Farsótt, eldgos og óvenjulegt tíðarfar. Hér erum við ekki að tala um árið 1918 heldur undangengna mánuði sem hafa verið sérstakir að mörgu leyti. Enginn frostavetur varð en náttúruhamfara á Seyðisfirði vegna sögulegrar úrkomu sem kom á „rakafæribandi“ með austanáttinni verður ævinlega minnst þegar veturinn 2020-2021 mun bera á góma. Fleira var öðruvísi en við eigum að venjast, sérstaklega ef miðað er við fyrravetur sem var illviðrasamur. Fyrstu mánuðir ársins voru nær snjólausir í Reykjavík og víðar á suðvestanverðu landinu var snjólétt. Hellisheiðin var til dæmis aldrei ófær en í fyrravetur var henni lokað tólf sinnum í sex klukkutíma eða lengur í senn. Sömu sögu er að segja af Mosfellsheiðinni. Henni þurfti aldrei að loka í vetur en var lokað sextán sinnum í fyrra.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur og ritstjóri veðurvefsins Bliku, segir að veturinn sem nú er liðinn samkvæmt okkar gamla tímatali, hafi verið „dálítið sérstakur“ og algjör andstæða við síðasta vetur. Hann minnir þó á að það sé eitt helsta einkenni veðurfars hér á landi að það komi okkur alltaf á óvart. „Sérstaklega vegna þess að við getum ekki treyst því að hlutir endurtaki sig nema þá á nokkurra ára fresti“.
En byrjum á byrjuninni.
Tíðarfarið í nóvember var fremur hagstætt og eðlilegt, rifjar Einar upp. Breytileg veðrátta réði ríkjum líkt og við eigum að þekkja á þessum árstíma. Það komu stormar og hinn sígildi kuldakafli svo fátt eitt sé nefnt.
Síðan kom desember.
Snjólétt en stormasamt var þá almennt á landinu en sérstakir veðuratburðir áttu sér svo stað sem ekki finnast dæmi um frá upphafi mælinga.
„Það sem stendur upp úr fyrst og fremst er hversu ofboðslega úrkomusamt var á aðventunni á Austurlandi sem olli svo hinum miklu skriðuföllum á Seyðisfirði,“ segir Einar. „Þessar rigningar voru verulega eftirtektarverðar og skera í augu í lengri tíma samanburði. Þær voru óvenjulegar á alla tímakvarða, hvort sem við horfum á nokkra daga í senn, vikur eða mánuðinn í heild sinni.“
Skýringanna er að leita í því að veðurkerfin „læstust í ákveðnu fari,“ eins og Einar orðar það. Kyrrstætt lægðasvæði var á hringsóli suður af Færeyjum og því fylgdi stöðug austanátt, „og ekki bara einhver austanátt heldur varð hún að rakafæribandi sem beindist dag eftir dag að Austurlandi“.
Mikil úrkoma er langt í frá eitthvað framandi fyrirbrigði á Seyðisfirði en í vetur var hún hins vegar „með miklum afbrigðum,“ segir Einar. „Spurningin er hvort að þetta hafi gerst áður í fortíðinni, það á eftir að rannsaka ofan í kjölinn, eða hvort að það hafi rignt meira vegna þess að það er meiri raki í lofthjúpnum nú en áður vegna hlýnunar loftlags.“
Þeirri spurningu hvort að þetta gæti átt eftir að endurtaka sig í nánustu framtíð er að sögn Einars algjörlega ósvarað. Á síðustu árum hefur úrkoma verið að aukast við Norður-Atlantshafið, sérstaklega í Vestur-Noregi og vísbendingar eru um að það sé einnig að eiga sér stað á suðaustur- og austurhluta Íslands. „En hvernig og hvort sú úrkomuaukning tengist þessum atburðum á Seyðisfirði er óljóst.“
Uppsöfnuð úrkoma var 569 mm á fimm daga tímabili á Seyðisfirði í aðdraganda aurskriðanna. Aldrei áður hefur mælst jafn mikil úrkoma á jafn stuttum tíma á Íslandi.
Fljótlega eftir jólin urðu straumhvörf í veðrinu og það snerist til „allt annarrar tíðar“ að sögn Einars er á sér skýringar svokallaðri skyndihlýnun í heiðhvolfinu sem hægði á öllum vestanvindunum. Skyndihlýnun er vel þekkt fyrirbæri en hennar verður vart suma vetur en aðra ekki. Í fyrravetur var „ekkert slíkt uppi á teningnum og vestanvindurinn snerist hér af miklum krafti í kringum norðurskautið og dembdi til okkar hverri óveðurslægðinni á fætur annarri“.
En vegna þessarar skyndihlýnunar í vetur þá varð tíðarfarið í janúar og febrúar hagstætt og sérlega lítið um illviðri. „Norðaustan- og austanáttir voru ríkjandi sem gerði það að verkum að óvenjulega snjólétt var sunnanlands og vestan. Slíkt er ekki einsdæmi en það jaðraði við það,“ segir Einar.
Til að leita að sambærilegum vetri horfa menn gjarnan að hans sögn til vetursins 1976-1977. „Hann var líka plagaður af þessari skyndihlýnun og einhverjum afbrigðilegheitum í hringrásinni.“
Fyrstu mánuðir ársins, sem alla jafna eru þeir snjóþyngstu, voru einmitt afbrigðilegir af þessum sökum. „Jörð varð aldrei alhvít í Reykjavík í janúar,“ segir Einar. Það hefur aðeins gerst þrisvar sinnum áður frá því að mælingar hófust, síðast árið 2010. Febrúar var einnig blíður og alhvítir dagar í Reykjavík aðeins þrír talsins. Að sama skapi var mun minna um hálku og klaka á götum og gangstéttum en við höfum átt að venjast undanfarna vetur.
En þannig var nú ekki ástandið um allt land. Síður en svo. Janúar var til að mynda í meðallagi snjóþungur á Akureyri og alhvítir dagar þar í febrúar 20 talsins sem er umfram meðallag. Víðar á Norðurlandi sem og á Vestfjörðum var einnig nokkuð snjóþungt og snjóflóð féllu. „Snjóþyngslin má rekja til þess að hafáttir, austan og norðaustan áttir, voru ríkjandi. Í þessum áttum er Suður- og Vesturlandið í vari fyrir vindum frá hálendinu og minni úrkoma þar.“
Í það heila tekið var færð milli landshluta góð. „Auðvitað komu ákveðnir kaflar og dagar þar sem varð ófært.“ Sem dæmi nefnir Einar að ákveðið hafi verið að halda Dynjandisheiðinni á Vestfjörðum opinni í fyrsta sinn að vetrarlagi og að það hafi gengið ágætlega.
Skyndihlýnunin á sér rætur langt í burtu frá litla Íslandi eða við miðbaug og í Kyrrahafi. „Hiti í loftinu, varmaflæði, berst frá suðlægum slóðum í áttina að heimskautinu í tíu til þrjátíu kílómetra hæð,“ útskýrir Einar. „Það veltist um og skyndilega sjáum við hlýnun sem getur á nokkrum dögum numið tugum gráða í um 30 kílómetra hæð.“
Þetta hefur svo aftur áhrif á hið svonefnda vestanvindabelti, sem þekkt er fyrir lægðagang, en Ísland er í norðurjaðri þess. Hlýja loftið hægir á kerfinu, loftþrýtingur hækkar og áttirnar breytast. Áhrif skyndihlýnunar í heiðhvolfi geta varað í 4-8 vikur en stundum lengur.
En ýmislegt um þetta veðurfyrirbæri er enn nokkuð á huldu. Það er algengara þegar La Niña eða El Niño verða í Kyrrahafinu þó að ekki sé vitað af hverju. Í vetur var það La Niña sem átti sér stað, en þá er kaldur sjór við Suður-Ameríku, öfugt við það sem gerist með El Niño. Stöðugt fleiri rannsóknir eru gerðar á samhengi allra þessara fyrirbæra í veðri, hvar sem þau eru að eiga sér stað, til að reyna að varpa skýrara ljósi á veðurkerfi jarðarinnar. „En það sem við vitum er að þetta tengist allt,“ segir Einar. „Það er alveg klárt.“
Skyndihlýnunarinnar gætti fram í mars sem var almennt tiltölulega hlýr og snjóléttur á Suðvesturlandi þó að illviðrakafla hafi gert. 18. mars fór hiti upp í 20,4 stig á Dalatanga sem er næsthæsti hiti sem mælst hefur á landinu í marsmánuði. Metið frá árinu 2012 stendur enn, 20,5 stig á Kvískerjum.
Óstaðfest er svo að úrkomumet fyrir aprílmánuð hafi fallið í ár þegar sólarhringsúrkoma á Kvískerjum mældist 238 mm.
Á veturna er veðráttan á Íslandi mjög breytileg og kaflaskipt Einar segir að oftast fáum við „eitthvað af öllu“. Inn á milli koma vetur sem eru tiltölulega einsleitir. „Veturinn núna er dæmi um slíkan vetur. Hann er þó ekki einsleitari en svo að desember var með allt öðru móti en til dæmis janúar og febrúar.“
Það sama má í raun einnig segja um veturinn í fyrra. Hann var einsleitur en með allt öðrum hætti og einkenndist af stöðugum illviðrum, lægðum og djúpum stormum yfir landið.
Þá vilja nokkrir svipaðir vetur stundum koma hver á fætur öðrum. Það gerðist t.d. 1989-1995. Þeir vetur voru flestir snjóþungir og stormasamir en á árunum 1960-1964 voru þeir sérstaklega hæglátir. Tveir síðustu vetur hafa þó verið „eins og svart og hvítt,“ segir Einar um ófyrirsjáanleikann í þessum efnum.
En hverju getum við svo átt von á með hækkandi sól? Erlendar reiknistofur munu skila næstu langtímaspám um miðjan maí svo að ótímabært er að spá núna um sumarið 2021, að mati Einars. Hvað varðar hins vegar veðrið næstu daga og vikur gætum við átt von á bakslagi um mánaðamótin með norðaustanátt og mögulega hreti.
Þetta er kannski ekki alveg það sem þjóðin vildi heyra. En Einar er fljótur að bæta við: „Sumarið mun koma, við þurfum ekki að hafa áhyggjur af öðru. En eins og oft vill gerast gæti vorið orðið dálítið skrikkjótt og munur á veðri milli daga. Við gætum fengið eitthvað af öllu.“