Í dag verður dreift á Alþingi nýju frumvarpi þingmanna Bjartrar framtíðar um breytingu á lögum um mannanöfn. Verði frumvarpið að lögum verður mannanafnanefnd lög niður og öll ákvæði laga um hana felld á brott. Auk þess verða allar kvaðir sem lög um mannanöfn fela í sér varðandi ættarnöfn felld á brott. Í greinargerð frumvarpsins segir að meginmarkmið þess sé „að undirstrika þá meginreglu varðandi nöfn og nafngiftir að almennt skuli gert ráð fyrir að nöfn séu leyfð, að foreldrum sé treyst til að velja börnum sínum nafn og að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sé virt“.
Frumvarpið var fyrst lagt fram haustið 2013 en er nú lagt fram aftur með töluverðum breytingum sem miða allar að því að einfalda lögin enn frekar en fyrra frumvarp hafði gert ráð fyrir. Í fyrra frumvarpinu var til að mynda lagt bann við upptöku ættarnafna en hægt var að vísa slíkum málum til ráðherra til frekari skoðunar. Það bann er ekki að finna í nýja frumvarpinu.
Hagsmunir einstaklinga ríkari
Þau rök hafa oft heyrst fyrir tilurð mannanafnanefndar og takmarkanna á frelsi foreldra til að nefna börn sín að frjálsar nafngiftir, án eftirlits ríkisins, geti orðið börnunum til ama.
Hagsmunir einstaklinga af því að fá að heita nafninu sínu eru ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að fólk fái ekki að heita nafninu sínu
Í greinargerð frumvarpsins segir: „Foreldrum á almennt að treysta til að velja börnum sínum nöfn sem eru þeim ekki til ama. Komi upp tilfelli þar sem vafi leikur á því hvort nafn barns geti orðið því til ama má leiða að því líkur að vandi viðkomandi barns sé meiri en svo að ákvæði laga um mannanöfn og þar af leiðandi mannanafnanefnd séu sá aðili sem eigi að leiðbeina foreldrum í foreldrahlutverkinu.[...] Hagsmunir einstaklinga af því að fá að heita nafninu sínu eru ríkari en hagsmunir samfélagsins af því að fólk fái ekki að heita nafninu sínu“.
Árnastofnun leysir ekki vanda Satans Stalínsonar
Heiða Kristín Helgadóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, segir að frumvarpið sé mikilvægt skref í átt að því að eyða afturhaldssemi og höftum í íslensku samfélagi. „Réttur fólks til að bera nafn er mjög nátengdur sjálfsmynd hvers og eins. Löggjafinn þarf að hafa mjög ríka ástæðu til þess hlutast til um nokkuð sem er álíka mikilvægt persónufrelsi borgaranna og nafngift. Þær ástæður sem liggja að baki núverandi löggjöf um verndun íslenskrar nafnahefðar og að nafn megi ekki vera nafnbera til ama er hægt að girða fyrir með öðrum leiðum.
Heiða Kristín Helgadóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar.
Þannig má treysta fólki til að vilja skíra börn sín íslenskum nöfnum í stað þess að skylda þau til þess. Hafi einhver áhyggjur af því að Satönum Stalínsonum muni fjölga verulega má leiða líkur að því að vandi foreldra sem vilja skíra börn sín slíkum nöfnum sé meiri en svo að Árnastofun eigi að koma þar að máli. Barnalög og barnaverndunaryfirvöld eru mun betur til þess fallin og geta brugðist við.“