Kærunefnd útboðsmála hefur vísað frá kæru arkitektastofunnar Úti og Inni vegna hönnunarsamkeppni um Fossvogsbrú, sem lögð var fram undir lok síðasta árs, og hafnað kröfu arkitektastofunnar um skaðabótaskyldu. Úrskurður kærunefndarinnar var birtur á mánudag.
Í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar er haft eftir Bergþóru Þorkelsdóttur forstjóra stofnunarinnar að hún sé ánægð með niðurstöðuna og að kæran hafi verið mjög ómálefnaleg. „Vegagerðin lítur það mjög alvarlegum augum þegar starfsmenn hennar eru sakaðir um óheiðarleg vinnubrögð líkt og gert var í umræddri kæru. Það var alla tíð augljóst að ekki væri hægt að komast að annarri niðurstöðu en nefndin komst að,“ er haft eftir Bergþóru.
Kæran var lögð fram gegn Vegagerðinni, Reykjavíkurborg, Kópavogsbæ, Ríkiskaupum og verkfræðistofunni Eflu og hafði kærandi auk annars krafist ógildingar á hönnunarsamkeppninni, vegna fyrri vinnu Eflu við undirbúning Fossvogsbrúar og náin tengsl lykilfólk hjá Vegagerðinni við verkfræðistofuna.
Kjarninn fjallaði um efni kærunnar í aprílmánuði, en þetta var önnur kæran sem barst frá þessum sömu aðilum vegna hönnunarsamkeppni um Fossvogsbrú. Sú fyrri endaði með því að framkvæmd fyrri hönnunarsamkeppni brúar yfir Fossvog var ógilt og ferlið komst á byrjunarreit.
Í hinni nýju niðurstöðu kærunefndarinnar segir að kærufrestur vegna hluta þeirra athugasemda kæranda sem settar voru fram hafi verið liðinn er kæran barst til nefndarinnar 17. desember í fyrra. Sú niðurstaða kærunefndarinnar á við um athugasemdir frá Úti og Inni vegna mats á tillögu fyrirtækisins í hönnunarsamkeppninni, sem og meintum hugverka- og hugmyndastuldi.
Aðrar athugasemdir kæranda, um ætlað vanhæfi dómnefndarmanna og um brot á jafnræði í hönnunarsamkeppni, voru taldar hafa borist innan kærufrests. Kærunefndin taldi hins vegar að ekki hefði verið sýnt fram á það með neinum haldbærum hætti að brotið hefði verið gegn lögum um opinber innkaup eins og kærandi vildi meina, og hafnaði því kröfu arkitektastofunnar um viðurkenningu skaðabótaskyldu Vegagerðarinnar og annarra varnaraðila í málinu.
Í niðurstöðu nefndarinnar segir meðal annars að meta þurfi í hverju og einu tilviki hvort fyrirtæki sem hafi komið að undirbúningi verkefnis sem þessa, sem óumdeilt er að Efla gerði, hafi með því í raun búið yfir ólögmætu forskoti. „Eins og hér háttar til þykir fátt renna stoðum undir málatilbúnað kæranda að svo hafi verið,“ segir kærunefndin við því.
Kærunefndin fellst þó á það með arkitektastofunni að breytingar á skilmálum hönnunarsamkeppninnar svipi að vissu leyti til þeirra hugmynda sem stofan lagði fram í fyrri hönnunarsamkeppni um Fossvogsbrúnna. „Á hinn bóginn fæst ekki séð að sú breyting geti talist hafa dregið taum Eflu sérstaklega,“ segir í niðurstöðu kærunefndarinnar.
Kærunefnd útboðsmála þótti rétt að málskostnaður í málinu félli niður.