Oddný Harðardóttir þingflokksformaður Samfylkingarinnar gerir bið eftir skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga í íslensku atvinnulífi að umtalsefni í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
„Beðið er eftir skýrslu um eignarhald stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi frá sjávarútvegsráðherranum. Hún á löngu að vera komin. Fyrir mörgum vikum fékk ég þau svör að hún kæmi í næstu viku þar á eftir. Ekkert bólar á skýrslunni enn!“ skrifar hún.
Í samtali við Kjarnann segir hún að svörin hafi borist frá þingfundaskrifstofunni sem var í sambandi við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Ekki sé þó við þingfundaskrifstofuna að sakast. Þau hafi einungis verið að bera upplýsingar á milli.
Rifjar hún upp í stöðuuppfærslunni að fyrir kosningarnar 2016 hafi komið út skýrsla um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og einnig skýrsla um leiðréttinguna svokölluðu. „Báðar fóru í skúffu í fjármálaráðuneytinu þar sem formaður Sjálfstæðisflokksins réði ríkjum. Við fengum ekki að sjá þær fyrr en eftir kosningarnar því fjármálaráðherrann vildi ekki að við fengjum að ræða þær fyrir kosningar.“
Spyr hún hvort skýrslan um fjárfestingar útgerðarmanna sé í þessari sömu skúffu og hvort hún muni liggja þar fram yfir kosningar í september.
Beðið er eftir skýrslu um eignarhald stærstu útgerðafélaga landsins í íslensku atvinnulífi frá sjávarútvegsráðherranum....
Posted by Oddný Harðardóttir on Friday, August 13, 2021
Vildu að raunverulegir eigendur væru tilgreindir
Kjarninn greindi frá því í desember síðastliðnum að 20 þingmenn, 18 úr stjórnarandstöðu og tveir þingmenn Vinstri grænna, hefðu lagt fram beiðni um að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, léti gera skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga í íslensku atvinnulífi.
Þingmennirnir vildu að ráðherrann myndi láta taka saman fjárfestingar útgerðarfélaganna, dótturfélaga þeirra og félaga þeim tengdum í félögum sem ekki hafa útgerð fiskiskipa með höndum á síðustu tíu árum og bókfært virði eignarhluta þeirra í árslok 2019. Í beiðninni var sérstaklega farið fram á að í skýrslunni yrðu raunverulegir eigendur þeirra félaga sem yrði til umfjöllunar tilgreindir og samantekt á eignarhlut 20 stærstu útgerðarfélaganna í íslensku atvinnulífi byggt á framangreindum gögnum.
Sögðu skýrsluna mikilvægt framlag til umræðunnar um dreifða eignaraðild útgerðarfélaga
Beiðnin var samþykkt þann 18. desember 2020 með 57 atkvæðum þeirra þingmanna sem voru viðstaddir atkvæðagreiðslu um hana. Samkvæmt þingskapalögum hefur ráðherra tíu vikur til að vinna slíka skýrslu eftir að beiðni þess efnis er samþykkt.
Í greinargerð sem birt var með beiðninni þegar hún var lögð fram sagði að eiginfjárstaða sjávarútvegsfyrirtækja hefði batnað verulega frá hrunsárunum og að bókfært eigið fé þeirra hefði staðið í 276 milljörðum krónum við lok árs 2018, samkvæmt gagnagrunni Deloitte um afkomu sjávarútvegsins 2018. „Vísbendingar eru um að fjárfestingar þeirra út fyrir greinina hafi aukist í samræmi við það. Það er jákvætt að því leyti að það dreifir áhættu félaganna sjálfra en getur hæglega leitt til verulegrar uppsöfnunar eigna og áhrifa á fárra hendur og dregið úr virkri samkeppni á mörkuðum. Vegna smæðar sinnar er íslenskt atvinnulíf sérstaklega viðkvæmt fyrir fákeppni.“
Ljóst væri að sterk fjárhagsstaða útgerðarfélaga byggðist á einkaleyfi þeirra til nýtingar sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar og skipaði það þeim í sérflokk í íslensku atvinnulífi, sérstaklega stærstu félögunum. „Vegna þessarar stöðu telja skýrslubeiðendur mikilvægt að upplýsingar um eignarhluti 20 stærstu útgerðarfélaganna og tengdra aðila í óskyldum atvinnurekstri hérlendis séu teknar saman, með greiningu á fjárfestingum þeirra. Með þessum upplýsingum er hægt að varpa ljósi á raunveruleg áhrif aðila sem hafa einkaleyfi til nýtingar fiskveiðiauðlindarinnar á íslenskt atvinnulíf og samfélag. Yrði skýrsla þessi mikilvægt framlag til umræðunnar um dreifða eignaraðild útgerðarfélaga og skráningu þeirra á markað.“