Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, vill auka náttúrulíf borgarinnar með því að gera almenningsgarða „villta“ á ný og hvetja fólk til að þökuleggja þök húsa sinna. Unnið verður að verkefninu í samstarfi við breska umhverfisráðuneytið. Ben Goldsmith ráðherra umhverfismála segir að gangi þessar fyrirætlanir eftir verði fleiri villtar tegundir, bæði gróður og dýr, í borgarlandinu.
Í frétt The Guardian um málið segir að Khan hafi tryggt verkefninu 600 þúsund pund en það er hluti af því markmiði að ná kolefnishlutleysi í London. Meira fé þarf til og mun verkefnisstjórn sem skipuð hefur verið leita framlaga frá einkaaðilum.
„Allt fólk þarf að finna náin tengsl við náttúruna en þetta er langt í frá raunveruleiki margra Lundúnabúa í dag,“ hefur Guardian eftir Goldsmith. Til að endurheimta „náttúru borgarinnar okkar,“ segir Goldsmith, munu lækir renna á ný, varpkössum komið upp fyrir fugla og önnur dýr og tegundum sem eitt sinn bjuggu á því svæði sem London hefur risið og breitt úr sér á verður komið þar fyrir á ný.
1.600 reitir í London, eða um 20 prósent borgarlandsins, hafa verið skilgreindir sem náttúrusvæði. Á þessum svæðum má m.a. finna alla helstu almenningsgarða en talið er að náttúran eigi undir högg að sækja í um helmingi þeirra.
Í verkefni Khan og Goldsmiths verður einblínt á 20-30 þessara svæða og m.a. reynt að koma þar aftur upp stofnum förufálka, hjartarbjalla og stúfmúsa. Markmið borgarstjórans er að allir Lundúnabúar búi í innan við tíu mínútna göngufjarlægð frá grænum svæðum. Ef vel tekst til er talið að hægt verði að draga úr loftmengun og flóðahættu.
Khan hefur minnt á að nær hvergi í heiminum hafi verið gengið meira á ósnortna náttúru en í Bretlandi. „Við verðum að taka djarfar ákvarðanir í London til að tryggja að við ekki aðeins hægjum á hnignun líffræðilegs fjölbreytileika í umhverfinu heldur að við undirbúum jarðveginn fyrir vöxt og breytingar.“