Vöxtur var í flestum tegundum verslunar í júlí í samanburði við sama mánuð í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þannig var heldur meiri raunaukning á sölu matvöru en verið hefur undanfarna mánuði. Sama er að segja um áfengiskaup sem voru um fimmtán prósent meiri í júlí síðastliðnum en í júlí í fyrra. „Hér verður þó að hafa í hug að síðasti dagur júlímánaðar var föstudagur fyrir verslunarmannahelgi sem jafnan er söluhár dagur. Í fyrra var föstudagur fyrir verslunarmannahelgi fyrsti dagur ágústmánaðar,“ segir í fréttabréfi Rannsóknarsetursins.
Verð á skóm var 11,4 prósent lægra í júlí síðastliðnum en í júlí í fyrra samkvæmt verðmælingu Hagstofunnar. Margir virðast hafa notað tækifærið og keypt sér skó því sala á skóm jókst um 19,1 prósent að raunvirði í mánuðinum miðað við júlí í fyrra. Aukning í skósölu að nafnvirði (í krónutölu) í skóverslun nam 5,6 prósent á milli ára. Verð á fötum hækkaði hins vegar um 1,6 prósent frá júlí í fyrra.
Kortavelta jókst
Greiðslukortavelta heimilanna innanlands nam næstum 68 milljörðum króna í júlí og jókst um 8,3 prósent frá júlí í fyrra. Þá greiddu landsmenn níu milljarða króna með kortum sínum erlendis í mánuðinum en það er tuttugu prósent aukning frá júlí í fyrra. Kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi í júlí nam 24 milljörðum króna sem er 31 prósent aukning frá júlí í fyrra. Ætla má að erlend kortavelta í íslenskum verslunum í júlí hafi verið liðlega þrír milljarðar króna, að því er fram kemur í upplýsingum Rannsóknarseturs verslunarinnar.