Ríkisstjórn Joes Biden áformar að bjóða fjölskyldum sem var stíað í sundur á landamærum Bandaríkjanna í stjórnartíð Donalds Trump bætur. Til stendur að bjóða hverjum einstaklingi sem fyrir þessu varð 450 þúsund dali sem samsvarar um 56 milljónum króna að því er heimildir Wall Street Journal herma. Í grein Wall Street Journal segir að innanríkisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið standi í viðræðunum fyrir hönd ríkisstjórnar Bidens og að rætt sé um að bæturnar nemi tæpri einni milljón dala fyrir hverja fjölskyldu sem ströng innflytjendastefna Trumps bitnaði á þar sem hver þeirra hafi yfirleitt samanstaðið af einum fullorðnum einstaklingi og einu barni.
Með þessu reynir stjórn Bidens að ná sáttum í fjölda dómsmála sem höfðuð hafa verið af hálfu foreldra og barna sem voru aðskilin við komuna yfir landamærin frá Mexíkó í leit að hæli.
Í frétt Wall Street Journal segir að samningaviðræður nái nú þegar til 940 fjölskyldna sem segja bæði fullorðna og börn sem aðskilin voru hafa orðið fyrir miklu áfalli og glíma við langvarandi kvíða, streitu og aðra heilsufarslega erfiðleika. Í sumum tilvikum voru börn aðskilin frá foreldrum sínum mánuðum og jafnvel árum saman.
Biden hét því í kosningabaráttunni að gera róttækar breytingar á innflytjendalöggjöfinni og er nú undir miklum þrýstingi að standa við þau loforð.
Er Trump komst til valda árið 2016 hóf hann undirbúning að hertri innflytjendalöggjöf. Árið 2018 færði hann svokallaða „núll stefnu“ gagnvart innflytjendum í lög sem gekk út á að koma í veg fyrir með öllum ráðum að fólk sem ekki hefði tryggt sér dvalarleyfi kæmist inn í Bandaríkin. Stefnan fólst einnig í því að leita uppi óskráða innflytjendur sem þegar voru komnir til landsins og höfðu sumir hverjir búið þar árum og jafnvel áratugum saman.
Komið fyrir í fóstri
Samkvæmt lagabreytingunni var koma til Bandaríkjanna án dvalarleyfa gerð ólögleg og fullorðið fólk var sótt til saka fyrir slíkt og vísað úr landi. Börn þeirra, meðal annars ungbörn, voru tekin af foreldrum sínum eða öðrum forráðamönnum og sett í sérstakar búðir. Þaðan voru þau svo flutt til ýmissa staða innan Bandaríkjanna, er rifjað upp í frétt Al Jazeera um málið. Mörgum þeirra var komið fyrir í fóstri.
Talið er að þetta hafi verið gert við meira en 5.500 fjölskyldur.
Stefna Trumps var gagnrýnd harðlega um allan heim og aðeins nokkrum mánuðum eftir að hún var sett á var hún afnumin. Hins vegar var stefnunni bæði framfylgt áður en hún var sett í lög og einnig lengi eftir að hún var sögð fallin úr gildi.
Mannréttindasamtökin American Civil Liberties Union (ACLU) segja að enn séu nokkur hundruð fjölskyldur aðskildar. Þau segja að Trump-stjórnin hafi ekki haldið nákvæma skráningu um fólkið sem tekið var við landamærin með þessum hætti og því sé oft ómögulegt fyrir foreldra að hafa uppi á börnum sínum.
Þrátt fyrir að Biden hafi gagnrýnt stefnu Trump harðlega hefur hann ekki afnumið lagaákvæði um að hægt sé að vísa hælisleitendum frá Bandaríkjunum um leið og þeir koma yfir landamærin í suðri sem gerir þeim ókleift að sækja um hæli í landinu. Stjórnvöld hafa sagt að ákvæðið sé enn í gildi vegna heimsfaraldursins. Ein breyting hefur þó verið gerð sem er að börn sem koma ein yfir landamærin frá Mexíkó geta sótt um hæli og er ýmist komið í umsjá ættingja í Bandaríkjunum eða stuðningsfulltrúa sem ríkið útvegar þeim.