Áhersla er lögð á jafnrétti, efnahagslegt jafnvægi og alþjóðlega samvinnu í stjórnmálaályktun Viðreisnar. Líkt og áður stefnir flokkurinn að aðild að Evrópusambandinu, að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu, en evran er fyrirferðarmikil í kosningaáherslum flokksins sem settar eru fram í stjórnmálaályktuninni.
Landsþing Viðreisnar var haldið um helgina þar sem málefnavinna og breytingar á samþykktum fór fram.
Evru geti fylgt stöðugleiki í efnahagsmálum
Sem fyrr berst Viðreisn fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Flokkurinn vill binda gengi krónunnar við evru með samningi við Seðlabanka Evrópu sem yrði þá fyrsta skrefið að upptöku gjaldmiðilsins. Í ályktuninni upptaka evru sögð geta aukið stöðugleika og lækkað kostnað heimila og fyrirtækja. „Þannig mun draga verulega úr verðbólgu, erfiðum gengissveiflum og vextir haldast lágir. Kostnaður heimila og fyrirtækja lækkar. Stöðugleiki eykst og fjárhagslegar skuldbindingar verða skýrari.“
Í ræðu sinni á landsþingi sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður flokksins það verða fyrsta verk flokksins, fái hann til umboð til þess, „að semja um gagnkvæmar gengisvarnir og tengja krónuna við Evru. Við eigum ekki að sætta okkur við meiri verðbólgu, miklu hærri vexti á húsnæðislánum eða dýrari matarkörfu en þekkist í nágrannalöndum.“
Nýr gjaldmiðill auðveldi samkeppni
Í ályktuninni segir enn fremur að nýr gjaldmiðill muni breyta skilyrðum fyrir nýsköpun og uppbyggingu þekkingariðnaðar sem og gera samkeppni mögulega á mörkuðum „sem flöktandi króna hindrar í dag“, líkt og í bankastarfsemi og tryggingum.
Evran kemur einnig við sögu í þeim kafla ályktunarinnar sem snýr að atvinnulífinu. „Stöðugur gjaldmiðill og virk þátttaka í alþjóðlegu viðskiptalífi eru grunnforsendur fyrir sterkari stöðu heimilanna, efnahagslegum framförum, aukinni framleiðni í atvinnulífinu og varanlegri aukningu kaupmáttar.“
Þar segir einnig að samkeppni á öllum sviðum viðskipta leiði til betri lífskjara almennings og að einfaldara regluverk sé í þágu almannahagsmuna. Þá geti fjölbreytt atvinnulíf um land allt sem byggi á nýsköpun og tækni orðið undirstaða útflutnings.
Hluti kvótans verði boðinn upp á markaði á hverju ári
Í sjávarútvegsmálum vill Viðreisn að réttur til veiða verði með tímabundnum leigusamningum til 20 til 30 ára í senn. Á hverju ári verði hluti kvótans boðinn upp á markaði og í fyllingu tímans verði allar veiðiheimildir bundnar slíkum samningum.
Með þessu fáist „sanngjarnt gjald til þjóðarinnar og meiri arðsemi í greininni án þess að kollvarpa kerfinu,“ segir í ályktuninni. Fyrirkomulagið skapi vissu til lengri tíma hjá þeim sem stunda veiðar auk þess sem tækifæri til nýliðunar í sjávarútvegi muni aukast.
Vilja blandaða leið í heilbrigðiskerfinu
Flokkurinn vill standa vörð um einkarekstur í heilbrigðiskerfinu en í ályktun sinni hafnar hann aðför núverandi ríkisstjórnar að sjálfstætt starfandi stofum og sérfræðingum,“ en flokkurinn telur blandaða leið vera besta. Sú aðför hafi leitt af sér biðlista og aukinn kostnað, ekki síst fyrir íbúa landsbyggðarinnar.
Í ályktuninni segir að heilbrigðisþjónusta eigi að standa öllum til boða óháð efnahag og að áhersla skuli lögð á þjónustuna frekar en rekstrarform þeirra sem hana veita.
Þar segir einnig að fjármunum hins opinbera verði að verja skynsamlega. Því skuli ráðstafa eftir greiningu á þörf og kostnaðarmati. Landspítali eigi aftur á móti að fá nauðsynlegt fé til þess að „geta risið undir þeim kröfum sem gerðar eru til hans“.
Þá er það sagt ótækt að sóttvarnaaðgerðir séu óhóflega íþyngjandi vegna fjárskorts heilbrigðiskerfisins og að létta þurfi á takmörkunum með auknu aðgengi að hraðprófum.
Þau borgi sem menga
Til þess að takast á við stöðuna sem upp er í komin í loftslags- og umhverfismálum vill Viðreisn „hvetjandi grænt kerfi þannig að það borgi sig að vera umhverfisvæn og að þau borgi sem menga,“ eins og það er orðað í ályktuninni.
Þar segir einnig að stærstu áskoranir samtímans séu vegna alvarlegrar stöðu í þessum málaflokki. Því krefjast almannahagsmunir þess að næstu ríkisstjórnir setji baráttuna við loftslagsvána í forgang.
Í ræðu sinni á landsþingi sagði Þorgerður Katrín að komist flokkurinn í ríkisstjórn muni hann leggja áherslu á að ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum innihaldi tímasett markmið fyrir hvert ár, „svo hægt verði að sjá til þess að staðið sé við stóru orðin.“