Metoo - Stjórnarráðið

Þögnin rofin á ný

Hundruð íslenskra kvenna hafa í vikunni stigið fram opinberlega með sínar erfiðustu minningar, í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni sem tvær konur segja að brotið hafi á sér. Gerendameðvirkni, kallast hugtakið. Lærði samfélagið lítið af fyrri #metoo-bylgjunni? Í þetta skipti er karlpeningurinn hvattur til að taka meiri þátt.

Undanfarna sólarhringa hafa frásagnir þolenda kynferðisofbeldis flætt fram í stríðum straumum á samfélagsmiðlinum Twitter, margar undir kassmerkinu #metoo. Segja má að þetta sé önnur hrina frásagna, aðallega kvenna, af kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni sem rís hér á landi á undanförnum fjórum árum. Sögurnar skipta hundruðum.

Kveikjan í þetta skiptið voru viðbrögð samfélagsins við því að þjóðþekktur fjölmiðlamaður steig sjálfur fram og bar af sér orðróm sem fáir höfðu komist hjá því að heyra dagana á undan. Einn víðlesnasti vefmiðill landsins virtist lýsa yfir sakleysi hans í kjölfarið, en ein kona hefur kært manninn fyrir líkamsárás og önnur sakað hann um kynferðisbrot.

Konurnar hafa ekki stigið fram undir nafni í fjölmiðlum, en hafa mátt þola það að vera úthrópaðar sem bæði lygarar og mannorðsmorðingjar. Druslur og hórur. Eins og svo margar konur sem á undan þeim komu.

Sjálfvirkur stuðningur við gerendur

Það sem hefur einkennt umræðu síðustu daga eru ákveðin vonbrigði. Vonbrigði og svekkelsi þolenda ofbeldis yfir því að samfélagið, eða hluti þess og jafnvel fjölmiðlar, snúist eins og á sjálfstýringu gegn þeim sem stíga fram og segja frá því að þær hafi orðið fyrir ofbeldi.

Á sama tíma fái gerendur umsvifalaust stuðning þegar þeir segjast saklausir. Tilfinning margra virðist sú að það hafi ekki nægilega mikið breyst, þrátt fyrir alla þá umræðu sem hefur átt sér stað um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi í íslensku samfélagi á undanförnum árum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í gær að það væri „í raun og veru dap­ur­legt að við séum ekki kom­in lengra þrátt fyr­ir #met­oo-bylgj­una sem var hér 2017.“

Þúsundir kvenna kröfðust breytinga

Sú bylgja reis á alþjóðavísu í kjölfar þess að kynbundið ofbeldi valdamikilla karla í kvikmyndageiranum í Hollywood var dregið upp á yfirborðið. Þúsundir kvenna hér á landi stigu þá fram með yfirlýsingar og frásagnir sem tengdust kynferðislegri áreitni, kynbundinni mismunun og ofbeldi.

Auglýsing

Þetta voru meðal annarra konur sem fengust eða fást við stjórnmál, vísindi, sviðslistir og kvikmyndagerð. Konur í heilbrigðisþjónustu, fjölmiðlun, flugi og konur í prestastétt. Konur í menntakerfinu, iðngreinum, réttarvörslukerfinu, verkalýðshreyfingunni og íþróttum.

Þetta voru alls konar konur með alls konar sögur sem stöfuðu af sama kerfislæga vanda, ofbeldi og lítilsvirðingu í garð kvenna. Þolendaskömm og meðvirkni samfélagsins með gerendum. Konur af erlendum uppruna á Íslandi létu sérstaklega í sér heyra og kröfðust þess að samfélagið brygðist á sama hátt við frásögnum þeirra og frásögnum íslenskra kvenna.

Þessi bylgja var í hámæli í samfélagsumræðunni um nokkurra mánaða skeið og samkvæmt könnun MMR, sem framkvæmd var að vori 2018, töldu landsmenn upp til hópa, eða rúm 70 prósent, að umræðan um #metoo hefði verið til bóta fyrir íslenskt samfélag. Ákall var um breytingar og bæði á vettvangi stjórnmála og innan flestra vinnustaða var ráðist í aðgerðir til þess að bregðast við #metoo byltingunni.

Klausturmálið og eftirmálar þóttu bakslag

Klausturmálið kom síðan upp á yfirborðið í nóvember 2018 og ljóst varð að inni á Alþingi var allur gangur á því hvort #metoo umræðan sem hristi upp svo rækilega upp í samfélaginu hefði náð til eyrna þingmanna. Í samtölum á milli þingmanna – sem nú eru allir í Miðflokknum – var meðal annars hæðst að #metoo-sögum og talað með niðurlægjandi og kynferðislegum hætti um stjórnmálakonur.

Daglega vinnufélaga mannanna og aðrar konur, sem höfðu flestar verið á meðal þeirra um það bil 400 núverandi og fyrrverandi stjórnmálakvenna sem rituðu nafn sitt við áskorun þar sem þess var krafist að allir karlar tækju ábyrgð og allir stjórnmálaflokkar tækju af festu á vandamálinu.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra lýsti nokkrum þessara þingmanna hreint og beint sem ofbeldismönnum, en einna grófustu ummælin sem viðhöfð voru á Klaustri beindust gegn henni. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir þingkona sagðist „eiginlega bara kjaftstopp“ yfir þeim ummælum sem um hana féllu.

Auglýsing

Orð Miðflokksmanna voru fordæmd víða í samfélaginu. Sumir lýstu málinu eins og blautri tusku framan í #metoo-byltinguna og alla þá þolendur kynbundins ofbeldis sem stigið fram saman og krafist breytinga.

Hávær krafa var uppi um afsögn þingmannanna, innan þings og utan. Þrjátíu og einn þingmaður sagði Fréttablaðinu að rétt væri að sexmenningarnir, á Klaustri, eða að minnsta kosti sumir þeirra, segðu af sér þingmennsku. Skoðanakannanir meðal almennings sýndu mikinn stuðning við það sama, 74 til 91 prósent Íslendinga voru á því máli að réttast væri að þingmennirnir tækju pokann sinn.

Þingmennirnir sex sem sátu að sumbli á Klaustri haustið 2018.
Samsett

Klausturmálið, eftirmálar þess og litlar afleiðingar þóttu mörgum á skjön við þá umræðu sem hafði átt sér stað í samfélaginu einungis um ári mánuðum fyrr. „Gerend­urn­ir í þessu máli bera gríðarlega mikla ábyrgð og þeir neita að taka hana,“ sagði Þór­hild­ur Sunna Ævarsdóttir þingmaður á málþingi um stjórnmálin og #metoo sem fram fór í mars 2019.

Í nýrri bylgju #metoo er kallað eftir því að karlar geri betur en áður. „Ég vil sjá karla hlusta, ég vil sjá karla stíga fram og axla ábyrgð,“ sagði Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðingur í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon í gær. Þar sagðist hún hrædd um að mikill fjöldi karla hefði eitthvað á samviskunni.

Venjulegir menn

Miðað við fjölda hörmulegra frásagna kvenna sem hrannast hafa upp á samfélagsmiðlum er það ekki ósennilegt. Sumum sögunum fylgir að gerendurnir, sem þolendur rekast á í sínu daglega lífi mörgum árum seinna, hafi verið taldir svo „góðir strákar“ að óttinn við að vera ekki trúað hefði komið í veg fyrir að þolendur opnuðu sig, fyrr en nú.

En góðir strákar og venjulegir menn geta líka gert slæma hluti. Það þarf ekki að vera neitt skrímsli til þess. Og nú eru þeir hvattir til að stíga fram, gera upp við samviskuna, en ekki síst – ræða um hlutina sín á milli – svo umræðan í samfélaginu færist áfram.

Sömuleiðis hefur verið kallað eftir því að karlar geri meira til þess að fræða sig um kynferðislegt ofbeldi gegn konum. Það sé ekki þeirra að uppfræða karla um hvar mörk í samskiptum eigi að liggja.

Á samfélagsmiðlum hafa margir mælt með námskeiði Stígamóta, Bandamenn, þar sem fjallað er um kynferðisofbeldi gegn konum með sérstakri áherslu á hvað karlar geta gert til að berjast gegn því.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar