Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG telur mjög líklegt að ný ríkisstjórn verði mynduð í næstu viku. Fram kom í Fréttablaðinu í morgun að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefði trú á unnt yrði að mynda nýja ríkisstjórn flokks hans með Vinstri grænum og Framsóknarflokki í næstu viku. Nýta þyrfti komandi helgi og daganna þar á eftir vel og trúði hann því að vinnan færi að klárast.
Katrín staðfestir þessi orð Bjarna í samtali við Kjarnann en hún segir að óvissa með talningu í Norðvesturkjördæmi hafi sett svip sinn á viðræðurnar.
Katrín bætir því við að þau hafi gefið sér góðan tíma vegna þess að ríkisstjórnin er með meirihluta og vegna rannsóknar á talningu í Norðvesturkjördæmi.
Varðandi rannsóknina þá telur Katrín að undirbúningskjörbréfanefnd hafi lagt mikið upp úr því að vanda sig í sinni vinnu.
Hún áréttar að nauðsynlegt sé að niðurstaða nefndarinnar verði að liggja fyrir áður en þing komi saman. „Það er alveg ljóst.“