„Enn og aftur er spurt: Af hverju kæra þessar konur ekki? Spurningin ætti hins vegar að vera: Af hverju treystum við okkur ekki til að kæra?“ Þannig hóf Olga Margrét Cilia, varaþingmaður Pírata, mál sitt undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag en þingmenn VG og Sjálfstæðisflokksins lögðu líka orð í belg vegna þeirrar metoo-bylgju sem nú herjar á landann.
Gaf Olga Margrét nokkrar ástæður sem gott væri að hafa í huga. „Endalausar sögur af lögreglufólki sem hlær þolendur kynferðisofbeldis út af lögreglustöðinni. Dómarar sem gefa beint og óbeint í skyn að þetta hafi verið okkur að kenna því að við drukkum of mikið. Kærum er vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum þó að við hefðum gert allt rétt, þ.e. það sem réttarkerfinu finnst að við eigum að gera eftir að okkur er nauðgað; fara á neyðarmóttökuna, tala við lögreglu og lækna og fá svo ávítur fyrir að hafa ekki verið nógu skýrar. En það er bara svolítið erfitt að vera skýr þegar heilinn og líkaminn er í áfalli. Það er líka svolítið erfitt að vera skýr þegar gerendur eru okkur svo nákomnir að við hættum á að missa allt okkar bakland frá okkur ef við segjum eitthvað eða að starfsferill okkar, orðspor og fjárhagslegt bakland verði fyrir óafturkallanlegum skaða fyrir að segja frá,“ sagði hún.
„Við kærum ekki því að réttarkerfið segir okkur að þegja. Við kærum við ekki því að ef við dirfumst að gera það er okkur úthúðað í samfélaginu. Ef við segjum frá erum við útskúfaðar frá fjölskyldum og vinum.“
Telur Olga Margrét að spurningin ætti enn fremur að vera: „Af hverju hætta þessir góðu gerendur ekki bara að áreita, nauðga, lítillækka og valda óafturkallanlegum skaða á lífi kvenna og kynsegin? Skömmin er ekki þolenda. Skömmin er gerenda og réttarkerfis sem hefur gjörsamlega brugðist þolendum kynferðisofbeldis og neita að taka ábyrgð á þeim varanlegum skaða sem það hefur valdið á kynslóðum kvenna og kynsegin sem treysta ekki kerfinu til að ná fram réttlæti.“
Þurfum að læra og einfaldlega gera betur
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fjallaði einnig um metoo-bylgjuna sem nú ríður yfir. „Um helgina skók okkur sem samfélag ný bylgja metoo. Ég veit ekki hvort maður á að gráta eða fagna þegar slíkar bylgjur koma upp á yfirborðið. Líklega hvort tveggja. Sögurnar eru hryllilegar en við þurfum þó að fagna því að þær komi upp á yfirborðið. Líklega er bylgjan komin til að vera. Hryllilegt er að vita til þess að okkar annars góða samfélag sé með þann ljóta blett sem kynferðislegt ofbeldi og áreiti er,“ sagði hún.
„Við þurfum að hlusta á þessar sögur. Við þurfum að læra og við þurfum einfaldlega að gera betur. Þrátt fyrir átak í að efla rannsóknir kynferðisbrotamála og hraða afgreiðslu þeirra erum við samt ekki að gera nógu vel. Við þurfum að gera betur. Við þurfum ávallt að veita þolendum skjól og aðstoða þá.
En hvað með gerendurna? Við heyrum sögurnar. Þær eru alls konar. Stundum um hryllilegt ofbeldi, stundum þannig að upplifun einstaklinganna virðist vera mjög ólík. Hvernig vinnum við með þessa meinsemd? Er refsivörslukerfið okkar þannig búið að það geti tekist á við verkefnið? Hvernig aðstoðum við gerendur við að hætta að beita ofbeldi?“ spurði Bryndís að lokum.
Skyldi engan undra að þolendur séu tregir til að leita réttar síns
Þingmaður VG, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þakkaði þeim hugrekkið sem sett hafa reynslu sína af kynbundnu ofbeldi á samfélagsmiðla. „Það er ekki auðvelt að berskjalda sig opinberlega. Það er ekki auðvelt að vinda ofan af nauðgunarmenningu. Við erum í annarri bylgju #metoo. Þetta er sem sagt í annað sinn á nokkrum árum sem samfélagsmiðlar ljá konum rödd og körlum sem voru líka lengi raddlausir vegna þöggunar og drusluskömmunnar, vegna viðhorfa sem hafa verið meinsemd í samfélagi okkar og ýta við okkur til að horfa framan í okkur sjálf sem samfélag, blákalt.“
Benti hún á að núna hefði skapast nokkur umræða um hvers vegna fólk stigi fram á samfélagsmiðlum, hvort réttlætanlegt væri að birta svo miklar upplýsingar að gerandi væri nánast persónugreindur án þess að málið rataði nokkurn tímann á borð lögreglu.
„En á sama tíma fáum við upplýsingar um að Landsréttur mildi dóma í 40 prósent kynferðisbrotamála sem fara fyrir dóminn, 40 prósent. Til samanburðar eru 25 prósent dóma í ofbeldis- og fíkniefnabrotum mildaðir. Skyldi engan undra að þolendur séu tregir til að leita réttar síns ef þetta eru kveðjurnar frá dómstólum landsins. Þó að þrjú ár séu síðan við hér í þessum sal breyttum almennum hegningarlögum á þá vegu að samþykki væri sett í forgrunn í kynferðisbrotamálum er sönnunarbyrðin í þeim málum enn þá allt of þung. Í ofanálag eru þolendur sem stíga fram sakaðir um að sverta mannorð gerenda sinna. Það er umræða sem við þurfum að uppræta strax. Það eru gerendur sem sverta sitt eigið mannorð þegar þeir beita ofbeldinu. Við þurfum öll að líta í eigin barm, við þurfum að standa með öllum þolendum, ekki síst þeim sem standa okkur næst, og horfast í augu við gerendur sem við kunnum að þekkja og gera þeim ljóst að við tökum afstöðu gegn ofbeldi,“ sagði Bjarkey.
Þakkaði hún öllum þeim sem sýnt hafa hugrekki með því að segja sína sögu. „Ég sé ykkur. Ég trúi því að við séum öll að hlusta og nú þurfum við að takast á við þetta saman. Ég stend með ykkur.“