Hlutabréf í Símanum voru tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands í dag og voru viðskipti með þau umtalsverður hluti af heildarviðskiptum á hlutabréfamarkaði í dag. Alls nam velta með bréfin 622 milljónum króna.
Lokagengi bréfanna var 3,49 krónur á hlut sem er aðeins hærra en meðalgengi þeirra var í hlutafjárútboði Símans í síðustu viku, sem var 3,33 krónur á hlut. Virði hlutabréfa í Símanum er því fimm prósentum hærra í lok fyrsta viðskiptadags en það var í úboðinu.
Sala hlutabréfa í Símanum í aðdraganga útboðs hafa verið mikið til umfjöllunar að undanförnu í ljósi þess að stjórnendur fyrirtækisins og meðfjárfestar þeirra fengu að kaupa fimm prósent hlut í Símanum á genginu 2,5 krónur á hlut í ágúst síðastliðnum. Samtals greiddi hópurinn 1.330 milljónir króna fyrir hlutinn.
Auk þess fengu valdir viðskiptavinir Arion banka að kaupa fimm prósent hlut á 2,8 krónur á hlut í september, skömmu áður en hlutafjárútboð Símans fór fram. Sá hópur hefur greitt um 1.490 milljónir króna fyrir sinn hlut. Þessi ráðstöfun hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars á Alþingi og af stjórnendum lífeyrissjóða sem eiga stóran hlut í Símanum.
Virði hlutar fyrri hópsins hefur því hækkað um 40 prósent miðað við gengi bréfa í Símanum í lok fyrsta viðskiptadags. Hann má ekki selja bréf sín fyrr en í byrjun árs 2017.
Virði hlutar síðari hópsins hefur hækkað um 25 prósent frá því að hann keypti hlutinn. Sá hópur má selja sinn hlut í upphafi árs 2016.
Stjórn kannast ekki við ólgu
Stjórn Símans sendi frá sér tilkynningu í lok fyrsta viðskiptadags þar sem hún fagnar þeim áfanga sem félagið náði í dag með skráningu í kauphöll.
Þar segir einnig að "Stjórnin kannast ekki við að ólga sé innan hennar vegna framkvæmdar útboðsins, eins og fullyrt hefur verið í fréttum. Stjórnin telur að við þessi tímamót verði fagmennska sem fyrr aðalsmerki félagsins. Síminn er öflugasta fjarskiptafyrirtæki landsins og það endurspeglast í þeim áhuga og trausti sem fjárfestar sýna félaginu."