Verksmiðjum í suðvesturhluta Kína hefur verið lokað vegna þurrka. Miðlunarlón vatnsaflsvirkjana á svæðinu eru hálftóm og orkuvinnsla því í lágmarki.
Verksmiðjum sem framleiða sólarrafhlöður, sement og fleira sem mikilvægt þykir að nota í nútímasamfélagi, hefur verið lokað eða verulega dregið úr framleiðslu þeirra. Skammta þarf rafmagn í Sichuan-héraði vegna þurrkanna. Gríðarleg hitabylgja hefur geisað í Kína síðustu vikur og vegna hennar hefur raforkunotkun aukist, m.a. vegna þess að búnaður til loftkælingar er keyrður af krafti alla daga. Þess er krafist að heimili fari fremst í forgangsröðunina þegar kemur að því að skammta rafmagn á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti.
Heimsfaraldurinn og aðgerðir sem gripið var til vegna hans hafði mikil áhrif á efnahag Kína líkt og fleiri landa. Verksmiðjur landsins framleiða margvíslegar afurðir sem seldar eru um allan heim. Framleiðsla dróst saman í faraldrinum af ýmsum ástæðum. Eftirspurn minnkaði og samkomutakmarkanir höfðu einnig áhrif. Á heimsvísu fóru líka flutningar á sjó og í lofti úr skorðum og enn hafa þær ekki komist að fullu í samt horf eftir að faraldurinn fór undan að láta.
Kínverjar hafa svo farið nokkuð aðra leið en flestar þjóðir síðustu mánuði vegna nýrra smitbylgja af COVID-19. Stjórnvöld hafa tekið mun harðar á útbreiðslunni en þekkist á Vesturlöndum. Sett hafa verið á útgöngubönn og fleira í kunnuglegum dúr. Útlit var fyrir að efnahagslífið væri að færast í samt horf en COVID-aðgerðir nú í sumar hafa sett strik í þann reikning svo um munar.
Hagvöxtur var 2,5 prósent í Kína á fyrstu sex mánuðum ársins sem er innan við helmingur af því sem áætlað var.
Þurrkarnir í Kína hafa ekki aðeins haft áhrif á raforkuvinnslu og þar af leiðandi fjölmargar verksmiðjur sem stóla á rafmagn í stórum stíl til sinnar framleiðslu. Neysluvatn er líka af skornum skammti svo grípa hefur þurft til neyðaraðgerða til að reyna að tryggja vatnsbirgðir á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti.
Hundruð þúsunda hektara af margvíslegri uppskeru hefur skrælnað í hitunum og þurrkunum í mið- og norðurhluta Kína, segir í frétt Al Jazeera. Svo alvarlegt er ástandið að á sumum stöðum hefur verið lýst yfir algjörum uppskerubresti.
Ekkert lát er á hitunum. Áfram er spáð um 40 stiga hita á nokkrum svæðum.