Seðlabankinn segir að þau meintu svik sem lutu að úttektum á gjaldeyri fyrir tilhæfulausa reikninga á tímum gjaldeyrishafta hafi varðað viðskipti við viðskiptabankana, en ekki Seðlabankann, líkt og ráða hafi mátt af frásögn af innihaldi bókarinnar Iceland’s Secret og viðtali við Jared Bibler höfund bókarinnar, sem birtist í Kjarnanum undir lok september.
Bankinn segir, í svari við fyrirspurn Kjarnans um efni bókarinnar og orð Jareds, sem er fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins, að mikilvægt sé að halda því til haga að Seðlabankinn hafi ekki selt viðskiptabönkum erlendan gjaldeyri með afslætti á millibankamarkaði á þessum tíma, ekki frekar en í dag. Það sé því langsótt að tala um misnotkun á Seðlabankanum, í þessu samhengi.
Í svari bankans segir að eftir setningu fjármagnshafta haustið 2008 hafi hlutverk Seðlabankans verið að hafa eftirlit með brotum gegn höftunum og tilkynna grun um brot til Fjármálaeftirlitsins, sem hafði svo það hlutverk að rannsaka brot og eftir atvikum beita stjórnsýsluviðurlögum.
„Sum þeirra mála sem komu til athugunar í upphafi fjármagnshafta og tilkynnt voru til Fjármálaeftirlitsins vörðuðu það sem stundum var kallað „hringrásun fjármuna“ þar sem erlendur gjaldeyrir var keyptur hjá innlendum viðskiptabönkum fyrir íslenskar krónur á „álandsgengi“ og hann síðan fluttur til útlanda og nýttur þar til að kaupa krónur á „aflandsgengi“ sem síðan fluttar voru til landsins,“ segir í svari bankans.
Einnig segir Seðlabankinn að hagnaðurinn af þessum viðskiptum hafi falist í mismun á gengi gjaldmiðla á þessum tveimur mörkuðum og að hann hafi getað verið „umtalsverður.“ „Í þessum málum var grunur um að heimildir til þess að kaupa erlendan gjaldeyri hjá innlendum viðskiptabönkum, s.s. vegna innflutnings á vöru og þjónustu, hafi verið misnotaðar m.a. með því að leggja fram tilhæfulausa reikninga hjá viðskiptabönkum,“ segir í svari Seðlabankans.
„Í slíkum tilvikum var um brot á lögum og reglum um gjaldeyrismál að ræða sem tekið var á. Brotin kunna auðvitað að hafa haft áhrif á nauðsyn inngripa á gjaldeyrismarkaði, en það er langsótt að tala um þau sem misnotkun á Seðlabankanum. Slík inngrip eru hluti af eðlilegri starfsemi Seðlabankans og í samræmi við markmið hans um að stuðla að stöðugu verðlagi, fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Þar með er þó ekki sagt að slík brot á fjármagnshöftunum og önnur sniðganga þeirra hafi ekki verið tekin alvarlega enda grófu þau undan markmiði þeirra að koma á stöðugleika og takast á við vandann sem hafði skapast vegna efnahagsáfallsins,“ segir í svari bankans.
Seðlabankinn tekur einnig fram að í júní árið 2010 hafi verið gerðar breytingar á lögum um gjaldeyrismál í þá veru að rannsóknir á ætluðum brotum á fjármagnshöftum voru færðar til Seðlabankans. Þá fluttust þau mál sem enn voru til rannsóknar hjá Fjármálaeftirlitinu til bankans.
Vísa í blaðamannafund um uppgjör hrunmála
Blaðamaður beindi einnig spurningu til bankans um þá fullyrðingu Jareds að einungis hefði verið ráðist í rannsóknir á hluta þeirra mála sem hægt hefði verið að ráðast í af hálfu FME eftir hrun bankakerfisins árið 2020.
Jared segir í bók sinni að af mögulegum sakamálum sem FME hefði getað ráðist í samkvæmt lögum og hlutverki sínu, telji hann FME hafi einungis framkvæmd alvarlegar rannsóknir á undir 10 prósentum heildarmálafjöldans. „Til að gera afganginn hefðum við þurft 30-40 manna teymi og fimm ár til viðbótar, tímaskala sem er algjörlega eðlilegur í málum sem varða hvítflibbasvindl,“ skrifaði Jared í bókinni.
Spurningar blaðamanns hljóðuðu svo: „Er þetta mat Jareds á málafjölda sem FME hefði getað ráðist í að rannsaka eftir hrun rétt áætlað að mati Fjármálaeftirlitsins? Var gengið í burtu frá verulegum fjölda mála án rannsókna? Ef svo er, hvað réði því?“
Í svari frá bankanum um þetta barst ekkert efnislegt svar við orðum Jareds um þetta efni, heldur var einungis vísað til glærusýningar- og fréttatilkynningar um efni blaðamannafundar FME um lyktir hrunrannsóknanna, sem fram fór 14. febrúar árið 2013.
„Alls lauk Fjármálaeftirlitið rannsóknum á 205 málum. Þar af hafa 66 mál tengd aðdraganda hrunsins verið kærð til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra eða embættis sérstaks saksóknara. Jafnframt hefur 37 málum þar sem um er að ræða meint brot á almennum hegningarlögum verið vísað til embættis sérstaks saksóknara. Samtals eru þessi mál 103,“ sagði meðal annars í fréttatilkynningunni frá FME á þeim tíma.
Ljóst er þó að Jared, sem stýrði öðru af tveimur rannsóknarteymum Fjármálaeftirlitsins eftir hrun, telur að rétt hefði verið að ráðast í rannsóknir fleiri mála sem vörðuðu fjármálaafbrot og sagði hann í viðtali við Kjarnann að það hefðu til dæmis ef til vill verið 20, 30 eða 50 innherjamál sem hægt hefði verið að rannsaka, en ekki hefði verið farið í.