Veiðigjöld munu lækka um 1,8 milljarða króna á næsta ári. Þá er áætlað að þau verði um átta milljarðar króna en þau skiluðu um 9,8 milljörðum króna í ríkiskassann á þessu ári. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 sem kynnt var í gærmorgun.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks réðst í breytingar á veiðileyfagjöldum sumarið 2013 með það fyrir sjónum að lækka það umtalsvert. Lækkun veiðigjalda mun koma fyrst fram að fullu árið 2015.
Mikill hagnaður í sjávarútvegi
Stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins, sem greiða uppistöðuna af veiðigjöldunum, hafa ekki upplifað neina sultartíma á undanförnum árum. Auknar makrílveiðar hafa þar skipt miklu máli. Fyrirtækin sem veiða makríl greiddu ekki sérstaklega fyrir þær aflaheimildir.
Í síðustu viku var tilkynnt um að Samherji, eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Evrópu, hefði hagnast um 22 milljarða króna á árinu á undan. Hluti þess hagnaðar er tilkominn vegna eignarsölu og um helmingur af starfsemi fyrirtækisins er erlendis. Heildarhagnaður Samherja og dótturfélaga á árunum 2011 til 2013 voru tæpir 47 milljarðar króna.
Það hefur líka gengið ágætlega hjá HB Granda. Fyrirtækið hagnaðist um 14,1 milljarð króna á tímabilinu 2011 til 2013. Útgerðarfélagið Brim skilaði samtals tæplega tíu milljarða króna hagnaði árin 2011 og 2012 og Ísfélag Vestmannaeyja hagnaðist um 7,8 milljarða króna á sama tveggja ára tímabili. Hvorugt fyrirtækið hefur skilað inn ársreikningi fyrir árið 2013.