Samkeppniseftirlitið kallar eftir því að tekin verði „dýpri umræða“ um það hvort hægt sé að gera breytingar umgjörð löggjafans og annarra stjórnvalda um starfsemi lífeyrissjóða, sem til þess væru fallnar „að draga úr mögulegum skaðlegum áhrifum þess á samkeppni að sami lífeyrissjóður eigi veigamikinn eignarhlut í fleiri en einum keppinauti á sama markaði.“
Þetta kemur fram í umsögn eftirlitsins um drög að frumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að hækka hlutfall þeirra eigna sem lífeyrissjóðir mega eiga erlendis. Líkt og Kjarninn hefur greint frá stendur til að hækka hlutfallið úr 50 í 65 prósent yfir langt tímabili – frá byrjun árs 2024 til loka árs 2038 – en djúpstæð óánægja er innan lífeyrissjóðakerfisins yfir því hversu hæg skref á að taka. Landssamtök lífeyrissjóða hafa varað við ruðningsáhrifum og bólumyndun ef stærri skref verði ekki tekin í því að hleypa sjóðunum út til fjárfestingar.
Eiga stóra hluti í fyrirtækjum sem keppa við hvort annað
Gagnrýni Samkeppniseftirlitsins er hins vegar að öðrum toga. Það styður rýmkun á heimildum sjóðanna til fjárfestinga erlendis en fjallar að uppistöðu um þær áhyggjur sínar að umgjörð löggjafans og annarra stjórnvalda um starfsemi lífeyrissjóða, sem til þess væru fallnar að draga úr mögulegum skaðlegum áhrifum þess á samkeppni að sami lífeyrissjóður eigi veigamikinn eignarhlut í fleiri en einum keppinauti á sama markaði. Þannig er staðan í dag, en sjóðir eiga stóra hlut í bönkum, smásölufyrirtækjum, tryggingafélögum, fjarskiptafyrirtækjum og fasteignafélögum, svo fátt eitt sé nefnt, sem eiga að vera í samkeppni sín á milli.
Óttast bólumyndun og ruðningsáhrif
Kjarninn greindi frá því í gær að í umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða um frumvarpsdrögin segi að æskilegt sé að byrja að hækka heimild lífeyrissjóða til að fara út til að fjárfesta strax um næstu áramót og hækka hana um tvö til þrjú prósentustig á ári þangað til að 65 prósent markinu yrði náð. Ef farið yrði að ítrustu kröfum sjóðanna myndi það takmark nást í árslok 2027 að óbreyttu.
Fulltrúar þeirra sjóða sem eru næst hámarkshlutfalli eigna erlendis telja einfaldlega að boðuð skref séu allt of varfærin og ná yfir of langt tímabil. Afar brýnt sé að fara hraðar í breytingar „með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi“.
Í umsögn samtakanna sagði að ef „hömlur á fjárfestingar í erlendum gjaldmiðlum gera það að verkum að stórir sjóðir neyðast til að fjárfesta í innlendum eignum umfram það sem þeir telja æskilegt út frá hagsmunum sinna sjóðfélaga verður að sama skapi talsverð hætta á ruðningsáhrifum og bólumyndun á innlendum eignamarkaði sem getur leitt til þess að innlend eignasöfn lífeyrissjóða verði að einhverju leyti ósjálfbær til framtíðar“.
Samtök atvinnulífsins eru á meðal annarra sem skiluðu umsögn um frumvarpsdrögin og styðja þar nálgun fjármála- og efnahagsráðherra um að hækka þakið á erlendum fjárfestingum lífeyrissjóða varfærnislega og yfir langt tímabil.