Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að tillögur að breytingum á lífeyristryggingum almannatrygginga muni líta dagsins ljós á næstu dögum eða vikum. Það sé því óþarfi að „æsa upp ákveðna hópa í samfélaginu“ því það sé löngu vitað að verið sé að ráðast í aðgerðir. Þetta sagði hún í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í dag.
Vigdís, Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, ræddu um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í kjaramálum.
Þar var rætt um þau ummæli Bjarna Benediktssonar í gær að það yrði gríðarlega kostnaðarsamt að hækka bætur aldraðra og öryrkja til jafns við það sem nú hefur verið samið um á almennum vinnumarkaði. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði hann um málið á Alþingi í gær. Árni Páll sagði að ríkisstjórnin væri að skilja aldraða, öryrkja og atvinnulausa eftir í aðgerðum sínum.
Þorsteinn sagðist halda að þetta væri tímabundin frestun, enda myndu menn ekki komast hjá því að hækka örorku- og ellilífeyri á endanum. Helgi Hrafn sagði þetta tímabundna ástand hafa varað alveg frá hruni hvað varðaði öryrkja. Það væri auðvelt að gleyma stöðu öryrkja, „þeir geta ekki farið í verkfall“. Hann sagði við Vigdísi að það væri engin þörf á því að „æsa öryrkja upp“, þeir væru yfirleitt mjög reiðir yfir sinni stöðu og það þyrfti róttækar breytingar á þeirra stöðu.
Nefnd sem átti að skila tillögum í fyrra
Vigdís vísar þarna í nefnd um endurskoðun almannatryggingalaga, sem var skipuð í nóvember 2013 og átti upphaflega að skila tillögum sínum í maí 2014. Þá áttu að liggja fyrir drög að nýjum lögum um lífeyrisréttindin almannatrygginga. Verkefni nefndarinnar var annars vegar að fjalla um starfsgetumat sem koma átti í stað gildandi örorkumats og sveigjanleg starfslok, og hins vegar um fjárhæð lífeyrisgreiðslna til aldraðra og öryrkja.
Í Vikulokunum sagði Vigdís að Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður nefndarinnar, hefði fundað um málið með forsætisráðherra og fjármálaráðherra í gær. „Sú kynning sem ég hef fengið á störfum þessa hóps er mjög til góða.“