Þingflokkur Pírata og einn þingmaður Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, hafa lagt fram frumvarp um þrenns konar breytingar á ýsmum lögum sem ætlað er að bæta stöðu kvára og stálpa í samfélaginu.
Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu kemur fram að verði það að lögum verði fólki frjálst að velja endingu foreldrisnafns óháð opinberri kynskráningu. „Þá verður öryggi fólks á ferðalögum aukið með því að heimila fólki með hlutlausa skráningu kyns að eiga aukavegabréf með annarri kynskráningu. Að lokum er lagt til að útgáfa aukavegabréfs og endurnýjun vegabréfs vegna breyttrar kynskráningar verði gjaldfrjáls.“
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Andrés Ingi Jónsson en auk hans eru Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eva Sjöfn Helgadóttir, Gísli Rafn Ólafsson og Halldóra Mogensen úr Pírötum á frumvarpinu auk áðurnefndrar Hönnu Katrínar úr Viðreisn.
Vilja leiðrétta skekkju
Fyrsta breytingin snýr að því að kynskráning hafi ekki áhrif á það hvers konar foreldrisnöfn fólk má velja sér. Þannig verði orðin foreldri eða foreldrisnöfn tekin upp í lögum um mannanöfn í stað „föður- og móður“ eða „föður- og móðurnafna“. Þá verði orðin foreldri foreldri síns tekin upp í stað „afa síns“. Foreldrisnöfn eru mynduð þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum og millinafni, ef því er að skipta, kemur nafn foreldris í eignarfalli með eða án viðbótarinnar son, dóttir eða bur. Þá verði orðin „hvort heldur er í karllegg eða kvenlegg“ í lögunum felld á brott.
Gjaldfrjáls aukavegabréf fyrir þá sem óttast ama á ferðalögum
Önnur breytingin er að hægt verði að gefa út aukavegabréf til fólks sem hefur ástæðu til að óttast að kynhlutlaus skráning í vegabréfi verði því til ama á ferðalögum. Í greinargerð segir að fyrir því séu dæmi í lögum um heimild til útgáfu aukavegabréfa, t.d. til einstaklinga sem ferðast mikið til útlanda vegna vinnu. „Með þessum hætti geta stjórnvöld unnið að auknu öryggi kynsegin einstaklinga. Svo virðist sem ekki hafi verið hugsað fyrir þessum veruleika þegar lög um kynrænt sjálfræði voru sett. Markmið þessa frumvarps er að bæta úr því og bregðast þannig við ákalli þeirra einstaklinga sem lögum um kynrænt sjálfræði var ætlað að standa vörð um.“
Þriðja breytingin sem þingmennirnir vilja koma í gegn er að útgáfa nýs aukavegabréfs verði gjaldfrjáls. „Einstaklingar ættu ekki að þurfa að greiða aukalega fyrir þau mannréttindi sem átti að tryggja þeim með lögum um kynrænt sjálfræði.“