Viðreisn vill selja eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka á næsta ári, svo lengi sem að aðgerðin við söluna verði opin og gegnsæ, og nýta söluandvirðið til að greiða niður opinberar skuldir. Þá vill flokkurinn hækka veiðigjöld um sex milljarða króna og leggja kolefnisgjöld á stóriðju sem eiga að skila 13,5 milljörðum króna í nýjar ríkistekjur. Flokkurinn vill enn fremur ráðast í markvissar hagræðingaraðgerðir til þess að greiða niður opinberar skuldir, meðal annars með því að draga til baka fjölgun ráðuneyta og ráðherrastóla frá upphafi kjörtímabils, en auka framlög til barnafjölskyldna og heilbrigðiskerfisins.
Þetta er meðal þeirra tillagna að breytingum á fjárlagafrumvarpinu sem Viðreisn leggur til.
Í tilkynningu frá flokknum segir að með þeim aðgerðum sem hann leggi til verið tekist á við hallarekstur ríkisins – sem er nú áætlaður 119 milljarðar króna á næsta ári – að þjóðin „fái sanngjarna greiðslu fyrir nýtingu á sjávarauðlindinni, að grænir skattar og hvatar verði nýttir til að takast á við loftslagsvandann, að fjárfest verði í heilbrigðiskerfinu, sérstaklega með því að bæta þar hag kvennastétta og síðast en ekki síst að stutt verði við barnafjölskyldur í landinu, sem finna mjög fyrir verðbólgu og háum vöxtum.“
Vilja fækka ráðherrum og spara þrjá milljarða
Viðreisn telur fjárlagafrumvarpið gera lítið til að draga úr verðbólgu, sem nú er 9,3 prósent, og þenslu. Það felist mikil tækifæri í hagræðingu í ríkisrekstrinum. Til dæmis mætti spara þrjá milljarða króna með því að draga til baka fjölgun ráðuneyta og ráðherra í tólf, líkt og ákveðið var að gera í upphafi þessa kjörtímabils þegar Vinstri græn, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur endurnýjuðu stjórnarsamstarf sitt.
Viðreisn vill að skuldir ríkisins verði lækkaður um 20 milljarða króna strax á næsta ári.
Til að mæta þessum kostnaðarauka vill Viðreisn láta veiðigjöld endurspegla markaðsvirði veiðiréttinda. „Methagnaður hefur verið í sjávarútvegi en í fyrra nam hann um 65 milljörðum eftir skatta og gjöld. Markaðsvirði veiðiréttinda nú er um sex milljörðum hærri en núverandi veiðigjöld. Viðreisn leggur til hækkun sem því nemur.“
Þá segir í tilkynningu flokksins að Ísland eigi að vera í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. „Öflugasta og skilvirkasta verkfæri stjórnvalda til þess eru hagrænir hvatar á borð við kolefnisgjald sem leggist á alla losun. Lögð verði á kolefnisgjöld á stóriðju, sem hingað til hefur verið undanþegin slíkum gjöldum þrátt fyrir að vera ein stærsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Það mun auka tekjur ríkissjóðs um 13,5 milljarða.“
Selja bankann ef aðferðin verður opin og gagnsæ
Síðasta tillaga Viðreisnar snýr að frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka, en ríkið á enn 42,5 prósent hlut í bankanum. Frekari sala var sett í salt í apríl á meðan að Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitið rannsökuðu síðasta söluferli, þegar 22,5 prósent hlutur var seldur í lokuðu tilboðsfyrirkomulagi fyrir 52,65 milljarða króna til 207 fjárfesta.
Ríkisendurskoðun skilaði nýverið skýrslu sinni og felldi þar margháttað áfelli yfir Bankasýslu ríkisins og söluferlinu. Að mati stofnunarinnar voru annmarkar söluferlisins fjölmargir sem lúta bæði að undirbúningi og framkvæmd sölunnar. Í skýrslunni segir meðal annars að ljóst megi vera að „orðsporðsáhætta við sölu opinberra eigna var vanmetin fyrir söluferlið 22. mars af Bankasýslu ríkisins, fjármála- og efnahagsráðuneyti og þingnefndum sem um málið fjölluðu í aðdraganda sölunnar.“ Hægt hefði, að mati Ríkisendurskoðunar, að fá hærra verð fyrir eignarhlut ríkisins en ákveðið var að selja á lægra verði til að ná fram öðrum markmiðum en lögbundnum. Þá hafi huglægt mat ráðið því hvernig fjárfestar voru flokkaðir.
Ekki er búist við að Fjármálaeftirlitið klári sína rannsókn á ýmsum öngum söluferlisins fyrr en snemma á næsta ári.
Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er reiknað með að eftirstandandi hlutur ríkisins í Íslandsbanka verði seldur, jafnvel þótt salan sé á ís. Tekjur vegna þessa eru áætlaðar 79 milljarðar króna. Innheimtist þær ekki mun þurfa að fjármagna það gat með lántöku.
Viðreisn segir í tillögupakka sínum að fjárlagafrumvarpið vanmeti verðmæti eignarhluta síns í Íslandsbanka um 13 milljarða króna, og áætla því að vænt söluvirði geti orðið 92 milljarðar króna. Flokkurinn leggur til að eftirstandandi eignarhlutur í Íslandsbanka verði seldur, að því tilskildu að aðferðin við sölu verði opin og gegnsæ, og að söluandvirðinu verði varið til niðurgreiðslu skulda.