Alþýðusamband Íslands lýsir yfir vonbrigðum með að ekki hafi verið gerðar takmarkanir á arðgreiðslum fyrirtækja sem hyggjast nýta sér viðspyrnu- og lokunarstyrki stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta kemur fram í umsögn ASÍ við frumvarp um lengingu úrræða og viðbætur en frumvarpið var samþykkt á Alþingi í gær. Í umsögninni segir að takmörkun á arðgreiðslum hafi verið sett sem skilyrði fyrir nýtingu hlutabóta og taldi sambandið því rétt að sama ætti við um fyrirtæki sem ætli sér að nýta styrkina sem um ræðir.
Í frumvarpinu var heimild fyrirtækja til að nýta sér lokunar- og viðspyrnustyrki framlengd, gildistími lokunarstyrkja er nú til loka september og viðspyrnustyrkir eru í gildi út árið. Hámarksfjárhæðir styrkja var hækkuð og nú geta tengdir rekstraraðilar mest fengið 260 milljónir króna í stað 120 milljóna áður. Þá voru skilyrði fyrir viðspyrnustyrkjum útvíkkuð þannig að fyrirtæki þurfa nú að sýna fram á 40 prósent samdrátt hið minnsta til að geta fengið slíkan styrk en áður var gerð krafa um 60 prósent tekjusamdrátt.
Breytingar er snúa að hámarksfjárhæð styrkja og að nýju lágmarki tekjusamdráttar munu gilda afturvirkt.
Einnig var sérstakt bráðabirgðaákvæði um sérstakan barnabótaauka í frumvarpinu. Hann er að fjárhæð 30.000 króna með hverju barni í þeim tilvikum þar sem ákvarðaðar eru tekjutengdar barnabætur til framfærenda.
Fór í gegnum aðra og þriðju umræðu í gær
Í áðurnefndri umsögn ASÍ er sagt að áhersla skuli lögð á ábyrga ráðstöfun ríkisfjármuna. Sambandið telur rétt að gerð sé sú krafa að fyrirtæki sem þiggi styrki hafi ekki starfsemi í skattaskjólum og geti ekki úthlutað arði í þrjú ár eftir styrkveitingu.
Fjórar aðrar umsagnir bárust við frumvarpið sem var afgreitt á tiltölulega skömmum tíma en því var útbýtt 3. maí síðastliðinn og fór í gegnum aðra og þriðju umræðu í þinginu í gær.
Samtök ferðaþjónustunnar fögnuðu frumvarpinu en gerðu athugasemd við það að sett væri lágmark á tekjur fyrirtækja frá janúar til október 2020. Til þess að geta fengið viðspyrnustyrk þurfa fyrirtæki að hafa haft að minnsta kosti 500 þúsund krónur í tekjur á því tímabili. Nefndu samtökin dæmi af fyrirtæki sem orðið hefði fyrir 95 prósenta samdrætti í tekjum á tímabilinu og hefði haft um 400 þúsund krónur í tekjur, það gæti því ekki fengið viðspyrnustyrk.
Félag atvinnurekenda fagnaði frumvarpinu sömuleiðis en lagði til að gerð væri afturvirk breyting á skilyrðum fyrir lokunarstyrkjum þannig að þeir rekstraraðilar sem hefðu lokað vegna þess að þeir töldu sér það skylt gætu fengið lokunarstyrk.