Verðlagseftirlit ASÍ kom í gær athugasemdum á framfæri við vefverslunina Heimkaup, vegna auglýsingapósts frá fyrirtækinu þar fram kom að Heimkaup væru „ódýrust“. Í tölvupóstinum var fjallað um að Heimkaup hefði oftast verið með lægsta verðið í síðustu verðlagskönnun verðlagseftirlitsins hvað matvöru og annað til heimilisins varðar.
„Í stuttu máli þá má ekki nýta verðkannanir frá okkur til auglýsinga með þeim hætti sem Heimkaup gerir þarna og ég er búin að hafa samband við þá vegna þess,“ segir Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ, í svari við fyrirspurn Kjarnans vegna auglýsingarinnar.
Auglýsing Heimkaups barst til þeirra sem eru á póstlista fyrirtækisins í gær undir yfirskriftinni „Ódýrust samkvæmt verðkönnun ASÍ.“
Auður Alfa segir að verðlagseftirlit ASÍ veiti leyfi fyrir því að niðurstöður kannana þeirra séu nýttar í markaðslegum tilgangi þegar falast sé eftir slíku leyfi. Hins vegar skipti máli að „það séu ekki dregnar ályktanir út frá niðurstöðum könnunarinnar umfram það sem niðurstöðurnar fela í sér,“ en ljóst er að fyrirsögn tölvupóstsins frá Heimkaup gerði það.
Í texta inni í auglýsingapóstinum sjálfum var hins vegar farið rétt með, en þar segir að í þessari verðkönnun ASÍ, sem framkvæmd var 25. mars, hafi Heimkaup oftast verið með lægsta verðið á matvöru og öðrum heimilisvörum. Heimkaup var ódýrast hvað varðar 37 af þeim 112 vörum sem skoðaðar voru í könnuninni, en Bónus kom næst og var 33 sinnum með ódýrustu vöruna.
Segja drög að tölvupósti óvart hafa farið út
Thelma Björk Wilson, framkvæmdastjóri þjónustu- og notendaupplifunar hjá Heimkaup, segir í svari til Kjarnans að mistök hafi verið gerð. Hún segir að orðalagið hafi verið borið undir ASÍ, en síðan hafi óvart verið send drög að tölvupósti á viðskiptavini, þar sem fram kom að Heimkaup væru ódýrust.
„Það er ónákvæmt, því við vorum bara með flestar vörur á lægsta verði. Við löguðum það hjá okkur, strax og við áttuðum okkur á því, enda var ekki meiningin að nota það orðalag,“ segir Thelma Björk.
Eins og alltaf í könnunum verðlagseftirlits ASÍ var aðeins um beinan verðsamanburð að ræða á hilluverði. Ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Til þess að fá fría heimsendingu á vörum frá Heimkaup innan höfuðborgarsvæðisins þarf að panta vörur fyrir 14.900 krónur, en tekið er 745 króna heimsendingargjald fyrir pantanir yfir 9.900 krónum og pantanir undir því verðmarki bera 1.490 króna heimsendingargjald, samkvæmt vef verslunarinnar.
Að sama skapi þarf fólk ekki að gera sér ferð í búðina, þegar pantað er á netinu og greitt fyrir heimsendingu. Netverslun með matvöru hefur aukist mikið frá því að COVID-19 faraldurinn fór af stað fyrir rúmu ári síðan. Auk Heimkaups bjóða Nettó og Krónan nú upp á matvöru í netverslunum.
Netverslun sigurvegarinn í faraldrinum?
Thelma Björk segir að vöxturinn hjá Heimkaup hvað matvöru varðar í faraldrinum hafi verið „með ólíkindum“ og að Heimkaup hafi „meira en tvöfaldað veltuna í matvöru frá síðasta mánuði - og það var fyrir samkomutakmarkanir stjórnvalda.“
Hún segir að í síðasta mánuði hafi Heimkaup byrjað að keyra vörur heim í klukkutíma hólfum innan dagsins og að svo virðist sem spurn sé eftir slíkri þjónustu.
„Við vitum ekki hvernig öðrum gengur, en það gæti allt eins verið að þeir væru líka að vaxa hratt,“ segir Thelma og bætir við að sigurvegarinn í faraldrinum sé ef til vill netverslun, sem fleiri og fleiri séu að tileinka sér.