Nauðsynlegt er að víkka gildissvið nýs lagafrumvarps um stafrænt pósthólf stjórnvalda til þess að fyrirtæki í einkageiranum geti einnig nýtt sér pósthólfið að mati Creditinfo og Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF). Þetta kemur fram í umsögnum við frumvarpið sem þau hafa sent frá sér.
Frumvarp til laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda var nýlega lagt fram af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. Markmið laganna er „að stuðla að skilvirkri opinberri þjónustu, auka gagnsæi við meðferð mála og hagkvæmni í stjórnsýslu og tryggja örugga leið til að miðla gögnum til einstaklinga og lögaðila. Jafnframt er það markmið laganna að meginboðleið stjórnvalda við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað.“
Frumvarpið kveður á um að stjórnvöld skuli starfrækja stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda. Þar hafi einstaklingar og lögaðilar aðgang að eigin pósthólfi með rafrænni auðkenningu. Þar megi nálgast gögn, jafnt rituð sem í öðru formi, sem verða til við meðferð máls hjá stjórnvöldum, svo sem tilkynningar, ákvarðanir, úrskurði, ákvaðir og aðrar yfirlýsingar.
Fyrirtækjum skylt samkvæmt lögum að senda tilkynningar
Í umsögn Creditinfo kemur fram að lög og reglur skylda einkaaðila á mörgum sviðum til að senda einstaklingum og lögaðilum tilkynningar á skráð lögheimili. Creditinfo sé eitt slíkra fyrirtækja en því er skylt að senda einstaklingum og lögaðilum tilkynningar um fyrirhugaðar skráningar á vanskilaskrá.
Þar er einnig vakin athygli á því að fleiri munu geta nýtt sér pósthólfið þegar fram í sækir. Til dæmis lögmenn í tengslum við mál sem falla undir réttarfarslög sem og aðrir einkaaðilar sem birta ýmsar tilkynningar sem byggjast á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það verði í höndum ráðherra að ákveða hverjum verði heimilt að birta gögn í stafrænu pósthólfi og hvaða skilyrði hvaða skilyrði viðkomandi þurfa að uppfylla.
Því telur Creditinfo það nauðsynlegt að víkka gildissvið fyrirhugaðra laga. Í umsögn fyrirtækisins segir „Creditinfo telur að ef Ísland á að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í sífellt örari tæknibreytingum sé nauðsynlegt að víkka gildissvið fyrirhugaðra laga þannig að þau nái í það minnsta jafnframt til þeirra tilkynninga sem einkaaðilum ber að senda samkvæmt lögum, reglum settum af hinu opinbera eða stjórnvaldsfyrirmælum. Telur félagið því nauðsynlegt að kveðið verði á um það í lögum hvaða öðrum en opinberum aðilum verði heimilt að birta gögn í stafrænu pósthólfi og hvaða skilyrði þeir aðilar þurfa að uppfylla.“
Með slíkri breytingu yrðu markmið lagasetningarinnar um aukið gagnsæi, réttaröryggi og hagræði tryggð frekar að mati Creditinfo.
Fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög fái að nota pósthólfið
Umsögn SFF er í megindráttum sambærileg þeirri frá Creditinfo. Þar segir að fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög gætu fallið í flokk þeirra einkaaðila sem síðar munu fá heimild til að birta gögn í pósthólfinu. Enda beri þeim skylda til að birta viðskiptavinum margs konar tilkynningar og upplýsingar samkvæmt ýmsum sérlögum.
Í umsögn SFF er gerð athugasemd að ekki sé sérstaklega minnst á hugtakið „varanlegur miðill“ í frumvarpinu en samkvæmt lögum ber fjármálafyrirtækjum og vátryggingafélögum skylda til að birta viðskiptavinum upplýsingar á pappír eða öðrum varanlegum miðli.
„Frumvarpið kveður ekki sérstaklega á um að birting í pósthólfinu uppfylli kröfur um að vera birting á varanlegum miðli. Til þess að taka af allan vafa um það leggja SFF til að skerpt verði á ákvæðum frumvarpsins hvað þetta varðar þannig að fjármálafyrirtæki og vátryggingafélög fái skýran valkost að nota pósthólfið sem eina leið af fleirum til að birta viðskiptavinum upplýsingar á varanlegum miðli,“ segir í umsögn SFF.
Sparnaður upp á 300 til 700 milljónir á ári
Í greinargerð frumvarpsins segir frumvarpið muni hafa áhrif á almenning allan verði það samþykkti. Það muni tryggja betra aðgengi að gögnum frá ríkisstofnunum auk þess sem hægt verði að nálgast gögn á fleiri vegu en nú. Biðtími muni styttast auk þess sem öryggi sendinga muni aukast til muna.
Þá munu þessar breytingar leiða til sparnaðar til ríkissjóðs til langs tíma. Til að mynda sé kostnaður við póstburðargjöld ríkisins um 439 milljónir króna á ári. Auk kostnaðar við póstsendingar muni kostnaður við umsýslu starfsmanna, prentun og fleira sparast. „Má því ætla að breytt fyrirkomulag við birtingar hafi í för með sér hagræðingu fyrir ríkissjóð á bilinu 300–700 millj. kr. á ári,“ segir í greinargerðinni.
Þá er í greinargerð einnig sagt að frumvarpið muni hafa jákvæð áhrif á umferð, kolefnislosun og tímanotkun almennings.