Þrír þingmenn Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins töluðu um sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.
Lárus Blöndal stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins greindi frá því í þætti Dagmála á mbl.is í morgun að ekki væri hægt að birta lista yfir þá 209 aðila sem fengu að kaupa hlut í Íslandsbanka þann 22. mars síðastliðinn með 2,25 milljarða króna afslætti.
Hann sagði að Bankasýslan hefði fengið lögfræðiálit um þetta viðfangsefni og álit frá Íslandsbanka sjálfum. Jafnframt hefði verið leitað álits hjá erlendum ráðgjöfum stofnunarinnar. „Það er einhlítt svar í sjálfu sér, það eru allar líkur á því að þetta falli undir bankaleynd og jafnframt er þetta óþekkt í þessum erlenda praxís að menn upplýsi um kaupendur og hvað keypt er,“ sagði hann.
Ekki hægt að gefa þessari sölu ómengað vottorð um heilbrigði
Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar hóf ræðu sína á að segja að það væri ekki einfalt verk að selja banka, hvað þá þegar bankinn væri í eigu þjóðar sem er skaðbrennd eftir heilt bankahrun og afskaplega misheppnaða bankasölu í kringum aldamót.
„Við þær kringumstæður er traust algjört lykilorð, traust á undirbúningnum, traust á sölunni, traust á kaupendum og traust á því að heiðarlega sé staðið að málum og vandað til verka í hvívetna. Traust er lykilhugtak. Viðreisn hefur þá eindregnu skoðun að ríkisvaldið eigi ekki að vera alltumlykjandi í bankaviðskiptum. Við höfum því stutt söluna á Íslandsbanka en um leið spurt spurninga um traust, heiðarleika og vönduð vinnubrögð til að halda ríkisstjórninni við efnið því einkavæðingarsporin hræða aftur í áratugina. Við viljum ekki að sagan endurtaki sig og einhver dularfullur þýskur banki dúkki upp sem leppur í einhverjum feluleik og samkrulli stjórnmála og viðskipta.
Sem betur fer virðist ekkert svo stórfellt uppi á teningnum nú en því miður er ekki hægt að gefa þessari sölu ómengað vottorð um heilbrigði því að við eigum að gera sömu kröfur um vandvirkni og gagnsæi óháð stærð þess hluta sem seldur er í banka hverju sinni,“ sagði hann.
Sigmar telur að upplýsa þurfi um hvernig stendur á því að smáir aðilar, sem alls óvíst sé að geti talist fagfjárfestar, fengu að kaupa ríkiseigur fyrir tugi milljóna með afslætti.
„Allt þarf það að þola dagsins ljós og vera vel rökstutt, annars hrynur traustið á ferlinu og það skemmir fyrir frekari sölu. Þau tíðindi að Bankasýslan telur sig ekki geta veitt gögn um þá sem keyptu þessa eign þjóðarinnar með afslætti vegna bankaleyndar eru afleit. Með því hrynur krafa okkar um gagnsæi. Hvernig má það vera að það þarf að toga upp upplýsingar með töngum um þá sem kaupa af okkur eign? Þjóðin selur eitthvað en henni kemur ekki við hver keypti. Regluverkið bannar það. Undirbúningurinn og verklagið var sem sagt ekki betra en þetta. Þetta gengur auðvitað ekki upp. Ef ríkisstjórnin og við öll ætlum að sætta okkur við að okkur komi það ekki við hverjir kaupa bankann okkar þá getum við tekið lykilorð og lykilhugtak allra bankaviðskipta og allrar bankasölu og fleygt út í hafsauga því þá ríkir ekki traust,“ sagði þingmaðurinn.
„Spilling getur verið til staðar þó að það hafi ekki verið ætlun stjórnvalda“
Kristrún Frostadóttir þingmaður Samfylkingarinnar greindi frá því í sinni ræðu að á fjárlaganefndarfundi í morgun hefði hún lagt fram ósk að fá minnisblað frá Bankasýslunni í tengslum við söluna á Íslandsbanka, sem hún gerir ráð fyrir að verði afgreitt úr nefnd í vikunni.
Benti hún jafnframt á að bæði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefðu lýst því yfir að varpa þyrfti betra ljósi á söluna og sagði forsætisráðherra að lög ættu ekki að hamla birtingu listans.
„Spilling getur verið til staðar þó að það hafi ekki verið ætlun stjórnvalda. Ef leiðbeiningar við sölu á ríkiseign eru óljósar og skilningur þriðja aðila er sá að val á kaupendum sé líkt því sem gengur og gerist þegar seld eru verðbréf í einkaeigu þá getur það leitt til ráðstafana á eignum almennings á afslætti án tilhlýðandi rökstuðnings.
Ef söluaðilar eru valdir til að sinna verkefnum fyrir ríkið upp á 700 milljarða króna án þess að fram fari útboð eða rökstuðningur á því hverjir voru valdir þá vakna eðlilega upp spurningar. Af hverju? Þegar verið er að stunda viðskipti með eignir og fjármuni ríkisins þá gerum við kröfu um gagnsæi og jafnræði sem eru miklu stífari en gengur og gerist í viðskiptum einkaaðila. Ástæðan er fyrst og fremst óttinn við spillingu. Þess vegna er svo mikilvægt að fram fari alvöruskoðun á þessu ferli og að þeim spurningum sem ekki hefur verið svarað verði svarað, að öxlum verði ekki bara yppt og haldið áfram að selja tugmilljarða eignir bara einhvern veginn, á þann veg að stóra myndin sé ágæt,“ sagði Kristrún og bætti því við að þau í Samfylkingunni myndu fylgja þessu máli fast eftir og ýta eftir svörum.
Þingmenn verði að leita allra leiða til þess að fá þessar upplýsingar fram
Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins fjallaði einnig um söluna á Íslandsbanka í sinni ræðu og vísaði í ræðu Hildar Sverrisdóttur samflokkskona hennar síðan í gær þar sem hún sagði að það skipti gríðarlega miklu máli að um söluna ríkti fullt gagnsæi, ekki síst varðandi það hverjir það væru sem fengu að fjárfesta í bankanum í þessu ferli.
Þessu er Diljá Mist fullkomlega sammála og benti hún á að fjármála- og efnahagsráðherra hefði kallað eftir lista yfir kaupendur og um þær reglur sem gilda um upplýsingarnar.
„Fyrsti hluti sölu Íslandsbanka var vel heppnað hlutafjárútboð og neikvæðar raddir heyrðust þá almennt bara frá þeim sem voru og eru yfir höfuð á móti sölu ríkisbanka. Það hefur hins vegar legið fyrir frá upphafi að ríkið ætlaði sér ekki að eiga bankann um ókomna tíð. Sala ríkisins á hlutnum nú var sannarlega nauðsynlegt skref. Framkvæmdin var í höndum sjálfstæðrar stofnunar, Bankasýslunnar, sem telur að útboðið hafi verið afar vel heppnað. Það er mikilvægt að karp og hártoganir um upplýsingagjöf varpi ekki rýrð á söluna, skapi ekki óþarfa vantraust.
Það er eðlileg krafa að við fáum upplýsingar um það hverjir keyptu og hvernig því var háttað þegar um er að ræða sölu ríkiseigna. Við þingmenn gegnum eftirlitshlutverki með stjórnsýslunni og við hljótum að leita allra leiða til þess að fá þessar upplýsingar fram. Við getum tæplega unað við það að okkur verði ekki veittar þessar upplýsingar sem farið hefur verið fram á, upplýsingar sem varða sölu á ríkiseign,“ sagði hún.