Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis,- orku- og loftslagsráðherra, segir Íslendinga verða að vera kröfuharða þegar kemur að erlendum fyrirtækjum sem vilja nota íslenska orku og starfa hérlendis. Hann segir sjónarmið þeirra sem gagnrýna rafmyntaframleiðslu hérlendis eiga rétt á sér, en segir það þó vera ljóst að Ísland sé ekki að fara að bjarga heiminum. Þetta kemur fram í viðtali við Guðlaug Þór í jólablaði Vísbendingar, sérstakri viðhafnarútgáfu sem kom út fyrr í dag og er opið öllum að þessu sinni, en Vísbending er áskriftarrit um efnahagsmál sem kemur út vikulega.
„Þurfum að hafa allt í lagi heima hjá okkur“
Í viðtalinu segir ráðherrann að tækifæri til verðmætasköpunar með hreinni orku hérlendis séu næg og að Íslendingar séu komnir á þann öfundsverða stað að þeir geti valið á milli mismunandi fjárfestingakosta. „Við höfum alla tíð verið að reyna að fá erlenda fjárfestingu hingað inn. Eins og staðan er núna – þótt ekki sé vitað hversu lengi það verður – þá eru margir að líta hingað, erlendir aðilar, og segja: Heyrðu getum við unnið saman?“
Samkvæmt Guðlaugi er lögð sérstök áhersla á sjálfbærni og umhverfismál þegar Ísland er kynnt fyrir erlendum fjárfestum. „Og þá þurfum við að hafa allt í lagi heima hjá okkur. Þá skiptir engu máli hvort það heitir fiskeldi eða verksmiðjuframleiðsla eða ferðaþjónusta, þetta verður bara að vera í lagi.“
Aðspurður um sjónarmið þeirra sem gagnrýna vægi rafmyntaframleiðslu hjá gagnaverum hérlendis og hvort Íslendingar hafi verið nógu kröfuharðir á það hvaða fyrirtæki nota íslenska orku segir Guðlaugur að honum finnist þessi sjónarmið eiga rétt á sér. „Við verðum að vera kröfuhörð, það er bara eitt af því sem við þurfum að gera.“
Blaðið birtist ef þú þrýstir á forsíðuna
„En við getum ekki haft allt. Það er alveg sama hvað við gerum, við erum ekki að fara að bjarga heiminum, það liggur alveg fyrir. Og ég veit ekki til þess að neinn sé með þær hugmyndir. Við verðum að mínu áliti að vanda okkur hvað við veljum og hvaða viðskiptum við ætlum að eiga í.“
Áhersla á sjálfbærni og umhverfismál
Í jólablaði Vísbendingar er sérstök áhersla lögð á umhverfismál, sjálfbærni og grænar lausnir. Þar má meðal annars finna grein eftir Guðrúnu Johnsen hagfræðing um fjárfestingarákvarðanir lífeyrissjóða og Berglindi Rán Ólafsdóttur framkvæmdastýru Orku náttúrunnar um það hvort Íslendingar ættu að virkja meira í þágu loftslagsmála.
Einnig skrifa þar Kristján Guy Burgess ráðgjafi um grænt plan fyrir Ísland og Auður Önnu Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar um bætta orkunýtingu. Gunnar Jakobsson, aðstoðarseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, skrifar einnig um hlutverk seðlabanka í loftslagsmálum, auk þess sem Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun hjá Háskóla Íslands, skrifar um fjárfestingu í líffræðilegri fjölbreytni.
Bjarni Herrera, forstöðumaður sjálfbærni hjá KPMG, fjallar líka um sjálfbærar fjárfestingar í grein sinni í blaðinu, en þar leggur hann áherslu á nýjar tegundir fjármálaafurða. Kristbjörg M. Kristinsdóttir, stjórnarformaður IcelandSIF, fer svo yfir leiðir til að auka framboð slíkra fjárfestingakosta hérlendis.
Þá skrifar Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum einnig í blaðið, en hún fer yfir mikilvægi þess að bankar gefi upp gagnsæjar sjálfbærniupplýsingar af starfsemi sinni. Sömuleiðis fer Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo, yfir þau skilyrði sem íslensk fyrirtæki þurfa að ná til að teljast framúrskarandi, en þau snúa mörg hver umhverfismálum eða sjálfbærni.
Hagfræðingurinn Eiríkur Ragnarson, sem er fastur penni hjá Vísbendingu, fer svo yfir það hvernig efnahagsleg áhrif loftslagsbreytinga verða líklega ójöfn á milli landa, en því er spáð að þau verði mun meiri í fátækari ríkjum heimsins.
Hægt er að lesa jólablaðið í heild sinni með því að smella hér.
Áskrifendur hafa þegar fengið jólablað Vísbendingar sent í tölvupósti, en ritið kemur að þessu sinni aðeins út á rafrænu formi en er ekki prentað. Þetta er gert með sjálfbærni að leiðarljósi og í því skyni að minnka kolefnisfótspor.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu, sem kemur út vikulega, með því að smella hér. Næsti útgáfudagur ritsins er föstudagurinn 7. janúar 2022.