Þegar „góða“ fólkið gerir slæma hluti

Bára Huld Beck blaðamaður fjallar um hvimleitt orðaval hjá þeim sem verja fólk sem brotið hefur á öðrum eða sýnt af sér hegðun sem ekki er ásættanleg.

Auglýsing

Við kennum börnunum okkar að vera góð við aðra – það er eitt af því fyrsta sem við viljum innræta í litlu krílin, segja „aaa“ við voffa eða vera góð við jafnaldra og kannski sérstaklega þá sem eru minni og berskjaldaðir. Og þrátt fyrir að kærleikurinn komi líka að innan þá lærum við ákveðnar hefðir í uppvextinum; hvernig við eigum að koma fram við aðra og hvað það þýðir að vera góður við aðra.

Svo fullorðnast þessir litlu einstaklingar og verða að þeim sem þeir verða – og gengur misvel að viðhalda þessum lærdómi uppvaxtaráranna. Þetta á við um okkur öll.

Tvíhyggja sem skaðar umræðuna

Þegar manneskja síðan brýtur á annarri manneskju með einhverjum hætti eða hagar sér utan siðferðis- eða lagaramma samfélagsins þá verða allajafna einhverjar afleiðingar af slíkri hegðun. Við viljum líka kenna börnunum okkar að gjörðir hafa afleiðingar – en það er mikilvægur þáttur í að þroskast því annars er lítil von um lærdóm eða betrun.

Auglýsing

Þess vegna er afar hvimleitt þegar þeir sem verja fólk sem brotið hefur á öðrum eða gegn þessum samfélagssáttmála tala um það sem „svo gott“ fólk; það hreinlega geti ekki hafa gert það sem það er sakað um vegna þess. Mýmörg dæmi eru um þessa orðanotkun en það nýjasta sem ég rakst á er í pistli eftir Bryndísi Schram þar sem hún ver eiginmann sinn, Jón Baldvin Hannibalsson, gegn þeim ásökunum sem komið hafa upp gegn honum.

„Maðurinn minn er ekki vondur maður – hann er góður maður. Þú þarft ekki annað en að horfa í augu hans, hlusta á hann tala og kynnast skoðunum hans, til þess að skynja, að hér fer maður, sem ber virðingu fyrir samferðafólki sínu, hvort sem um konu eða karl er að ræða. Einlægur jafnaðarmaður, sem fer ekki í manngreinarálit, þykir vænt um fólk. Nú er það orðinn glæpur.“

Gildisdómar sem þessir um fólk sem brýtur á öðrum eða er sakað um það hafa lítið með málið að gera því að allt fólk er bæði „gott“ og „vont“ – þó vissulega í misjöfnum hlutföllum. Að nota þessa gildisdóma sem vörn er tvíhyggja sem gerir ráð fyrir að veruleikinn sé tvískiptur með afgerandi hætti. Það getur ekki gert neitt annað en skaðað umræðuna.

Hugtakið góður er skilgreint í orðabók: „(Um jákvæðar eigindir í skapgerð, siðferði eða hjartalagi) mildur, ljúfur, tillitssamur.“ Allt gott og blessað enda gætu flestir á einhverjum tímapunkti í lífinu fallið undir þessa skilgreiningu. En einstaklingur er ekki eitthvað eitt, eins og áður segir. Við höfum hvert og eitt okkar eftirsótta eiginleika og hæfileika sem hafa þróast með aldri í gegnum erfðamengi, uppeldi og reynslu. Að kalla einhver svo algóðan að hann hreinlega geti ekki hagað sér með slæmum hætti er í besta falli kjánalegt og í versta falli drepur málum á dreif og er skaðlegt.

Venjulegt fólk beitir ofbeldi

Allt þetta viðheldur jafnframt því sem kallað hefur verið skrímslavæðing manna sem beita ofbeldi og fælir fólk frá því að taka ábyrgð á gjörðum sínum – og þolendur að segja frá reynslu sinni.

Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir fjölluðu um hugtakið í aðsendri grein í Stundinni í nóvember á síðasta ári en þar kemur fram að orðið skrímslavæðing merki yfirleitt að menn sem beiti ofbeldi séu gerðir að ómennskum skrímslum. Þeir sem mæli hvað harðast gegn slíku tali segi að það komi í veg fyrir að þeir sem beita ofbeldi játi afbrot sín og leiti sér hjálpar.

Í greininni benda þær Guðrún Ebba og Kristín á að samkvæmt rannsóknum séu það venjulegir menn sem beiti ofbeldi – þetta geta verið bekkjarfélagar, vinir, fjölskyldumeðlimir eða vinnufélagar.

Það er enn hægt að þykja vænt um manneskju sem brýtur á öðrum – vísvitandi eða ekki. En að taka ábyrgðina af henni vegna þess að við teljum hana „góða“ er engum til hagsbóta. Þvert á móti viðhöldum við þá ofbeldinu gagnvart þolandanum eða þeim sem manneskjan braut á.

Gildisdómar um stjórnmálamanninn koma verkum hans ekki við

Þessa gagnrýni má líka yfirfæra yfir á fleiri svið, til að mynda þegar stjórnmálafólk er gagnrýnt fyrir störf sín og hið persónulega er fært yfir á pólitíska sviðið.

Með sömu röksemdafærslu skiptir ekki máli hvort vinir, fjölskylda eða samstarfsmenn stjórnmálamanns telji hann góðan – umhyggjusaman eða kærleiksríkan. Gjörðir hans sitja eftir þrátt fyrir „góðmennskuna“ og þess vegna vera einhvers konar afleiðingar.

Því allt eru þetta gildisdómar (góður, umhyggjusamur og kærleiksríkur) og koma pólitískum störfum þannig séð ekki við. Vissulega er kostur að vera sagður prýddur slíkum mannkostum en stjórnmálamenn eru kosnir af þjóðinni til að vinna ákveðið verk – flestir með hugmyndafræði að baki. Þá eru það verkin sem tala og hvernig þeir í reynd koma fram við aðra.

Auðveldara að stinga höfðinu í sandinn

Orð skipta máli og hvernig við beitum þeim. Ég er þannig ekki að mælast gegn því að nota skilgreiningar eða hugtök eins og „góður“ eða „vondur“ – heldur einungis minna á að fólk er alls konar og gerir góða og slæma hluti.

Ég skil af hverju það er freistandi að horfa á heiminn í gegnum tvíhyggju-gleraugun. Auðveldara er að lifa í svarthvítri veröld með engum núönsum – þar sem fólk er annað hvort gott eða vont og þá þar af leiðandi geri annað hvort góða eða slæma hluti. Þá er auðveldara að stinga höfðinu í sandinn og afneita óréttlæti og yfirgangi. En það er ekki hið hugrakka og rétta að gera.

Stærsta birtingarmynd þessa hér á landi eru hundruð frásagna sem fram komu í #metoo-byltingunni og reyndist það mörgum erfitt að horfast í augu við nákvæmlega þetta. Að vinir og fjölskyldumeðlimir hefðu getuna til að haga sér með lágkúrulegum hætti gagnvart öðrum og að sætta sig við að þessi „góði drengur“ væri þá ekki raunverulega „góður“. Hendum þessum gildisdómum út í hafsauga þegar við ræðum um gjörðir sem fólk þarf að bera ábyrgð á.

Því við erum öll „góð“ og „vond“.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira úr sama flokkiÁlit