Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa

Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.

Bóluefni
Auglýsing

Bandaríkjastjórn boðaði á miðvikudag að hún myndi nú beita sér fyrir því að hugverkaréttindum á bóluefnum gegn COVID-19 verði tímabundið vikið frá. Með öðrum orðum – bóluefnaframleiðendur hafi ekki lengur einkaleyfi á uppfinningum sínum.

Katherine Tai viðskiptamálafulltrúi Biden-stjórnarinnar greindi frá þessum viðsnúningi á stefnu Bandaríkjanna, en mikill þrýstingur hefur verið á þarlend stjórnvöld úr ýmsum áttum undanfarnar vikur, enda telja margir að hægt væri að spýta í hvað framleiðslu bóluefna varðar ef bóluefnaframleiðendurnir yrðu sviptir einkaréttarleyfum sínum.

Indland og Suður-Afríka lögðu tillögu um víðtækt afnám einkaleyfa fram innan WTO strax síðasta haust og hafa notið stuðnings yfir 100 ríkja, aðallega þeirra sem snauðari eru. Bandaríkin, ríki Evrópusambandsins, Bretland og fleiri auðug og áhrifamikil ríki hafa lagst gegn tillögunni til þessa – og lyfjarisar heimsins sömuleiðis, af ýmsum ástæðum.

Ákvarðanir innan WTO eru teknar í samhljómi og því er það þýðingarmikið að Bandaríkin stígi nú fram og segi stöðu COVID-19 faraldursins á heimsvísu það alvarlega að það kalli á „óvenjulega aðgerð“ sem þessa í þágu þess að kveða niður faraldurinn. Eftir að Bandaríkin tilkynntu um stefnubreytingu sína hafa ráðamenn í sumum ríkjum Evrópusambandsins einnig lýst sig tilbúna til þess að ræða það sem þótti nánast ómöguleiki fyrir örfáum dögum. Þýska ríkisstjórnin segist þó ekki hlynnt því að fara þessa leið.

Joe Biden Bandaríkjaforseti. Mynd: EPA

Enn er þó óljóst hvað nákvæmlega Bandaríkin það er sem að leggja til. Yfirlýsingin frá viðskiptamálafulltrúanum Tai var fremur loðin og einungis er talað um að stefna af því að afnema einkaleyfi af bóluefni, á meðan að Indverjar og Suður-Afríkumenn og önnur ríki hafa barist fyrir víðtæku afnámi einkaleyfa af allskyns framleiðsluvörum sem gagnast geta í baráttunni við heimsfaraldurinn.

Það eru ekki ný sannindi að faraldrinum verði ekki lokið fyrr en búið er að bólusetja fólk um allan heim fyrir veirunni, því á meðan hún fær að grassera og ganga á milli fólks í stórum stíl er hætta á stökkbreytingum sem gætu dregið úr áhrifamætti þeirra bóluefna sem nú þegar hafa verið kynnt til sögunnar.

Bóluefnunum mjög misskipt

Bólusetningar ganga mjög misjafnlega hratt fyrir sig. Á heimsvísu eru Íslendingar og aðrar vestrænar þjóðir í bestri stöðu – enda fóru auðugustu ríki heims fremst í röðina þegar kom að bóluefnakaupum og hafa þar að auki verið fremur treg til að flytja það sem er framleitt innan þeirra landamæra til fátækari ríkja. 

Bandaríkjamenn, sem hafa framleitt flesta skammta af öllum þjóðum, hafa einungis flutt örlítið brotabrot af framleiðslu sinni út fyrir landsteinana og Bretar sömuleiðis.

Á Íslandi er búið að fullbólusetja 17 prósent allra yfir 16 ára aldri nú þegar og 25 prósent fólks í þeim aldurshópi hefur fengið eina sprautu af tveimur.

Auglýsing

Samkvæmt samantekt New York Times um stöðu bólusetninga í heiminum er í dag búið að gefa 49 bóluefnaskammta á hverja 100 íbúa Norður-Ameríku, 32 á hverja 100 í Evrópu, 19 á hverja 100 í Suður-Ameríku, 12 á hverja 100 í Asíu, 6,4 á hverja 100 íbúa í Eyjaálfu og einungis 1,4 skammta á hverja 100 íbúa í Afríku.

Þetta mikla misvægi hefur orðið til þess að fátækari ríki heims hafa sett fram kröfur um að aflétta einkaleyfum framleiðenda. En það eru afar deildar meiningar um hvort tímabundið afnám á hugverkaréttindum muni gera einhvern gæfumun.

Lyfjageirinn tekur hart á móti

Hagsmunasamtök bandaríska lyfjageirans hafa kallað stefnubreytingu Bandaríkjanna „fordæmalaust skref“ sem muni í reynd grafa undan aðgerðum til þess að hefta faraldurinn. Stephen J. Ubl, forseti samtakanna, sagði að þessi viðsnúningur myndi meðal annars verða til þess að setja aukið álag á virðiskeðjur bóluefnaframleiðenda sem þegar væru viðkvæmar og auka hættuna á að fölsuð bóluefni fari í umferð.

Sumir hafa bent á að flöskuháls bóluefnaframleiðslunnar sé ekki sá að bóluefnaframleiðendur liggi á uppskriftunum að bóluefnunum eins og ormar á gulli. Bandaríski lyfjarisinn Pfizer hefur komið því áleiðis inn í umræðuna að bóluefni sitt sé búið til úr 280 mismunandi hráefnum sem fáist frá 86 birgjum í 19 mismunandi ríkjum – og einnig þurfi mjög sérhæfðan búnað og starfsfólk til þess að framleiða efnin. Búnað og sérþekkingu getur WTO ekki neytt fyrirtækin til að láta af hendi.

Eins og Kjarninn fjallaði ítarlega um í fréttaskýringu í lok mars er fjölmargt sem þarf til þess að koma bóluefnum á markað og til neytenda, ótal hráefni og aðrar vörur, meðal annars lítil lyfjaglös, síur, kvoður, gúmmí og einnota plastpoka. Ef einhver vandræði koma upp varðandi öflun einhverra þessara hluta eða annarra getur það sett ferlið í uppnám og valdið töfum.

Thomas Cueni, forseti alþjóðlegs hagsmunahóps lyfjaframleiðenda, sagði við breska ríkisútvarpið BBC í vikunni að hann óttaðist að afnám einkaleyfa bóluefnanna gæti truflað það ferli sem nú væri unnið eftir. „Flöskuhálsarnir núna,“ sagði Cueni, „eru viðskiptahömlurnar, sem koma í veg fyrir að fyrirtæki geti flutt vörur sínar frá einu landi til annars. Það er vöntunin og skorturinn í virðiskeðjunum, sem þarf að taka á.“

Hann lét fylgja að skortur á vilja ríkra landa til þess að deila bóluefninu með fátækari ríkjum væri einnig vandamál. „Afnám einkaleyfa gerir ekkert til að taka á þessum atriðum,“ sagði Cueni.

Gæti sett fordæmi til framtíðar – sumir fagna, aðrir ekki

Hópar á Vesturlöndum hafa sumir hverjir barist ákaft gegn einkaleyfum á nauðsynlegum lyfjum og bóluefnum árum saman. Þeir sem hvað ákafast fagna þessari nýju viðleitni Bandaríkjanna hvað COVID-19 bóluefnin varðar eru sumir úr sama mengi og reyndi árum saman að fá bandarísk yfirvöld til þess að afnema einkaleyfi fyrirtækja á framleiðslu lyfja gegn HIV-veirunni síðla á síðustu öld. Sú barátta var án árangurs og það kostaði fjölmörg mannslíf, helst í Afríku.

Mynd: EPA

Þessir hópar fagna því nú og telja að með ákvörðuninni sé verið að skapa fordæmi. Þegar ógnin sé nægilega mikil og steðji að heiminum öllum sé ekki verjandi að ákveðin fyrirtæki hafi einkaleyfi á framleiðslu lyfja eða bóluefna.

Lyfjageirinn telur einnig að verið sé að skapa fordæmi, en hættulegt fordæmi, þar sem einkaleyfisrétturinn sé nauðsynlegur til þess að tryggja tekjur af þróun nýjunga. Ef hagnaðarvonin hverfi geri nýsköpunarneistinn og viljinn til þess að fjárfesta í þróun nýrra lyfja einnig. Hlutabréf í lyfjafyrirtækjum á borð við Pfizer, Novavax, BioNTech og Moderna tóku snarpa dýfu þegar ákvörðun Biden-stjórnarinnar var kunngjörð síðdegis á miðvikudag.

Auglýsing

Bandaríska blaðið Wall Street Journal skrifaði um „bóluefnaþjófnað Bidens“ í ritstjórnardálki sínum á fimmtudag. Þar voru færð fram rök fyrir því að án fjárhagslegra hvata myndi enginn vilja fjárfesta í nýjum lækningalausnum.

Á móti hefur reyndar verið bent á að verulegur hluti alls þess fjár sem rann til þróunar bóluefnanna sem nú eru að flæða um heiminn kom úr ríkissjóðum eða frá góðgerðastarfi – til dæmis 97 prósent allra þeirra fjármuna sem settir voru í þróun bóluefnisins frá AstraZeneca. Það var sérstaklega skoðað eftir að Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands sagði að það mætti þakka „græðgi“ fyrir skjótan hraða bóluefnaþróunarinnar.

Auk þess byggir mRna-tæknin sem notuð er í hinum nýstárlegu bóluefnum bæði Pfizer og BioNTech og Moderna á grunnrannsóknum sem fjármagnaðar voru af hinu opinbera.

Er þetta bara hótun?

Sumir álitsgjafar hafa velt því upp hvort stefnubreyting bandarísku stjórnarinnar sé sett fram til þess að ýta bóluefnaframleiðendum út í að gera fleiri samstarfssamninga við framleiðendur í fátækari ríkjum, fremur en til þess að sú leið verði raunverulega farin að svipta fyrirtækin einkaleyfum sínum. Allmargir svona samstarfssamningar hafa verið gerðir nú þegar, ekki síst af hálfu AstraZeneca.

Með hótun um afnám einkaleyfa yfir höfði sér gætu lyfjafyrirtækin fengið hvata til þess að víkka enn frekar úr kvíarnar í bóluefnaframleiðslu sinni og deila þekkingu og sérhæfingu með framleiðendum í fátækari ríkjum, eins og heimurinn þarf sárlega á að halda.

Sem fyrr segir er þó enn fremur óljóst hvað Bandaríkin nákvæmlega sjá fyrir sér og nokkur tími, jafnvel mánuðir, gætu liðið þar til ríki heims koma sér saman um einhverja niðurstöðu á vettvangi Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Radíó Efling
Radíó Efling
Radíó Efling – Heimsmet í skerðingum
Kjarninn 25. júní 2021
Þórður Snær Júlíusson
Áframhaldandi tilfærsla á peningum úr ríkissjóði til þeirra sem hafa það best
Kjarninn 25. júní 2021
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Viðbrögð borgaryfirvalda voru til skoðunar hjá ráðuneytinu
Mennta- og menningarmálaráðuneytið var með viðbrögð borgaryfirvalda varðandi plássleysi í sérdeildum grunnskóla borgarinnar til skoðunar. Reykjavíkurborg hefur nú mál einhverfra nemenda til úrlausnar og hefur þegar leyst mörg þeirra, samkvæmt ráðuneytinu.
Kjarninn 25. júní 2021
Mesta aukning atvinnuleysis á Norðurlöndunum
Atvinnuleysi hefur aukist um þrefalt meira hér á landi en á hinum Norðurlöndunum á síðustu tveimur ársfjórðungum, miðað við sama tímabil árið á undan, samkvæmt tölum úr vinnumarkaðskönnun landanna.
Kjarninn 24. júní 2021
Sektað vegna grímuskyldu í Ásmundarsal
Eigendur Ásmundarsalar hafa sent frá sér tilkynningu vegna máls sem kom upp á Þorláksmessu í fyrra er varðar brot á grímuskyldu. Lögreglan neitaði að greina frá niðurstöðunni fyrr í dag.
Kjarninn 24. júní 2021
Eva Dögg Davíðsdóttir
Hringrásarhagkerfið – hvar stöndum við?
Kjarninn 24. júní 2021
Saga Japans
Saga Japans
Saga Japans – 39. þáttur: Veiðiferð sjógunsins I
Kjarninn 24. júní 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, var á meðal gesta í samkvæminu í Ásmundarsal.
Lögreglan neitar að upplýsa um niðurstöðuna í Ásmundarsalar-málinu
Lögreglan hóf sjálf hið svokallaða Ásmundarsalar-mál með því að greina frá því að ráðherra, sem síðar var opinberað að væri Bjarni Benediktsson, hefði verið í ólögmætu samkvæmi á Þorláksmessu. Nú neitar lögreglan að upplýsa um niðurstöðuna í málinu.
Kjarninn 24. júní 2021
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar