að hann hafi alveg misst af því að fá ókeypis auglýsingu í fjölmiðlum fyrir tilstilli ÁTVR eins og vínkaupmaðurinn Arnar Sigurðsson, sem rekur vínverslunina Sante, hefur fengið að undanförnu, í kjölfar þess að ÁTVR kærði hann vegna starfseminnar.
Hann segir ÁTVR eða aðra opinbera aðila ekki hafa gert neinar athugasemdir við starfsemi Nýju vínbúðarinnar.
„Ég er bara hálfmóðgaður, það hefur enginn skipt sér neitt af mér. Ég er algjörlega sniðgenginn. Það er bara leiðinlegt, því Sante hefur fengið svo ofsalega fína auglýsingu út á rantið þarna í ÁTVR,“ segir Sverrir og bölvar eigin óheppni.
„En svona án gríns, það hefur ekki einn einasti maður haft samband við mig. Ég held að þessir aðilar hafi bara áttað sig á því að þetta er fullkomlega löglegt. Erlend netverslun með áfengi hefur verið lögleg í 25 ár,“ segir Sverrir, sem sjálfur býr og starfar í London.
Ekkert breyst varðandi áfengisauglýsingar á kjörtímabilinu
Þrátt fyrir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hafi á kjörtímabilinu sagst hafa vilja til þess að breyta reglugerðinni sem bannar áfengisauglýsingar engu verið breytt í þeim efnum af hálfu ríkisstjórnarinnar.
„Það er auðvitað þannig í dag að áfengisauglýsingar eru alls staðar hvort sem það er þegar við horfum á erlenda íþróttaleiki í sjónvarpi, þegar við flettum erlendum tímaritum eða erum á öllum þessum samfélagsmiðlum í dag, þannig að bannið er ekki að virka,“ sagði hún í samtali við RÚV í fyrra.
Í skýrslu sem unnin var fyrir fyrir menntamálaráðherra árið 2018 af hálfu nefndar sem fengin var til að setja fram tillögur til þess að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla var einnig lagt til tekið yrði til skoðunar að rýmka reglur um auglýsingar á bæði áfengi og tóbaki.
„Á Íslandi er bannað að auglýsa í fjölmiðlum áfengi og tóbak nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Bent hefur verið á að bannið þjóni vart tilgangi sínum lengur þar sem slíkar auglýsingar berist Íslendingum í erlendum miðlum, hvort sem er í gegnum erlenda hljóð og myndmiðla, erlenda vefi og samfélagsmiðla eða erlend blöð og tímarit.
Áfengi og tóbak eru löglegar neysluvörur hér á landi, þótt um þær gildi sérstakar reglur t.d. hvað varðar framsetningu og aðgengi. Auglýsingar af þessu tagi eru einnig áberandi hluti auglýsingamarkaðar á heimsvísu og þótt ekkert sé tryggt í þeim efnum, þá má reikna með að íslenskir fjölmiðlar geti aflað talsverðra tekna með slíkri auglýsingasölu. Auknar tekjur myndu þannig bæta fjárhagslega stöðu einkarekinna fjölmiðla.
Takmarkanir sem settar eru á sölu slíkra auglýsinga þurfa að taka mið af breyttu neyslumynstri almennings og sístækkandi hlutdeild erlendra miðla á íslenskum markaði. Er það mat meirihluta nefndarinnar að íslenskir fjölmiðlar eigi að lúta sambærilegum reglum og þeir erlendu. Um er að ræða mikla tekjumöguleika og þar með mikla hagsmuni fyrir íslenska fjölmiðla,“ sagði í umsögn meirihluta nefndarinnar.