Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins segist telja að „það hafi verið mistök“ hjá stjórn Eflingar „að velja hópuppsögn til að ráðast í þær nauðsynlegu skipulagsbreytingar sem þau höfðu boðað í sinni kosningabaráttu.“
„Það er mat formanns að stjórn Eflingar hefði getað náð fram þeim skipulagsbreytingum án þess að grípa til þessara hópuppsagna,“ skrifar Vilhjálmur í pistli sem birtist á vef VLFA í dag, en þar kemur hann fram athugasemdum við það sem hefur verið haft eftir honum um málið í fjölmiðlum hingað til.
Í pistlinum segir að „sumar fyrirsagnir í fjölmiðlum“ hafi ekki verið í samræmi við það sem hann hafi sagt og vísar Vilhjálmur í því samhengi til fréttar á mbl.is sem bar fyrirsögnina „Vilhjálmur ber traust til Sólveigar“ og fréttar á Vísi sem bar fyrirsögnina „Vilhjálmur tekur upp hanskann fyrir Sólveigu.“
Í hvorugri þessarra frétta er haft eftir Vilhjálmi það sem hann segir í dag, að hann álíti uppsagnirnar á skrifstofu Eflingar hafa verið „mistök“, þó að hann hafi sagt að það sé miður þegar gripið væri til hópuppsagna.
Í dag segir hann að það sé hans „bjargfasta skoðun“ að um mistök hafi verið að ræða og kallar hann þetta mál „allt hið ömurlegasta“ og segist vona að allir starfsmenn sæki aftur um störf hjá Eflingu og að eins margir og kostur er fái endurráðningu.
„Til að svara spurningunni aftur um hvort formaður styðji þessa hópuppsögn hjá Eflingu, þá er stutta svarið að sjálfsögðu, nei, ekkert frekar en aðrar hópuppsagnir sem eru á íslenskum vinnumarkaði og vill formaður ítreka að hans mat er að hægt hefði verið að ná fram skipulagsbreytingum með öðrum hætti en hópuppsögn,“ skrifar Vilhjálmur einnig.
Ber samt traust til Sólveigar og tekur upp hanskann fyrir hana
Vilhjálmur skrifar að þrátt fyrir þessar hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar beri hann „svo sannarlega“ traust til Sólveigar Önnu hvað baráttu fyrir kjörum þeirra sem höllustum fæti standa varðar. Hann taki svo „hanskann upp fyrir henni“ sem öflugri baráttukonu fyrir að standa vörð um þá sem höllustum fæti standi á íslenskum vinnumarkaði.
„Formaður hefur einnig sagt í fjölmiðlum að hann og Sólveig Anna séu alls ekkert alltaf sammála en eitt er þau algjörlega sammála um og það er það sem lýtur að því að tryggja að lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og lágtekjufólk geti haldið mannlegri reisn. Þar er formaður VLFA og formaður Eflingar algerir samherjar og er það formanni til efs að til sé meiri hugsjónarmanneskja en Sólveig Anna þegar kemur að því að berjast fyrir kjörum þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi,“ skrifar Vilhjálmur einnig.