Niðurstöður þingkosninganna á Grænlandi benda til þess að námuvinnsluævintýrið sem stefnt var að í suðurhluta landsins sé úti. Vinstri flokkurinn Inuit Ataqatigiit (IA) er sigurvegari kosninganna og getur ásamt flokknum Naleraq myndað stjórn. Báðir flokkarnir eru á móti því að fjöldi sjaldgæfra jarðefna, m.a. úran, verði unnið úr fjallinu Kuannersuit.
Hin fyrirhugaða námuvinnsla í nágrenni smábæjarins Narsaq var stóra kosningamálið sem deilt var um í aðdraganda kosninga til grænlenska þingsins, Inatsisartut, og er niðurstöðurnar lágu fyrir í morgun, um að IA hefði hlotið 37 prósent atkvæða og tryggt sér tólf sæti á þinginu og Naleraq tryggt sér fjögur, er litið á það sem sterka vísbendingu um hver örlög námuvinnsluverkefnisins verða. Formaður IA, Múte Bourup Egede, sagði er niðurstaðan var ljós að verkefnið yrði stöðvað. „Við kvikum ekki frá því,“ sagði hann. „Við ætlum að hlusta á kjósendurna, þeir eru órólegir. Við segjum nei við úranvinnslu.“
Jafnaðarmannaflokkurinn Siumut hefur haft meirihluta á þinginu í áratugi eða allt frá árinu 1979 að undanskildu einu kjörtímabili. Hann er nú næst stærsti flokkurinn á eftir IA og hlaut 29,4 prósent atkvæða. Í ár eru 300 ár síðan að Danmörk tók völdin á Grænlandi. Smám saman hafa Grænlendingar fengið meiri sjálfsstjórn en krafa um full sjálfstæði hefur orðið sífellt háværari.
Námufyrirtækið Greenland Minerals hefur verið starfrækt á Grænlandi frá árinu 2007 og allan tímann haft það á stefnuskrá sinni að opna námu í Kuannersuit. Þetta er því ekki í fyrsta sinn sem verkefnið er bitbein í kosningabaráttunni í landinu. Það fékk þó aukna athygli í aðdraganda kosninganna nú, þegar kosið var bæði til þings- og sveitarstjórna, eftir að landsstjórnin, Naalakkersuisut, samþykkti fyrir sitt leyti umhverfismatsskýrslu um hina áformuðu vinnslu. Sú skýrsla er nú í kynningu meðal almennings og rennur athugasemdafrestur ekki út fyrr en 1. júní. Að því ferli loknu er það í höndum stjórnmálamanna að ákveða hvort að framkvæmdaleyfi til vinnslunnar verður gefið út. Af þessu sökum er litið svo á að úrslit kosninganna nú hafi snúist um skoðun Grænlendinga á verkefninu. Formaður Siumut-flokksins, Erik Jensen, segist í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 telja að andstaðan við námuvinnsluna hafi orðið til þess að flokkur hans tapaði.
Stuðningsmenn námuverkefnisins telja að það gæti skipt sköpum fyrir efnahag Grænlands. Námufyrirtækið hefur sagt að um 300 störf muni skapast og var Siumut-flokkurinn fylgjandi því. Andstæðingar benda hins vegar á að námuvinnslunni myndi fylgja mikið rask og óttast skammtíma- sem og langtímaáhrif á náttúruna. Úran, sem er mjög óstöðugt og hættulegt efni, er ein af þeim aukaafurðum sem námugröfturinn hefði í för með sér. Í fjallinu er að finna fjölda sjaldgæfra jarðefna sem námufyrirtækið hafði ætlað sér að vinna. Sautján þeirra eru notuð til framleiðslu raftækja, allt frá snjallsímum til segulómtækja en einnig til að búa til vopn. Þessar fágætu tegundir efna urðu til þess að Grænland var um skeið kallað „fjársjóðskista Trumps“ en hann sagðist hafa hug á að kaupa landið si svona.
Skoðanakannanir meðal almennings hafa sýnt að meirihluti Grænlendinga er á móti því að vinnslan verði að veruleika.
„Við byrjum á að fá okkur kaffibolla,“ segir Egede í samtali við Danska ríkissjónvarpið, spurður um hvaða flokks eða flokka hann horfi til í sambandi við stjórnarsamstarf. Á grænlenska þinginu er 31 þingsæti.