Í tilkynningu frá Vinum Mosfellsbæjar segir að meirihlutaviðræður flokksins við Framsóknarflokkinn í Mosfellsbæ hafi formlega hafist í gær og að mikill samhljómur hafi verið meðal framboða í fyrstu skrefum málefnavinnunnar. Samkvæmt viðræðuáætlun hafi átt að hittast aftur í dag og ætluðu fulltrúar Vina Mosfellsbæjar að nýta tímann til að ræða við sitt bakland um ákveðin málefni. Áður en fundur hafi hafist hafi viðræðum hins vegar verið slitið og óljósar málefnalegur ástæður verið gefnar fyrir þeirri ákvörðun af hendi Framsóknarflokksins.
Þá hermdu heimildir Kjarnans, að því er greint var frá á mánudag, að mestar líkur væru á því að flokkurinn myndaði meirihluta með Samfylkingunni og Viðreisn, sem hlutu einn mann hvor í bæjarstjórnarkosningunum síðastliðinn laugardag. Þá hafi komið til greina að bjóða Vinum Mosfellsbæjar að vera með í meirihlutaviðræðum, en nú er ljóst að svo verður ekki.
Samkvæmt tilkynningu frá Vinum Mosfellsbæjar segir flokkurinn að vera kunni að afstaða flokksins varðandi skipulagsmál og aðkomu íbúa að þeim eigi þar hlut í máli.