Icelandair Group hefur ekki enn náð að finna leigjendur fyrir tvær flugvélar í þeirra eigu sem hafa legið kyrrar eftir að flugfélagið Cabo Verde Airlines frá Grænhöfðaeyjum lagði niður starfsemi sína í mars í fyrra. Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir, samskiptastjóri Icelandair, í samtali við Kjarnann.
Milljarðatap og afskrifað á fyrsta ári
Líkt og Kjarninn hefur fjallað um áður keypti dótturfélag Icelandair, Loftleiðir, ásamt Björgólfi Jóhannssyni, fyrrverandi forstjóra Icelandair, og fjárfestingarfélaginu Kjálkanesi ehf. ráðandi hlut í Cabo Verde Airlines í febrúar árið 2019. Þessi fjárfesting skilaði þeim tapi upp að tæpum milljarði króna það ár og var virði félagsins komið niður í 0 kr. í lok árs 2019, samkvæmt ársreikningi eignarhaldsfélagsins Loftleiðir Cabo Verde.
Þrátt fyrir að félagið hafi verið að fullu afskrifað úr bókum eignarhaldsfélagsins stóð í sama ársreikningi að gert væri ráð fyrir viðsnúningi í rekstri Cabo Verde Airlines á árinu 2021. Slíkur viðsnúningur kom þó aldrei, þar sem flugfélagið lagði niður starfsemi sína í mars í fyrra vegna heimsfaraldursins.
Ófærir um að tryggja rekstur félagsins
Erlendur Svavarsson, sem var ráðinn forstjóri Cabo Verde Airlines mánuði áður en faraldurinn hófst, tilkynnti svo í byrjun júnímánaðar að félagið hygðist byrja aftur að fljúga á milli Grænhöfðaeyja og Portúgals innan fárra vikna. Ekkert varð þó úr þessum áætlunum og lágu flugvélarnar sem félagið notaði því enn óhreyfðar.
Nokkrum dögum eftir að ljóst var að Cabo Verde Airlines væri ekki að fara að hefja starfsemi sína aftur tilkynntu stjórnvöld á Grænhöfðaeyjum að flugfélagið yrði þjóðnýtt. Samkvæmt stjórnvöldunum höfðu nýju íslensku eigendurnir ekki sýnt að þeir gætu tryggt áframhaldandi rekstur flugfélagsins, sem hefur 300 starfsmenn, með sjálfbærum hætti. Starfsemi Cabo Verde Airlines liggur enn niðri, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu félagsins.
Tvær leiguvélar í eigu Icelandair
Í síðasta árshlutareikningi Icelandair stendur að félagið sé ekki útsett fyrir rekstri Cabo Verde Airlines, þar sem virði þess hafi verið fært niður að fullu. Hins vegar bætir Icelandair við að leitað sé að nýjum leigjendum fyrir tvær vélar sem Loftleiðir leigði út til Cabo Verde Airlines.
Í svari frá Ásdísi Ýri Pétursdóttur, samskiptastjóra Icelandair, eru þessar vélar ekki enn komnar í útleigu, en hún bætir þó við að nægt framboð hafi verið af vélum innan Icelandair til að sinna þeim verkefnum sem Loftleiðir hafi verið í á árinu. Ásdís segir einnig að félagið hafi fengið talsverðan fjölda fyrirspurna um ný verkefni, en sökum óvissu vegna kórónuveirufaraldursins hafi þróun þeirra dregist á langinn.