Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar og níu aðrir Reykjavíkurþingmenn úr sama flokki, Viðreisn, Pírötum og Flokki fólksins vilja að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga „hætti að útiloka Reykjavíkurborg frá skólastuðningi“ og hafa lagt fram frumvarp um að sérreglan gegn Reykjavík í lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði afnumin.
Þetta kom fram í stöðuuppfærslu hjá Jóhanni Páli á Facebook á dögunum, sem er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Í greinargerðinni með frumvarpinu er bent á að Reykjavíkurborg sé eina sveitarfélagið á Íslandi þar sem íbúar eru 70 þúsund eða fleiri og þannig eina sveitarfélagið sem ekki nýtur framlaganna úr Jöfnunarsjóði. Að mati flutningsmanna felur þetta í sér sértæka útilokun gagnvart einu sveitarfélagi sem ekki byggist á málefnalegum sjónarmiðum og sé til þess fallin að veikja grunnþjónustu við íbúa.
Reykjavíkurborg gerir kröfu um 5,4 milljarða króna greiðslu frá ríkinu
Fram kemur í greinargerðinni að um sé að ræða almenn jöfnunarframlög, framlög vegna sérþarfa fatlaðra nemenda, framlög vegna nemenda með íslensku sem annað mál og framlög til Barna- og fjölskyldustofu vegna kennslu barna sem eru að beiðni barnaverndarnefndar lögheimilissveitarfélags vistuð utan þess á meðferðarheimili á vegum Barna- og fjölskyldustofu.
Bent er á að áður en fyrirkomulagið var lögfest með lögum sem tóku gildi þann 4. janúar 2020 hafi Reykjavíkurborg verið útilokuð frá framlögunum á grundvelli ákvæða í reglugerðum, en Reykjavíkurborg hefur stefnt ríkinu og gert kröfu um 5,4 milljarða króna greiðslu sem svarar til þeirrar fjárhæðar sem borgin hefði ellegar fengið úthlutað úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á tímabilinu 2015 til 2019.
„Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur það lögbundna hlutverk að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga. Sjóðnum eru tryggðar fastar tekjur á ári hverju með framlagi úr ríkissjóði, hlutdeild í útsvarstekjum sveitarfélaga og vaxtatekjum. Þótt stærri og fjölmennari sveitarfélög búi yfir hærri heildartekjustofnum en þau minni og geti notið meiri stærðarhagkvæmni við rekstur þjónustu réttlætir það ekki að eitt sveitarfélag sé með öllu útilokað frá því að hljóta einstök framlög úr Jöfnunarsjóði óháð útgjalda- og þjónustuþörf vegna lögbundinna verkefna,“ segir í greinargerðinni.
Vilja tryggja að öll sveitarfélög sitji við sama borð
Þá telja flutningsmenn frumvarpsins að pottur sé víða brotinn í regluverki Jöfnunarsjóðs og fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. „Brýnt er að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð, rekstrargrunnur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga styrktur og sveitarfélögum um allt land tryggðir nauðsynlegir tekjustofnar í samræmi við umfang verkefna sem þeim eru falin með lögum.“
Fram kemur í greinargerðinni að frumvarpinu sé ekki ætlað að hafa áhrif á framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til annarra sveitarfélaga en Reykjavíkurborgar og telja flutningsmenn mikilvægt að hugað verði að því við meðferð málsins og í fjárlagagerð næstu ára. „Er frumvarpið aðeins eitt skref af mörgum sem nauðsynlegt er að taka til að tryggja að öll sveitarfélög sitji við sama borð og horfið verði frá þeirri tilhneigingu að fela sveitarfélögum aukin verkefni og leggja á þau auknar skyldur án þess að fjármagn fylgi og nauðsynlegir tekjustofnar séu tryggðir.“
Enn fremur er bent á framlög til reksturs grunnskóla sem kveðið er á um í lögum um tekjustofna sveitarfélaga byggist á því grundvallarsjónarmiði að börn eigi rétt á sambærilegri þjónustu óháð uppruna, búsetu og félagslegri stöðu. Því verði ekki haldið fram með málefnalegum hætti að sveitarfélög með íbúa á bilinu 12.000 til 69.999 þurfi á sambærilegum stuðningi að halda vegna reksturs grunnskóla en Reykjavíkurborg þurfi engan slíkan stuðning.
„Við ákvörðun framlaga til reksturs grunnskóla verður að fylgja sanngjörnum og hlutlægum viðmiðum sem taka til allra sveitarfélaga á landinu,“ segir að lokum í greinargerðinni.
Sjóðurinn greiði 130 þúsund króna framlag með börnum af erlendum uppruna í öðrum sveitarfélögum
Jóhann Páll tjáði sig um málið á Facebook í stöðuuppfærslu þann 19. mars síðastliðinn, eins og áður segir. Hann bendir á að í dag fái borgin hvorki almenn framlög til grunnskóla né sérstök framlög vegna barna með annað móðurmál en íslensku. Jöfnunarsjóður greiði hins vegar 130 þúsund króna framlag með börnum af erlendum uppruna í öðrum sveitarfélögum.
„Til allrar hamingju er borgin rekin af félagshyggjufólki sem leggur sig fram um að verja börnin fyrir þessari fjárhagslegu mismunun ríkisvaldsins, en nemendur með íslensku sem annað mál eru hvergi fleiri en einmitt í Reykjavík.
Íbúar Reykjavíkur verja miklu meiri fjármunum til félagsþjónustu heldur en aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins. Borgin stendur undir miklum meirihluta allrar fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga á Íslandi og hér eru greiðslurnar líka hærri en í öðrum sveitarfélögum. Loks er Reykjavíkurborg í forystuhlutverki þegar kemur að því að liðka fyrir félagslegri húsnæðisuppbyggingu,“ skrifar hann.
Slagorðið „x-b fyrir börn“ tekur ef til vill ekki til barna í Reykjavík
Þá segir Jóhann Páll að þetta frumvarp sé einungis eitt skref af mörgum sem þurfi að taka til að tryggja jafnræði milli íbúa og leiðrétta ósanngjarna tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
„Ég vona að þingmenn allra flokka treysti sér til að styðja málið þótt hingað til hafi ríkisstjórnin beitt sér af hörku fyrir áframhaldandi útilokun Reykjavíkur frá skólastuðningi. Slagorðið „x-b fyrir börn“ tekur e.t.v. ekki til barna í Reykjavík, ekki frekar en að það tekur til barnanna sem bíða mánuðum saman eftir nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu vegna þess að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vill ekki forgangsraða í þágu velferðar.
Við flutningsmenn erum sammála um að við ákvörðun framlaga úr jöfnunarsjóði verði að fylgja sanngjörnum og hlutlægum viðmiðum. Öll börn eiga rétt á sambærilegri þjónustu óháð uppruna, búsetu og félagslegri stöðu. Burt með útilokunarregluna gegn Reykjavík!“ skrifar hann að lokum.
Ég og níu aðrir Reykjavíkurþingmenn úr Samfylkingunni, Viðreisn, Pírötum og Flokki fólksins viljum að jöfnunarsjóður...
Posted by Jóhann Páll Jóhannsson on Saturday, March 19, 2022